Hræðslan við Frankenstein

Í gær tilkynnti bandaríska líftæknifyrirtækið ATC, Advanced Cell Technology að þeim hefði tekist fyrstum allra að klóna fósturvísi úr manni. Hverjar verða afleiðingarnar?

Í gær tilkynnti bandaríska líftæknifyrirtækið ATC, Advanced Cell Technology að þeim hefði tekist fyrstum allra að klóna fósturvísi úr manni. Ætlun þeirra er þó ekki að klóna manneskju heldur nota stofnfrumur til lækninga á sjúkdómum á borð við Parkinson og Alzheimer.

Leiðin að þessu marki hefur verið skemmri en almenning óraði fyrir. Fræðilega yrðu fósturvísarnir sem ATC bjó til að fóstri ef þeim yrði komið fyrir í legi og loks svo að fullburða manneskju. Þessi áfangi mun án efa stigmagna umræðuna um hve langt á að ganga í klónunartækninni.

Notkun fósturvísa í lækningaskyni hefur einnig verið mjög umdeild. Hér kemur fyrst og fremst til rökræðan um hvenær manneskja verður til. Verður hún til við fæðingu, getnað eða einhversstaðar þar á milli? Notkun klónaðra fósturvísa mun flækja þessa umræðu enn meira því líklegt er að menn eigi eftir að greina á um hvort klón hafi sama rétt og „alvöru fósturvísar”.

Það er ljóst að þróun þessarar tækni getur haft í för með sér byltingu í læknavísindunum en á móti koma siðferðileg og trúarleg viðhorf sem taka verður tillit til. Getum við fallist á að menn verði fjöldaframleiddir til ákveðinna verkefna og við getum keypt Nilfisk stofupíu til að létta okkur heimilisstörfin eða eigum við að láta þetta vera með öllu?

Þetta er ekki síst umdeilt vegna þess að flest erum við hrædd við þessa tækni. Við skiljum hana ekki og gerum okkur ekki grein fyrir hvaða afleiðingar þróun hennar hefur. Hugsunin um að hægt verði að búa til einhverskonar ofurmenni eða ófreskjur er ekki langt undan. Þetta er ekki ósvipað hræðslunni við byltingu tölvanna sem var vinsælt skáldsagnaefni fyrir nokkrum árum.

Með þessari tækni er hugsanlega hægt að vinna bug á fjölda sjúkdóma og gera fólki kleyft að eignast börn, sem hefur ekki getað það hingað til. Við verðum þó að fara okkur hægt og ná eins mikilli sátt um þessi mál og unnt er. Þótt það sé ekki mjög langt þangað til fyrsta klónaða manneskjan fæðist er líklega langt þangað til þessi aðferð til fjölgunar skákar þeirri gömlu góðu.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)