Þriðja kynslóð farsíma

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um þriðju kynslóð farsíma. Markmið frumvarpsins sem lagt hefur verið fram á að vera að tryggja hagsmuni neytenda og virka samkeppni á íslenskum farsímamarkaði. Ekki er víst að það takist.

Þriðju kynslóðar farsímakerfi þar sem áherslan er lögð á gagnaflutninga opnar nýja notkunarmöguleika til samskipta. Miklar vonir hafa verið bundnar við þriðju kynslóðar farsímakerfi en kerfið mun meðal annars veita notendum aðgang að internetinu auk möguleika á alls konar margmiðlun svo sem myndsendingar og hágæða hljóðsendingar. Vonast er til að tilkoma þessarar tækni muni skapa grunninn að þráðlausum breiðbandstengingum sem muni veita notendum fjölbreytta þráðlausa þjónustu.

Nú eru liðin rúm þrjú ár síðan Evrópusambandið ákvað samræmda innleiðingu þriðju kynslóðar farsímakerfa innan þess. Samkvæmt ákvörðun EES-nefndarinnar hvílir sú skylda á íslenskum stjórnvöldum að innleiða löggjöf um þriðju kynslóð farsíma. Eftirlitsstofnun EFTA hefur ítrekað við íslensk stjórnvöld að hraða úthlutun tíðna en nú hefur tíðnum verið úthlutað í öllum aðildarríkjum ESB.

Seinagangur íslenskra stjórnvalda hefur ekki komið að nokkurri sök þvert á móti hefur verið skynsamlegt að bíða enda hefur þróun tækninnar tekið lengri tíma en búist var við í upphafi. Í Evrópu hafa verið sett upp tilraunakerfi á afmörkuðum svæðum en í Japan hefur tæknin verið í notkun í um tvö ár.

Markmið frumvarpsins sem lagt hefur verið fram á að vera að tryggja hagsmuni neytenda og virka samkeppni á íslenskum farsímamarkaði. Í frumvarpinu er lagt til að fjórum af sex mögulegum tíðnisviðum fyrir þriðju kynslóð farsíma verði úthlutað að loknu almennu útboði. Verði tilboðin fleiri en fjögur verða þau metin með tilliti til fyrirhugaðrar útbreiðslu og hversu hratt til stendur að byggja kerfið upp.

Lágmarkskrafa verður gerð um að útbreiðsla farsímanetsins nái til 60% íbúa eftirfarandi svæða: höfuðborgarsvæðis; Vesturlands, Vestfjarða og Norðurlands vestra; Norðurlands eystra og Austurlands; Suðurlands og Suðurnesja. Reikisamningar verða leyfðir en krafa gerð um að minnsta kosti 30% á hverju svæði verði í eigu hvers aðila. Tíðnisviðinu verður úthlutað í 15 ár og verður innheimt tíðnigjald 190 millj. kr. Af því verður þó veittur 10 millj. kr. afsláttur fyrir hvert 1% í útbreiðslu umfram 60%.

Í meginatriðum eru þrjár leiðir færar þegar úthluta á takmörkuðum gæðum eins og tíðnisviðum. Hægt er að byggja úthlutunina á hefð, halda uppboð eða leita tilboða með útboði. Í Evrópu hefur tíðnisviðum fyrir þriðju kynslóðar farsímakerfi verið úthlutað með annað hvort uppboði eða einhvers konar útboði.

Umdeilanlegt er hvernig heppilegast sé að standa að þessu hér á landi. Það er síður en svo ljóst að fjórir eða fleiri aðilar hafi áhuga á að byggja upp grunnnet þriðju kynslóðar farsíma sérstaklega þegar gerð er krafa um jafn víðtæka útbreiðslu eins og gerð er. Hafi hins vegar fleiri en fjórir áhuga er væntanlega skynsamlegra að fara uppboðsleiðina sem hefur þann kost að tíðnisviði er úthlutað til þess sem telur sig geta búið til mest verðmæti úr því.

Aðalkostnaðurinn mun liggja í fjárfestingunni í uppbyggingu kerfisins sjálfs. Í okkar strjábýla landi er áætlað að fjárfestingin verði um 10-15 miljarðar. Krafan um lágmarksútbreiðslu eykur kostnaðinn verulega og mun verða notendum kostnaðarsöm. Til þess að uppfylla hana er ekki nóg að þjónusta þéttbýli heldur þarf einnig að setja upp senda í dreifbýli en það er eins og gefur að skilja dýrt. Eðlilegra væri að láta markaðsaðstæður ráða útbreiðslunni. Krafan um lágmarksútbreiðslu virðist varla geta stuðlað að yfirlýstum markmiðum frumvarpsins sem er að tryggja hagsmuni neytenda og virka samkeppni á íslenskum farsímamarkaði.

Latest posts by Eðvarð Jón Bjarnason (see all)