Blair í vanda

Nú eru hersveitir Bandaríkjamanna komnar í viðbragðsstöðu, bæði sunnan og norðan við Írak, á meðan tekst alþjóðasamfélagið á við þær spurningar hvort stríð sé nauðsynlegt og hvort það sé réttlætanlegt. En að Downingstræti 10 situr forsætisráðherra Breta og glímir við samflokksmenn sína.

Tíminn er að renna út, stríð við Persaflóa vofir yfir heiminum en hersveitir Bandaríkjamanna eru komnar að suður landamærum Íraks í Sádí-Arabíu og að norður landamærunum í Tyrklandi. Einnig er byrjað er að flytja friðargæslusveitir SÞ frá líklegum átakasvæðum. Vopnaeftirlitsmenn vilja nokkra mánuði til viðbótar en Bandaríkjamenn eru því mótfallnir. Þeir segja að það skipti engu máli þar sem samvinna Íraka er hvort er eð með minnsta móti og að eina viðunandi niðurstaða málsins sé sú niðurstaða sem öryggisráðið hefur þegar samþykkt einróma, þ.e. full afvopnun.

Tekist er á um það í alþjóðasamfélaginu hvort stríð gegn Írak sé óumflýjanlegt og hvort það sé réttlætanlegt. Bandaríkjaforseti virðist vera nokkuð einarður í sinni afstöðu og vill ganga á milli bols og höfuðs á Saddam Hussein, hvað sem það kostar. Jimmy Carter, fyrrum forseti Bandaríkjanna, hefur sagt að undirbúningur Bandaríkjanna að einhliða hernaðaraðgerðum gegn Írak sé með öllu óréttlætanlegar og segir hann að þær eigi sér vart fordæmi í sögu siðmenntaðra þjóða. Að mati Bush er einræðisherrann í Bagdad aftur á móti verndari og einn af helstu fjárhagslegum bakhjörlum alþjóðlegra hryðjuverkamanna og skal honum komið frá með góðu eða illu.

Einn helsti bandamaður stjórnvalda í Washington eru Bretar sem oftast nær hafa fylgt Bandaríkjamönnum að máli frá lokum síðara stríðs. En Evrópuríkin eru klofin í sinni afstöðu þar sem Frakkar, Þjóðverjar og Rússar eru mótfallnir innrás í Írak á meðan ríkisstjórnir mun fleiri Evrópuríkja virðast þó vera tilbúnar að fylgja Bretum að máli og styðja ráðagerðir Bandaríkjanna. Nú er líklegt að ályktun Breta og Bandaríkjamanna sem heimilar hernað gegn Írökum, hafi þeir ekki farið að fyrri ályktunum um afvopnun fyrir 17. mars, verði samþykkt í öryggisráðinu með 9 til 10 atkvæðum af 15. Frakkar hafa gengið lengst allra þjóða í öryggisráðinu gegn þessari ályktun og einir hótað því að beita neitunarvaldi, en það hafa hvorki Rússar né Kínverjar til að mynda ekki gert.

En helstu vandamál Tonys Blairs þessa dagana er þó að finna á hans eigin heimili. Í gær varaði Doug Henderson, fyrrum hermálaráðherra Breta, Tony Blair við því að þingmenn Verkamannaflokksins muni gera uppreisn og að ráðherrar muni segja af sér ef stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum Íraks breytist ekki. Allt stefnir því í ögurstund í sögu Verkamannaflokksins þar sem gert er ráð fyrir að allt að 150 þingmenn muni brjótast undan flokksaganum. Nánustu samstarfsmenn Blairs hafa gert lítið úr þessari hugsanlegu andstöðu og lofað stefnufestu forsætisráðherrans. Blair virðist sannfærður um að hann sé að gera rétt og að nauðsynlegt sé að steypa einræðisherranum í Bagdad af stóli sem allra fyrst, með öllum tiltækum ráðum.

Verkamannaflokkurinn hefur sjaldan mælst lægri í skoðanakönnunum frá því að Blair tók við formennsku en einmitt nú. Ekki stafar Blair þó hætta af andstæðingum sínum í Íhaldsflokknum þar sem sá flokkur er ekki líklegur til afreka um þessar mundir. En það er engu að síður spurning hvort þetta sé upphafið að endanum hjá hinum vinsæla forsætisráðherra og að hans bíði sömu örlög og Thatcher forðum, að verða felldur af samherjum.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.