Á ríkið að fjármagna menntakerfið?

Ríkið á að tryggja jafnrétti til náms. En það er ekki þar með sagt að ríkið þurfi að fjármagna menntakerfið. Flest nám er arðbært og því ættu nemendur að geta borgað fyrir það. Í stað þess að fjármagna allt nám ætti ríkið að tryggja að nemendur geti fjármagnað nám sitt með námslánum.

Í hugum flestra Íslendinga er svarið við þessari spurningu afdráttarlaust já. Stór hluti þjóðarinnar vill raunar ekki heyra á annað minnst og sker upp herör þegar bryddað er upp á þessu umræðuefni. Þetta er einkennilegt í ljósi þess að færa má ágætis rök gegn því að ríkið fjármagni menntakerfið.

Menntun er í stórum dráttum fjárfesting sem skilar arði. Þegar litið er á menntun frá þessum sjónarhóli er ekki lengur ljóst af hverju þeir sem ráðast í þessa fjárfestingu og njóta arðsins af henni séu ekki látnir borgar fyrir hana.

En þetta er vitaskuld ekki svona einfalt. Alls kyns „ytri áhrif” fylga menntun. Við höfum með öðrum orðum öll hag af menntun hvers annars. Af þessum sökum er skynsamlegt að við niðurgreiðum að einhverju leyti menntun hvers annars.

Þeir sem eru hvað andvígastir breytingum á fjármögnun menntakerfisins byggja afstöðu sína hins vegar oftast nær ekki á þessum ytri áhrifum. Að þeirra mati er æskilegt að ríkið fjármagni menntakerfið þar sem það er eina leiðin til þess að tryggja öllum í samfélaginu jafnan rétt til þess að afla sér menntunar.

Þetta er einfaldlega ekki rétt. Í stað þess að fjármagna menntakerfið gæti ríkið búið þannig um hnútana að allir landsmenn ættu kost á því að taka lán á sanngjörnum kjörum til þess að fjármagna menntun sína.

Nú er ég viss um að marga hryllir við þessari uppástungu. Þessi hrollur á sér vísast þrjár uppsprettur. Í fyrsta lagi orsakast hann af því að flest erum við óvön því að hugsa um menntun sem fjárfestingu sem skilar arði. Það segir sína sögu um núverandi menntakerfi. Í örðu lagi orsakast hann af því að við vitum að sum menntun skilar ekki arði en við viljum samt að fólk eigi þess að kost að stunda slíka menntun. Í þriðja lagi orsakast hrollurinn væntanlega af því að við vitum að flest okkar er mein illa við að skulda. Því er allt eins líklegt að fólk kjósi að afla sér minni menntunar en ella ef það þarf að steypa sér í miklar skuldir jafnvel þótt menntunin skili arði og allir eigi kost á lánum á sanngjörnum kjörum.

Á móti kemur að einkafjármögnun menntakerfisins hefur mikilvæga kosti. Hún myndi gera ríkinu kleift að lækka skatta verulega. Þar að auki myndi hún að öllum líkindum leiða til hugarfarsbreytingar á meðal nemenda. Nemendur yrðu mun meðvitaðri um kostnaðinn sem menntun þeirra fylgir og myndu því að öllum líkindum taka nám sitt alvarlegar og gera auknar kröfur varðandi gæði þess náms sem þeim er veitt.

Í ljósi þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið reyfuð vil ég leggja til að fjármögnun menntakerfisins verði breytt á eftirfarandi hátt: Ríkið hætti beinni fjármögnun menntakerfisins. Ríkið breyti Lánasjóði íslenskra námsmanna þannig að hann veiti lán fyrir allri menntun á öllum skólastigum (sem uppfyllir einhver lágmarks skilyrði) á vöxtum sem eru jafnir hálfum stýrivöxtum Seðlabanka Íslands á hverjum tíma (eða eitthvað í þeim dúr). Þar að auki veiti ríkið hverjum nemenda ávísun á menntun að upphæð 150.000 kr. á ári (eða eitthvað í þeim dúr). Ríkið veiti skólum aukið fjárhagslegt sjálfstæði þar með talið frelsi til þess að ákvarða skólagjöld sín.

Kerfi af þessum toga sameinar í stórum dráttum öll ofangreind sjónarmið. Það tryggir öllum jöfn tækifæri til þess að afla sér menntunar. Það niðurgreiðir menntun verulega sem ætti að koma í veg fyrir að fólk veigri sér við að afla sér menntunar og gerir fólki einnig kleift að stunda nám sem ekki skilar miklum arði. Jaðarkostnaðurinn af náminu lendir hins vegar á nemendum sem ætti að leiða til þess að þeir taki nám sitt alvarlega og geri miklar kröfur um gæði námsins. Þar að auki myndi þetta kerfi leiða til aukinnar samkeppni á milli skóla sem myndi að öllum líkinum skila sér í betra menntakerfi.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.