Fyrirkomulag kosninga til Stúdentaráðs

Á morgun, 26. febrúar, hefjast kosningar til Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Ákveðið hefur verið að stofna nefnd að loknum kosningum sem endurskoða á kosningalögin í takt við breytt skipulag kennslunnar. Þar að auki hefur einn listi bæst við sem gert hefur einstaklingskosningu að baráttumáli sínu. Það er því ekki úr vegi að fjalla um kosningafyrirkomulagið í pistli dagsins.

Til stúdentaráðs eru kosnir 18 einstaklingar. Að nafninu til eiga þeir að vera kosnir til tveggja ára í senn. Hugmyndin með því er að nýta þá reynslu sem eldri stúdentaráðsliðar hafa aflað sér. Sá hængur er hins vegar á að upp gæti komið sú staða að tvær fylkingar hafi jafn mörg sæti í ráðinu og ómögulegt sé að mynda meirihluta.

Sú staða kom seinast upp í árdaga Röskvu og var upp frá því ákveðið að úrslit kosninga myndu hafa áhrif aftur í tímann. Þ.e. fái fylking fjóra menn kjörna árið 2003 fara fjórir efstu menn á listanum frá 2002 einnig inn. Sannleikurinn er því sá að stúdentaráðsliðar eru því ekki kosnir til tveggja ára heldur eru í framboði tvö ár í röð. Margir gallar eru á því fyrirkomulagi. Til dæmis skapast ákveðið ójafnvægi milli nýrra og eldri framboða. Nái Háskólalistinn, þriðja framboð til stúdentaráðs, manni inn fer næsti maður á listanum einnig inn vegna þess að listinn bauð ekki fram í fyrra.

Heppilegra kerfi væri að láta alla stúdentaráðsliða vera kosna til tveggja ára nema seinasta mann inn á hverju ári. Hann sæti aðeins í eitt ár og dytti síðan út. Fjöldi stúdentaráðsliða yrði þá oddatala og minni hætta á stjórnarkreppu. Önnur hugmynd væri að láta menn vera kosna til eins árs í senn og vilji menn síðan virkja kraft hinna eldri og reyndari geta þeir einfaldlega boðið sig fram aftur.

Sumum finnst það slæmt hve lítil áhrif þeir hafa á hvaða einstaklingar séu kosnir til ráðsins. Framboðin leggja fram tilbúna lista sem erfitt er að hafa áhrif. „Einstaklingskosning“ mun því alltaf vera mikið tískuorð. Vandi við einstaklingskosningar er að þær eru erfiðar í framkvæmd. Erfitt er að finna aðferð sem kemur í veg fyrir hvers kyns slys. Tökum sem dæmi tillögu Háskólalistans:

Háskólalistinn leggur til að fólk númeri frambjóðendur á seðlum sínum. Sá sem flest flest atkvæði hlýtur í 1.sæti verður Stúdentaráðsliði nr. 1. Sá sem flest flest atkvæði hlýtur í 1-2.sæti verður Stúdentaráðsliði nr. 2. o.s.frv..

Vægast sagt skelfileg hugmynd. Þetta kerfi, sem vinsælt er í prófkjörum hentar mjög illa til kosninga þar sem fólk skiptist í fylkingar. Gerum ráð fyrir að tveir listar séu í framboði. X-listi fær um 1500 atkvæði en Y-listi 1400. Kjósendur listanna hafa langflestir ákveðið fylgja fyrirframgefinni röð á listunum sínum þ.a. fyrsti maður á X-lista fékk 1500 atkv. í 1. sæti, annar maður fékk 1500 atkv í 2. sæti o.s.frv.

Nú er 1. maður á X-lista með flest atkv. í 1. sæti og hann kemst inn. Annar maður á X-lista er með 1500 atkvæði í 1.-2. sæti en 1. maður á Y-lista með 1400. Næsti maður inn kemur þá líka frá X-listanum. Svona gengur þetta koll af kolli og X-listinn fær alla menn inn þrátt fyrir aðeins 100 atkvæða mun.

Ég veit ekki hvað fólk í Háskólalistanum var að hugsa þegar það setti fram þessar tillögur. Það er ljóst að þær munu ekki auka persónukosningu því um sannkallað „Winner takes til all“ kerfi er að ræða. Lesendum er látið eftir að ákveða hvort um sé að ræða stórkostlega vanhugsun eða djöfullegt plott.

Hitt er svo annað mál að ég hef saknað tillagna frá Vöku og Röskvu um þetta mál. Til stendur að endurskoða lögin strax eftir kosningar og hefði verið forvitnilegt að sjá hvaða afstöðu fylkingarnar tvær hefðu til málsins.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.