Vin sínum, skal maður vinur vera, þeim og þess vin

Valdablokkir í viðskiptalífinu, klíkuskapur í ráðningum og kjördæmapot eru tíðrædd í þjóðfélaginu. Oft er sagt að fólk komist ekki áfram í lífinu án góðra tengsla og sambanda. Vissulega er upptalningin hér dæmi um sambönd og tengsl, en ekki mjög traustvekjandi. Gaman er að skyggnast í hugarheim gamalla spekinga í leit að dyggðum og trausti manna í millum.

Segja má með sanni að samfélög manna verði að byggjast á trausti. Undanfarið hefur mikið verið rætt um valdablokkir og jafnvel siðspillingu í viðskiptalífinu. Mikið hefur verið rætt og ritað um traust fólks í millum. Það er gaman að líta til gamalla spekinga sem hafa ritað um samskipti manna og fá þeirra sýn á trausti og þeim samböndum sem fólk myndar sín á milli.

Forngríski heimspekingurinn Aristóteles sagði að undirstaða réttláts samfélags væri vinátta. Eitt form vináttu væri sameiginlegur skilningur borgaranna á siðferðilegum málefnum, á því hvað væri dygðugt. Þessi skilgreining á hagnýtri vináttu er líklega nokkuð víð fyrir smekk flestra lesenda, enda hefur samfélagið breyst mikið frá dögum Aristótelesar og í fjölhyggjusamfélagi okkar telst það, þvert gegn hugmyndum hans, til dyggða að virða siðferðileg sjónarmið náungans.

Í skrifum Platóns og Xenófóns segir Sókrates að vinátta sé sambærileg viðskiptum. Vel ræktuð vinátta sé sú þar sem vinir veita hver öðrum einhvern ávinning. Það getur verið bæði í efnahagslegum skilningi, en einnig til ánægju og yndisauka. Ennfremur taldi hann að þar sem ekki væri hægt að meta vináttuna á efnislegum grunni yrði það oft til þess að hún dofnaði milli manna, ávinningurinn yrði oft óljós. Í Hávamálum, hvaðan fyrirsögn pistilsins kemur, segir ennfremur að menn skuli gæta hags vina sinna og vina þeirra, en reyna að klekkja á óvinum sínum.

Í Róm til forna var amicitia, eða vinátta, nokkurs konar bræðralag manna, sem höfðu sín á milli pólitískar skuldbindingar og unnu þannig saman að framgangi hvers annars. Auðvitað voru raunveruleg vinasambönd ekki síður til þá en nú, þótt rómverjar hafi nefnt þessar valdaklíkur vináttubönd. Rómverski heimspekingurinn Cicero skrifaði einmitt um þetta ritið Laelius de amicitia, en það er orðræða Laeliusar nokkurs við tvo tengdasyni sína.

Orðræðan er um vináttuna og var ætlun Ciceros að lofa hana án tillits til nytsemisþáttarins, sem var svo áberandi í því hápólitíska umhverfi sem hann lifði og hrærðist í örfáum áratugum fyrir burð Krists. Orðræða tengdafeðganna fór fram vegna missis Laeliusar á einum af sínum bestu vinum, eftir fráfall hershöfðingjans og ræðismannsins Scipio Africanusar yngri. Ljóst er að Scipio hefur verið Laeliusi harmdauði því hann segir m.a: „Stjórnmálaskoðanir okkar fóru saman, hann var mér ráðhollur í einkamálum og í tómstundum varð vinátta hans mér til óblandinnar ánægju.”

Rauði þráðurinn í riti Cicero er að dyggðin sé undirstaða vináttunnar. Þar vega traust, trygglyndi og gagnkvæm virðing þyngst. Segja má að skrif Cicero eigi vel við enn í dag. Þótt margt hafi breyst frá ævidögum hans, bindast menn enn böndum eingöngu vegna sameiginlegra hagsmuna. Vinslit og samningsrof í viðskiptum og pólitík voru tíðrædd í jólabókaflóðinu og yfir hátíðarnar, en þar eins og annars staðar segir Cicero að dyggðin verði að stjórna för. Þótt vinslit væru jafnvel nauðsynleg á stundum vegna ágreinings eða ranginda yrðu þau einnig að fara fram í bróðerni „svo framarlega sem óbærilegum rangindum hafi ekki verið beitt… Ekkert er auvirðilegra en að heyja stríð við þann sem maður hefur átt góð og náin samskipti við.”

Hvort þessi gömlu góðu gildi Ciceros vanti í auknum mæli hér á Íslandi skal ég ekki meta. En fyrir menn eins og mig, sem ganga líklega ekki nægilega oft til messu er í það minnsta ágætt að rifja þau stöku sinnum upp. Það á ekki að þurfa vinamissi til eins og hjá Laeliusi hinum vitra. Traust, trygglindi og virðing eru dyggðir sem þarf ekki síður að hafa í heiðri við ókunnuga en sína bestu vini. Jafnvel þótt menn bindist vináttuböndum einungis sjálfum sér til hagsbóta verða þessi skilyrði að vera fyrir hendi. Þá er ekki úr vegi að ljúka hugvekjunni á lokaorðum Cicero: „Án dyggðar er engin vinátta.”

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)