Beint lýðræði

Á undanförnum misserum hefur umræðan um svokallað beint, eða milliliðalaust lýðræði verið nokkuð áberandi í þjóðfélaginu. Síðan 1997 hefur Morgunblaðið leitt þessa umræðu og reglulega birt ritstjórnargreinar um efnið. En er hér um að ræða skrílræði, eða jákvætt skref á þróunarbraut lýðræðisins?

Það form lýðræðis sem við búum við í dag, fulltrúalýðræðið, skaut rótum á 19. öld og hefur að forminu til ekki þróast mikið þó að sífellt fleiri hafi notið þess eftir því sem leið á 20. öldina. Þeir sem aðhyllast beint lýðræði vilja þróa lýðræðiskerfið enn frekar og í auknu mæli sleppa þeim millilið sem kjörnir fulltrúar eru. Í Sviss er rík hefð fyrir beinu lýðræði en þar þurfa ekki nema þrjátíu þúsund manns, sem er ekki stór hluti kjósenda, að óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um hin ýmsu mál. Þetta veldur því að atkvæðagreiðslur eru mjög tíðar og þátttaka ekki mikil, eða rétt um 40% að meðaltali. Morgunblaðið hefur þó í sinni umfjöllun varað við því að slík þróun væri ekki æskileg og bendir á að kjörnir fulltrúar verði áfram mikilvægir þó að þeir verði ekki milliliðir í öllum málum.

Helstu röksemdir þeirra sem aðhyllast beint lýðræði eru þær að fólk hafi almennt aðgang að nánast sömu upplýsingum og kjörnir fulltrúar fólksins, bæði í sveitarstjórnum og á Alþingi, og geti því auðveldlega tekið ákvarðanir til jafns við þá. Með þessari aðferð væri lítið mál að gera út um ágreining í umdeildum málum og er þá helst að líta til mála á sveitarstjórnarstigi, s.s. skipulagsmál. Þetta eru góð og gild rök ef staðið er rétt að málum.

Almannavalsfræðin benda þó á einn augljósan veikleika við þessa röksemd sem er sá að einstakir kjósendur vita að niðurstaða kosninga veltur yfirleitt ekki á einu atkvæði og því hafa þeir lítinn hvata til þess að afla sér upplýsinga (fórnakostnaður of hár) um málefni til þess að geta framkvæmt upplýst val. Þetta er kölluð “skynsamleg vanþekking”, þ.e.a.s. kjósandinn bregst skynsamlega við hagrænum hvötum. Annar alvarlegur veikleiki er sá að rannsóknir hafa sýnt fram á það að fátækara fólk tekur síður þátt í þjóðaratkvæðagreiðslum og hlýtur það að skekkja niðurstöðuna verulega.

Kosning um Reykjarvíkurflugvöll í mars 2001 var skýrt dæmi um beint lýðræði. Gallinn er hinsvegar sá að sú tilraun tókst ekkert sérstaklega vel. Kosningaþátttaka var u.b.b. 37%, en eins og fram kemur hér að ofan þá þykir 40% meðaltals þátttaka í þjóðaratkvæðargreiðslum í Sviss ekkert sérstaklega gott og er það lága hlutfall afsakað með því hversu tíðar þjóðaratkvæðagreiðslur eru þar í landi. Slíku var þó ekki til að dreifa í þessu tilviki þar sem þessi kosning var í raun einstök sem slík og hlaut gríðarlega mikla fjölmiðlaumfjöllun. Framsetning hjá aðstandendum þessara kosninga var aftur á móti klaufaleg, það skiptir nefnilega máli hvernig er spurt. Þessi viðkvæma þróun lýðræðisins má ekki verða einhver stundaredding hjá áhættufælnum stjórnmálamönnum.

Í aðdraganda kosningarinnar um flugvöllinn sýndu skoðanakannanir að meirihlutinn væri hlynntur áframhaldandi veru flugvallarins og einng sýndu þær að tveir að hverjum þremur ætlaði að taka þátt í þeim. Þegar kosningu lauk hafði 37% kjósenda skilað sér og andstæðingar flugvallarins höfðu nauman sigur. Þetta hlýtur að vekja upp spurningar um það hvort hér hafi verið farinn rétt leið við það að finna út vilja fólksins, eða kusu bara þeir sem töldu sig hafa hagsmuni að gæta og niðurstaðan því ásættanleg? Ef allir aðilar eru sammála um að almannahagsmunir eru í húfi, en aðeins hluti kjósenda ómakar sig á kjördag, þá hljóta að vakna spurningar hversu rétt niðurstaðan sé og hvort slíkt kerfi sé í raun réttlát.

Margir gagnrýnendur beins lýðræðis vilja meina að sú hætta sé fyrir hendi á að það þróist upp í hálfgert skrílræði þar sem sterkir hagsmunahópar muni öllu ráða. Þar sem hin almenni kjósandi hefur lítinn hvata til þess að taka upplýsta ákvörðun, eins og getið var um hér að ofan, þá muni fjársterk hagsmunasamtök sem hafi á sínum snærum útsjónarsama auglýsingamenn ná bestum árangri. Þetta þýðir í raun að sá sem hæst hefur muni vinna, að miklu leyti óháð málefnum.

Hugmyndir um beint og milliliðalaust lýðræði eru vissulega göfugar og getur í ákveðnum tilvikum verið besta aðferðin til þess að komast að niðurstöðu. Þetta getur átt við um stór mál sem lúta að miklum breytingum á þjóðfélaginu, t.d. innganga í Evrópusambandið, en einnig í ágreiningsmálum á sveitastjórnarsviði s.s. skipulagsmál, en þá þarf að standa rétt að málum.

Lítil þátttaka í beinu lýðræði hlýtur þó að vera eitthvert mesta áhyggjuefnið. En er það ekki örlög þeirra sem ekki kjósa að vera stjórnað af þeim sem neyta atkvæðaréttar síns?

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.