Kjör Alþingismanna

Eins og flestir vita fer kjör Alþingismanna fram með beinum, lýðræðislegum kosningum á fjögurra ára fresti. Þó vissulega verði kosningarnar í vor án vafa þær mest spennandi og tvísýnustu í lengri tíð ætla ég þó að fjalla um annars konar kjör Alþingismanna í þessum pistli, nefnilega launakjör.

Þegar maður var lítill patti þótti manni Alþingismenn hafa ógurlega há laun. Líklega hafði maður þessa skoðun án þess að hafa hugmynd um hvað þeir hefðu í laun og ef maður vissi svo, þá hafði maður allavega ekki samanburðinn við hinn almenna launþega í landinu. Maður hafði það einhvern veginn á tilfinningunni að vegna starfa sinna, ábyrgðar og þeirrar virðingar sem felst í því að vera Alþingismaður að þá hljóti þessir menn að hafa haft mjög há laun.

Í fréttum um daginn var greint frá ákvörðun kjaradóms um að hækka laun Alþingismanna frá 1. janúar í 368.719 kr. á mánuði. Vissulega eru þetta töluvert hærri laun en þorri landsmanna getur vænst þess að fá en ekki get ég þó sagt að mér finnist þetta ýkja há laun, allavega ekki eins ógurlega há og mér fannst þau vera þegar ég var patti. Til samanburðar má nefna að ekki er óalgengt að millistjórnendur, stórra íslenskra fyrirtækja og stjórnendur lítilla séu með þetta 5-700 þúsund á mánuði og forstjórar vel á aðra milljón. Laun lækna eru einnig talsvert hærri en laun Alþingismanna, og fleiri má telja til sem hafa það betur en þingmennirnir okkar.

Hér er þó ekki öll sagan sögð. Alþingismenn eiga rétt á margvíslegum fríðindum og fá ýmsan starfstengdan kostnað endurgreiddan, stundum óháð því hvort hann hafi fallið til í mánuðinum eða ekki. Hver Alþingismaður á t.a.m. rétt á:

– 53.100 kr. greiðslu á mánuði til að mæta ýmsum starfskostnaði. Staðgreiðslu þurfa þingmenn að greiða af fjáhæðinni nema því sem þeir geta fært sönnur á, með framvísun reikninga, að sé kostnaður sem hafi fallið til vegna þingstarfa.

– 20.000 kr. styrki til farsímakaupa og auk þess fá þeir allan kostnað vegna notkunar farsíma endurgreiddan.

– að fá endurgreiddan kostnað við síma á heimili og starfsstöð.

– að fá allan póstkostnað endurgreiddan (vinsælt hefur verið hjá sumum Samfylkingarþingmönnum að misnota þetta ákvæði).

– endurgreiddan ferðakostnað milli heimilis og Alþingis á eigin bifreið eða með almenningsfarartækjum.

– 47.000 kr. í fastan ferðakostnað á mánuði, þingmenn Reykjavíkur þó 36.300 kr.

– 72.450 kr. í húsnæðis- og dvalarkostnað á mánuði sitji hann á þingi fyrir kjördæmi utan Reykjavíkur og Reykjaness.

Auk þessa eiga Alþingismenn rétt á dagpeningum vegna ferðalaga innanlands og erlendis og allt að 40% álagi á heimiliskostnað haldi þeir tvö heimili. Svo má nefna að formenn þingflokka og fastanefnda og varaforsetar Alþingis fá 15% álag á þingfararkaup en varaformenn utanríkis- og fjárlaganefndar 10%. Þess skal getið að einungis þingfararkaupið sjálft og starfskostnaðargreiðslan (53.100 kr., þó einungis það sem ekki er unnt að framvísa reikningum fyrir) eru skattskyldar, allar aðrar greiðslur eru skattfrjálsar. Þingmenn utan af landi gætu því fengið auk þingfararkaupsins allt að 206.700 kr. skattfrjálst á mánuði í starfskostnað, húnsnæðis- og dvalarkostnað, fastan ferðakostnað og 1/3 álag á húsnæðis- og dvalarkostnað. Þetta er fyrir utan, frían síma, greiddar ferðir til og frá þingi ofl.

Við hljótum að gera kröfu um að á Alþingi setjist hæfileikaríkt og ábyrgt fólk sem er treystandi fyrir að útbúa þær leikreglur sem þegnar samfélagsins þurfa að fylgja. Það er áhyggjuefni í því samhengi ef þingfararkaup er orðið töluvert lægra en þau laun sem einkafyrirtæki eru reiðubúin að greiða hæfileikaríku fólki. Hættan er sú að hæfasta fólkið leiti á önnur mið og hugleiði ekki þingmennsku. Vissulega er þingmennska að hluta til hugsjónastarf og það verður alltaf erfitt að keppa við einkageirann á launalegum forsendum.

Velta má fyrir sér hvort það myndi skila sér í betra og skilvirkara Alþingi ef að kjör Alþingismanna yrðu bætt. Eða eru kjör Alþingismanna í dag, þegar allt er talið til, kannski bara hin ágætustu?

Stuðst var við vef Alþingis við smíði þessa pistils.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)