Forsætisráðherraefni?

Nú þegar innan við þrír mánuðir eru til Alþingiskosninga, þá flæða yfir okkur skoðanakannanir og fólk veltir fyrir sér hugsanlegri ríkisstjórnunarmyndun. Samfylkingin teflir nú fram Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem forsætisráðherraefni, en mun hún undir einhverjum kringumstæðum verða forsætisráðherra?

Í upphafi árs tilkynnti Össur Skarphéðinsson, réttkjörinn formaður Samfylkingarinnar, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir yrði forsætisráðherraefni flokksins. Það gekk nú á ýmsu í aðraganda þessarar ákvörðunar þar sem formaðurinn vissi ekki í hvorn fótinn hann ætti að stíga. Kannski er þó of mikið að kenna Össuri um þessi vandræði því það er auðvitað sú sem öllu ræður í Samfylkingunni sem, eins og bent hefur verið á áður hér á Deiglunni, á erfitt með að taka ákvarðanir.

Össur tilkynnti um endanlega ákvörðun og sagði þetta vera í fyrsta skiptið sem íslenskur stjórnmálaflokkur telfdi fram konu sem forsætisráðherraefni. Vel má vera að Margréti Frímannsdóttur hafi sárnað þessi ummæli, því þetta nákvæmlega sama sagði Össur um hana í apríl 1999. En það var nú eflaust bara eitthvað fyllerísruglið á Selfossi sem hann man ekkert eftir, blessaður kallinn.

Ingibjörg var útnefnd forsætisráðherraefni af fámennum hóp innan flokksins og var nútímalegt lýðræði ekki látið flækjast fyrir nútímalega lýðræðisflokknum. En örvæntið ekki, því fólk sem til þekkir í Samfylkingunni veit að eflaust hefur verið farin jafngóð leið, ef ekki betri, og landið kannað með einni góðri símakönnun, sem er þó að minnsta kosti nútímalegt.

En áður en að þessari atburðarás hófst þá þurfti Ingibjörg að svíkja samstarfsflokka Samfylkingarinnar í borgarstjórn og ganga þar algjörlega á bak margítrekaðra orða sinna. Það var henni í lófa lagið, enda fylgið gott í skoðanakönnunum. En þarna hljóp Ingibjörg sennilega á sig og málaði sig út í horn því formenn Framsóknarflokks og Vinstri grænna hafa enga ástæðu til þess að treysta henni og finnst það sennilega lítt fýsilegur kostur að sitja í skjóli hennar í ríkisstjórn.

Ef við gefum okkur það að Samfylkingin fái umboð til þess að mynda ríkisstjórn og leiti til Framsóknarflokks og Vinstri Grænna, þá er ekki ólíklegt að að þeir flokkar fari fram á að Össur (handhafi stjórnarmyndunarumboðsins) verði forsætisráðherra og að öllum líkindum mun Framsóknarflokkurinn fara sjálfur fram á það að Halldór Ásgrímsson verði forsætisráðherra. Það má útiloka það að Ingibjörg verði forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar

Það má líkja þessum herleiðangri Samfylkingarinnar við innrás Napóleon Bónapartes í Rússland árið 1812. Allt gekk að óskum hjá Napóleon, varnir Rússa brugðust og á skömmum tíma var Moskva sigruð. En þegar sigurinn var unnin var að engu að hverfa þar sem að umhverfis borgina var aðeins sviðin jörð og ekkert að gera annað en að hverfa tómhentur á braut. Það undanhald var dýrt þar sem meirihluti hers Napóleons varð að lúta fyrir rússneskum vetrarhörkum.

Það hlýtur að vera áleitin spurning hvort Ingibjörg Sólrún geti undir nokkrum kringumstæðum orðið forsætisráðherra. Í sókn sinni eftir meiri völdum hefur hún brennt of margar brýr og svikið of marga, þetta gæti því orðið sókn til einskins líkt og hjá Napóleon forðum daga.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.