Gerðu eins og ég segi! (Ekki eins og ég geri)

Það er mikill miður að NATO þjóðirnar Frakkland, Þýskaland og Belgía hafi beitt neitunarvaldi sínu til að koma í veg fyrir að bandalagið styrki varnir Tyrklands. Bandaríkjamenn eru æfir en gera sér ekki, nú frekar en endranær, grein fyrir því fordæmi sem þeir hafa sjálfir sett fyrir slíkri misbeitingu neitunarvalds á alþjóðlegum vettvangi.

Fimmta grein stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins kveður á um að árás á eitt aðildarríkið sé árás á þau öll. Þetta er ekki formsatriði, heldur í raun kjarninn í hugmyndafræði bandalagsins. Markmið ákvæðisins er að tryggja að ríki bandalagsins komi fram sem ein heild gagnvart utanaðkomandi hættu.

Trúverðuleiki bandalagsins sem slíkrar heildar bíður verulega hnekki vegna ákvörðunar Frakklands, Þýskalands og Belgíu um að beita neitunarvaldi til að koma í veg fyrir að bandalagið styrki landvarnir Tyrklands.

Tyrkland er eina bandalagsríkið sem á landamæri að Írak og því er ljóst að landið er í mikilli hættu ef til stríðs kemur. Jafnljóst er að umtalsverðar líkur eru á stríði og beiting neitunarvaldsins er því gjörsamlega óskiljanleg og stríðir gegn grundvallarhugmyndafræði bandalagsins.

Rök ríkjanna þriggja, um að uppbygging landvarna í Tyrklandi muni styggja Íraksstjórn og því auka líkurnar á stríði, eru út í hött og í algeru ósamræmi við reynsluna undanfarinna mánaða. Þvert á móti hefur sýnt sig að Írakar sýna aldrei samstarfsvilja þar til þeir eru komnir upp við vegg.

Tilgangur ríkjanna þriggja er miklu fremur að setja Bandaríkjamenn í erfiða aðstöðu og refsa þeim fyrir þær aðferðir sem þeir hafa beitt í öryggisráðinu. Þar hafa þeir gert lýðum ljóst að þeir, og þeir einir, ákveði hvort til innrásar kemur. Pistlahöfundur deilir gremju þessara ríkja yfir framferði Bandaríkjanna gagnvart öryggisráðinu. Framferði Bandaríkjanna á þeim vettvangi leysir ríkin þrjú samt ekki undan skyldum þeirra sem meðlimir í Atlantshafsbandalaginu.

Það er þó ekki langt síðan Bandaríkjamenn beittu neitunarvaldsvopninu á enn ósmekklegri hátt en ríkin þrjú gera nú. Það var þegar Bandaríkjamenn hótuðu að beita neitunarvaldi sínu í öryggisráðinu til að stöðva allar sendiferðir friðargæsluliða sameinuðu þjóðanna og lama þannig starfsemi friðargæsluliðsins. Þetta gerðu Bandaríkjamenn til að fá í gegn undanþágu bandarískra þegna frá alþjóðastríðsglæpadómstólnum.

Bandaríkjamenn virðast ekki á þeim tíma hafa leitt hugann að því fordæmi sem þessar hótanir höfðu. Í málflutningi þeirra heyrist oft að þessar eða hinar aðstæðurnar séu einstakar og ekki fordæmisgefandi, en það er auðvitað rangt. Framferði ríkjanna þriggja nú sýnir að fleiri geta leikið þennan leik en Bandaríkin.

Annað dæmi um hegðun sem Bandaríkjamenn halda fram að sé ekki fordæmisgefandi er að sjálfsögðu stríðið í Írak. Hugmynd Bandaríkjamanna um svokölluð „Pre-emptive strikes“ hefur eflaust hljómað vel þegar hún kom upp. Bandaríkjamönnum var ekki jafnskemmt þegar Kim Jong Il lýsti því yfir að hann myndi beita sömu aðferðum gegn Suður-Kóreu ef honum sýndist Bandaríkjamenn vera að byggja upp ótæpilegan hernaðarmátt þar.

Eflaust eru margir hikandi við að samþykkja málflutning Kims í þessu máli og þykir ólíku saman að jafna. En tregða Bandaríkjamanna við að viðurkenna vald Sameinuðu þjóðanna gerir samanburðinn því miður auðveldari. Þótt Bandaríkjamenn vildu gjarna að menn gerðu einfaldlega eins og þeim er sagt, er hætt við að menn fylgi heldur fordæmi þeirra og geri bara það sem þeim sýnist.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)