Fimm ár að baki

„Lengi hefur verið rætt um að upplýsingar séu verðmæti framtíðar. Hér á landi hefur þessi umræða verið bundin við eitthvað sem gæti hugsanlega, einhvern tímann orðið að veruleika og þá líklega í útlöndum. En í gær bankaði framtíðin upp á hjá lítilli eyþjóð norður í Ballarhafi.“ Með þessum orðum hófst fyrsti pistill Deiglunnar sem skrifaður var fyrir réttum fimm árum.

Í dag eru fimm ár liðin frá því að sá sem þetta skrifar hóf að birta skoðanir sínar á málefnum líðandi stundar á því sem þá var ýmist kallað alnetið, lýðnetið, internetið eða veraldarvefurinn. Einkunnarorð Deiglunnar voru í fyrstu: „Héraðsfréttir á Netinu“ og áttu þau að skírskota til leiðara héraðsfréttablaða, en þeir voru fyrirmynd hinna upphaflegu pistla.

Óhætt er að segja að mikill byrjendabragur hafi verið á útgáfunni. Allur texti var „hardkóðaður“ inn á síðuna, og þætti slíkt ansi frumstætt í dag. Þá var útgáfan öllu stopulli en nú er og áttu sumarfríin það til að teygjast fram úr öllu hófi.

En þrátt fyrir þetta náði Deiglan fótfestu. Lesendahópurinn stækkaði jafnt og þétt, enda framboðið á slíku efni ekki mikið. Þó var aðgangur að Netinu mun minni þá og menn þóttu ansi góðir að búa yfir 28.8 módemi! Eftir tæplega tveggja ára útgáfu lét ritstjórinn undan þrýstingi ákveðinna aðila sem vildu ólmir komast að með skrif sín á Deiglunni og eftir það má segja að hjólin hafi farið að snúast fyrir alvöru, sjá sögulegt yfirlit Deiglunnar.

Í dag koma 25 manns að útgáfu Deiglunnar. Þótt þetta fólk deili ákveðnum grundvallarskoðunum, þá hefur hver og einn ólíkar áherslur. Deiglupennar hafa fullt frelsi í efnistökum, þær skoðanir sem þeir segja fram eru þeirra eigin og á ábyrgð þeirra sjálfra. Ritstjórnin felst einkum í að setja skýrar gæðakröfur og fylgja þeim kröfum eftir. Það er lán Deiglunnar, og um leið helsti styrkur, að til liðs við hana hefur gengið fólk sem staðið getur undir ítrustu kröfum í þessu tilliti.

Ég vil að lokum þakka lesendum samfylgdina, einkum þeim sem fylgst hafa með frá upphafi. Vonandi verður vöxtur Deiglunnar ekki minni á næstu árum en hann hefur verið á þeim fimm árum sem liðin eru frá fyrsta útgáfudegi.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.