Íslensk genasúpa!

Í dag ertu ekki maður með mönnum nema þú þekkir uppruna þinn í kjölinn, sem og framlag þitt í íslensku genasúpuna. Ættfræðiæði hefur gripið landann og keppast menn nú við að „frændgera” hvern þann sem gott og gaman er að hafa tengsl við.

Íslendingar hafa getið sér það orð, að vera sérlega nýjungagjarnir og taka hvern nýjan tæknikost, eða annað sem rekur á fjörur þeirra og hittir almenning í hjartastað, með trompi. Nægir hér til dæmis að benda á farsímaeign landans sem er eins og mest gerist í heiminum. Nýjasta æðið er þó örlítið sérkennilegt í því tilliti að hráefnið er íslenskt og hefur alltaf verið til, en framreiðslan er nýorðin.

Í síðustu viku opnaði Íslendingabók, ættfræðigrunnur Íslenskrar erfðagreiningar á alnetinu, en ættfræðigrunnurinn er sá eini í heiminum sem nær til heillrar þjóðar. Hann hefur að geyma upplýsingar um allt að 700.000 einstaklinga, eða um 95% þeirra Íslendinga sem uppi hafa verið síðan fyrsta manntalið var gert árið 1703.

Þetta þykir eðlilega svolítið magnað, því nú er hægt, með veittum aðgangi, að kanna blóðtengsl sín við hvern þann Íslending sem vera vill, og komast á einfaldan hátt á snoðir um forfeður sína. Oftar en ekki virðist áhuginn þó frekar beinast að tengslum við nafntogað fólk, enda sér hver maður að það er ekki ónýtt að vera skyndilega orðinn sjömenningur við forsetann eða Björk.

Ættfræðigrunnurinn virðist greinilega hafa hitt í mark, því síðkvölds þess dags sem hann var opnaður höfðu um 8% þjóðarinnar skráð sig sem notendur á vefinn. Kári Stefánsson forstjóri ÍE útskýrði í gríni þessa miklu aðsókn með því að Íslendingar hefðu einfaldlega ódrepandi áhuga á sjálfum sér. Það er auðvitað að öllu gríni slepptu rótin.

Íslendingabók er þó fyrst og fremst stórmerkilegur upplýsingabanki sem hægt er að nýta til þeirra mikilvægu erfðafræðirannsókna sem fara fram á vegum ÍE, en ættfræðigrunnurinn er móðurgrunnur fyrir dulkóðaða gagnagrunninn sem nú er notast við og hefur verið mjög umdeildur. Með þessu veitta aðgengi að upplýsingum sem alltaf hafa verið til, settum fram á þennan hátt, er almenningi gefin saga sín. Um leið er gefin hlutdeild í nokkuð einstakri heild, og e.t.v ný og jákvæðari sýn á gagnagrunna og þau miklu not sem augljóslega er hægt að hafa af þeim.

Óhætt er a.m.k að segja að tilkoma Íslendingabókar hafi glatt landann og hún sé jafnframt kjörin til að gera fleirum það ljóst hvers kyns fjársjóður hin íslenska heimalagaða genasúpa er. Verði okkur að góðu.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.