Dylgjur prestsins

Í gær fóru fram umræður utandagskrá um fiskveiðistjórnunarkerfið og byggðakvóta á Alþingi. Málshefjandi var Karl V. Matthíasson, þingmaður Vestfirðinga og prestur í Setbergsprestakalli. Sagði presturinn að klíkuskapur og jafnvel stjórnmálaskoðanir réðu því hverjir fengu úthlutað byggðakvóta og vó þar að starfsheiðri fjölda fólks.

Karl Valgarður verður seint sakaður um að teljast til frjálslyndari þingmanna á okkar ágæta löggjafarþingi. En ekki finnst honum leiðinlegt að halda ræður blessuðum prestinum og eru þær oft á tíðum kostuleg lesning sem nálgast má á vef Alþingis. Hefur Karl Valgarður meðal annars unnið sér það til frægðar að berjast gegn lögleiðingu ólympískrar íþróttagreinar og hefur hann einnig brugðið fæti fyrir hagsmunum neytenda með baráttu gegn frjálsari sölu léttvíns og bjórs. Ekki má heldur gleyma því að þegar hann lagðist þver gegn því harðræði að smábótasjómönnum yrði gert að hlíta sömum reglum um fiskveiðar og öðrum sjómönnum, eins og greint var frá í pistli hér á Deiglunni 28. maí 2001.

Á Alþingi í gær var Karl Valgarður upphafsmaður að utandagskráumræður um fiskveiðistjórnunarkerfið og byggðakvóta. Í þeirri umræðu sakaði hann starfsmenn Sjávarútvegráðuneytisins og Fiskistofu um ófagleg vinnubrögð við ákvörðun byggðakvótans þegar hann hélt því fram að að klíkuskapur og jafnvel stjórnmálaskoðanir réðu því hverjir fengu úthlutað byggðakvóta.

Sjávarútvegsráðherra var til svara og lagði hann áherslu á að úthlutun byggðakvóta Sjávarútvegsráðuneytisins væri mjög gagnsæ; umsóknir væru metnar á hlutlausan hátt af starfsmönnum ráðuneytisins og Fiskistofu. Á heimasíðu ráðuneytisins má finna fréttatilkynningu, frá 5. desember 2002, um úthlutun byggðakvótans og þau skilyrði sem menn urðu að uppfylla við umsókn.

Í fyrsta lagi var horft til stöðu og horfa í einstökum byggðum, m.t.t. þróunar veiða, vinnslu og atvinnuástands. Í öðru lagi var athugað hvort telja megi líklegt, miðað við þær áætlanir sem fram kom í umsóknum um aflaheimildir, að úthlutunin styrki byggðina eða landsvæðið til lengri tíma (þ.e. að kvótinn sé ekki seldur burtu strax). Í þriðja lagi var skoðað hvort um sé að ræða samstarfsaðila í veiðum og vinnslu innan byggða eða landsvæða. Að síðustu var tekið tillit til þess hvort gripið hafi verið til annarra sértækra aðgerða í sjávarútvegi að undanförnu til styrkingar viðkomandi sjávarbyggðum.

Líklega hafa umsóknir uppfyllt ofangreind skilyrði misjafnlega vel og margir hinna vonsviknu hafa eflaust ekki lagt næga vinnu í umsóknir sínar, t.d láðst að leita eftir samstarfi við úrvinnslu aflans. En öllum þeim sem hafnað var um úthlutun geta skv. lögum krafist rökstuðnings og er ég viss um að því yrði svarað fljótt og af fagmennsku. Einn helsti útgangspunktur þeirra sem meta umsókninar hlýtur að vera sá hvort úthlutunin sé atvinnuskapandi í því byggðarlagi þar sem sótt er um kvótann, það liggur í hlutarins eðli.

Það kann að vera að presturinn meti orðspor sitt ekki mikils og sé nokkuð sama um órökstuddar dylgjur sínar í garð starfsfólks Sjávarútvegsráðuneytisins og Fiskistofu. Hann mun nefnilega ekki setjast á þing á næsta kjörtímabili eftir að hafa fallið fyrir Gísla S. Einarsyni á kjördæmisþingi Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. En maður hlýtur samt sem áður að gera lágmarks kröfur um rökstuðning þegar jafn margir liggja undir aðdróttunum guðsmannsins, og sá grunur læðist einnig að manni að málið hafi ekki verið vel ígrundað að hans hálfu.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.