Fækkun fóstureyðinga er fagnaðarefni

Fóstureyðingar á Íslandi eru á undanhaldi. Ekki vegna þess að stjórnvöld hafa lagt á borgarana boð og bönn, heldur vegna þess að einstaklingarnir rísa í auknum mæli undir þeirri ábyrgð sem frelsið leggur þeim á herðar. Það er fagnaðarefni fyrir alla.

Fóstureyðingar eru ekki mikið pólitískt hitamál hér á landi en í sumum löndum, þ.á m. Bandaríkjunum, ræðst afstaða margra til stjórnmálaflokka og -manna af stefnu þeirra í fóstureyðingamálum. Línan er dregin milli þeirra sem kenna við sig „pro-life“, en þeir telja að fóstur eigi sjálfstæðan og óskoraðan rétt til lifs, og hinna sem kenna sig við „pro-choice“, en að þeirra mati á hin þungaða kona allan rétt yfir líkama sínum, þ.á m. fóstri í móðurkviði.

Hér á Íslandi hefur tíðni fóstureyðinga verið verulega há í samanburði við önnur lönd og sérstaklega meðal mjög ungra kvenna. Í grein eftir undirritaðan sem birtist hér á Deiglunni 2. júní 2001, Fóstureyðingar í ljósi náttúruréttar og landslaga var frá því greint að hér á landi hafi verið framkvæmdar á annað þúsund fóstureyðingar og þá hafði tíðnin vaxið ár frá ári.

Í tveimur pistlum eftir Andra Óttarsson sem birtust 23. og 24. júní 2001 og báru yfirskriftina Um fóstureyðingar á Íslandi I og Um fóstureyðingar á Íslandi II var gerð ítarleg grein fyrir lögmæti fóstureyðinga á Íslandi, m.a. með vísan til úrlausnar dómstóla, og þeirra siðferðisspurninga sem áleitnar eru í þessum efnum. Lagaramminn sjálfur veitir konum lítið svigrúm til fóstureyðinga en þessi lagaákvæði hafa hins vegar verið túlkuð nokkuð rúmt af löggjafanum og samkvæmt íslenskum rétti hafa þungaðar konur því ríkan ráðstöfunarrétt yfir eigin líkama.

Telja verður að afstaða langflestra til fóstureyðinga sé bæði og – hvorki né, þ.e. fæst fólk tekur einarða afstöðu öðrum hvorum megin víglínunnar. Enginn velkist þó vonandi í vafa um það að fóstureyðingar eru hörmuleg niðurstaða – lausn – fyrir alla sem hlut eiga að máli. Fóstureyðing á að vera síðasta þrautarvaraúrræði til að koma í veg fyrir að hlutaðeigandi lendi í aðstæðum sem yrðu mannlegum mætti allt að því óyfirstíganlegar.

Vaxandi tíðni fóstureyðinga á undangengnum árum benti eindregið til þess að ungum konum sérstaklega þætti ekkert tiltökumál að fara í fóstureyðingu, og ræddu sérfræðingar t.a.m. um að yngri konu hirtu jafnvel ekki um að nota tilhlýðilegar getnaðarvarnir.

Það er því mikið fagnaðarefni nú þegar fréttir berast af því að þessi ógæfuþróun hafi snúist við. Í fyrsta skipti í langan tíma hefur fóstureyðingum á Landsspítalanum fækkað og er fækkunin hlutfallslega mest meðal yngstu kvennanna. Fæðingum hefur þó ekki fjölgað til jafns við þetta, svo skýringarinnar er væntanlega að leita í aukinni ábyrgðartilfinningu ungra kvenna.*

Sem betur fer hafa íslensk stjórnmál verið laus við hatrammar deilur um fóstureyðingar. Með umræðu og upplýsingu má nefnilega oft færa mál til betri vegar án atbeina löggjafans eða sérstakrar íhlutunar stjórnvalda í málefni borgaranna með boðum og bönnum. Þessi augljósa hugarfarsbreyting ætti því að vera bæði fylgismönnum og andstæðingum fóstureyðinga gleðiefni.

*Hér er ekki vikið að ábyrgðartilfinningu ungra karla, en þetta á auðvitað ekki síður við um þá. Ég þakka lesendum Deiglunnar sem bentu mér á þetta, enda ekki ætlunin að gera lítið úr hlutverki karlanna. Ástæðan fyrir því að eingöngu var horft á málið út frá ábyrgðartilfinningu kvenna er það samhengi sem í pistlinum er að finna, þ.e.a.s. að þungamiðja umræðunnar hafi verið ráðstöfunarréttur hinnar þunguðu konu yfir eigin líkama og þar með fóstri í móðurkviði. En það breytir engu í mínum huga um sameiginlega ábyrgð þeirra sem geta saman barn.

BÞE

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.