Er hægt að réttlæta stríðsrekstur?

Stríð er alltaf ógeðfellt og hefur alltaf í för með sér eyðileggingu, dauða og sorg. Er hins vegar rétt að halda því fram að aldrei sé réttlætanlegt að hefja stríð? Er e.t.v. einhvern tímann rangt að gera það ekki?

„Það eru margir drengir sem halda að stríð sé dýrðin ein, en drengir, það er fullkomið helvíti.”William Tecumseh Sherman.

Sherman, sem barðist í bandarísku borgarastyrjöldinni, vissi um hvað hann var að tala og er erfitt að ímynda sér að nokkur maður mótmæli þessari fullyrðingu hans. Stríð er í eðli sínu afar ógeðfellt athæfi, en hefur á undanförnum hundrað árum eða svo orðið enn ógeðfelldara og hræðilegra en nokkru sinni fyrr. Áður fyrr voru hermenn í meirihluta þeirra sem féllu í stríði, en núna eru óbreyttir borgarar um níu af hverjum tíu sem bíða bana í vopnuðum átökum. Ekki er lengur hægt að tala um víglínur í hefðbundnum skilningi þess orðs, þar sem sprengjuflugvélar og eldflaugar geta flutt dauða og eyðileggingu yfir heimsálfur og úthöf. Enginn er í raun alveg óhultur.

Þrátt fyrir þetta er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að stundum reynist nauðsynlegt að hefja stríð – og þá er ekki verið að tala um það þegar ríki heyja varnarstríð gegn innrásarher frá öðru ríki. Það var t.d. rétt af frönskum og breskum stjórnvöldum að lýsa yfir stríði á hendur þýska ríkinu árið 1939 eftir innrás Þjóðverja inn í Pólland. Það var einnig rétt að fara með hernaði á hendur Írökum eftir innrás þeirra í Kúvæt árið 1990.

Það má jafnvel halda því fram að stundum sé rangt að fara ekki í stríð. Það var t.d. rangt af frönskum og breskum stjórnvöldum að grípa ekki til vopna árið 1936 þegar Hitler braut ákvæði Versalasamninganna um að Rínarhéraðið ætti að vera vopnlaust. Eru sagnfræðingar á nánast einu máli um að hefðu bandamenn látið hart mæta hörðu þegar þýsku herdeildirnar þrömmuðu inn í Rínarhéruðin í marsmánuði 1936 hefðu þeir líklega unnið auðveldan sigur á þýska hernum sem enn átti eftir að ganga í gegnum miklar breytingar og stækkun áður en hann varð sú stríðsvél sem marseraði yfir nánast gervalla Evrópu í seinni heimstyrjöldinni. Hefðu Bretar og Frakkar gert það hefði hugsanlega verið hægt að forða Evrópu og Evrópubúum frá þeirri martröð sem árin 1939 til 1945 höfðu í för með sér.

Auðvitað er auðvelt að sjá það núna, sextíu árum seinna, að lítið stríð árið 1936 hefði verið miklum mun æskilegra en seinni heimstyrjöldin og slíkar upplýsingar liggja því miður ekki fyrir þegar ákvörðun um stríðsyfirlýsingu liggur fyrir hjá ríkisstjórnum heimsins. Um ákveðið hagsmunamat er samt sem áður alltaf að ræða. Eru hagsmunirnir sem um ræðir þess virði að réttlætanlegt sé að senda unga menn til að berjast og deyja fyrir þá? Stundum er svarið augljóslega neikvætt, stundum jákvætt og stundum er ómögulegt að meta það.

Þeir sem halda því fram að stríð sé óréttlætanlegt og glæpsamlegt helvíti hafa hjartað á réttum stað, en í þessum ófullkomna heimi sem við lifum í getur stundum verið óréttlætanlegt og jafnvel glæpsamlegt að grípa ekki til vopna. Það sannaðist enn og aftur í Rúanda árið 1994, þar sem e.t.v. hefði verið hægt að bjarga hundruðum þúsunda mannslífa hefðu önnur ríki gripið inn í í tæka tíð.

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)