Að kyssa vöndinn

Deiglan fjallar ítarlega um úrsögn Ólafs F. Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins i Reykjavík, úr Sjálfstæðisflokknum.

Síðastliðinn fimmtudag sagði Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins i Reykjavík, sig úr Sjálfstæðisflokknum. Ástæða úrsagnarinnar var að hans sögn m.a. að ráðist hafi verið að persónu hans og sjónarmiðum af óvenjulegri heift. Eins og allir vita hafa skoðanir Ólafs í umhverfis- og virkjunarmálum ekki verið þær sömu og þorra flokksmanna og hefur hann oft skorið sig úr hópnum fyrir þær sakir.

Það er eðli lýðræðisins að skoðanir einhvers verða alltaf undir. Þetta eru leikreglurnar sem Ólafur spilaði eftir og vissulega hefur hann reynt að vinna skoðunum sínum fylgis – án árangurs. Ítrekaðar tilraunir hans til að sannfæra sjálfstæðismenn verða ekki af honum teknar. Þrátt fyrir að yfirleitt sé réttast að klóra í bakkann og halda áfram að berjast, þá taldi Ólafur greinilega fullreynt með að sannfæra eigin flokksmenn. Hvað sem fólki finnst um skoðanir Ólafs þá verður að bera virðingu fyrir staðfestu hans við að vinna eigin hugmyndafræði og skoðunum fylgis.

Ólafur F. Magnússon stóð og féll með eigin sannfæringu. Hans frami innan flokksins hefði líklega orðið allt annar og mun farsælli ef hann hefði fylgt straumnum en kyngt eigin skoðunum.

Þetta vekur mann til umhugsunar um alla þá íslensku stjórnarmálamenn, sem hafa verið uppfullir af hugmyndafræði og ferskum skoðunum á sínum yngri árum innan ungliðahreyfinganna. Þessir stjórnmálamenn virðast nefnilega undantekningalítið gleyma allri hugmyndafræði þegar þeir komast að kjötkötlunum. Í stað hugsjónanna sem þeir börðust fyrir áður eru komnir sérhagsmunir þrýstihópa. Hvernig væri land og þjóð ef þessir menn hefðu haft staðfestu Ólafs F. Magnússonar?

Ólafur gefur öllu ungu fólki með áhuga á stjórnmálum eitthvað til umhugsunar. Í ljósi fyrri reynslu er ljóst að meirihluti þeirra ungliða sem nú predika sem hæst göfuga hugmyndafræði munu þegar á hólminn er komið kyngja öllu sem þeir hafa áður sagt og kyssa vöndinn til að ná völdum. Það er því staðreynd, að burtséð frá efnisinnihaldi skoðana Ólafs, geta allir ungliðar lært mikið af staðfestu hans gagnvart eigin skoðunum og hugmyndafræði.

Undirritaður er ósammála Ólafi F. Magnússyni í flestum grundvallaratriðum, en er honum hjartanlega sammála um eitt. Það er betra að segja sig úr stjórnmálaflokki heldur en að þurfa að kyngja eigin hugmyndafræði og skoðunum fyrir frama innan flokksins.

Deiglan óskar óháða borgarfulltrúanum Ólafi F. Magnússyni og fjölskyldu hans gleðilegra jóla og góðs gengis í framtíðinni. Hann á það fyllilega skilið.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.