Ólafur F. í sérflokki

Í Kastljósi í gærkvöldi lagði borgarfulltrúinn Ólafur F. Magnússon drög að framboði sínu til borgarstjórnar Reykjavíkur í komandi kosningum. Maður ársins 2001 ætlar líka að verða maður ársins 2002.

Í Kastljósi í gærkvöldi lagði borgarfulltrúinn Ólafur F. Magnússon drög að framboði sínu til borgarstjórnar Reykjavíkur í komandi kosningum. Maður ársins 2001 ætlar líka að verða maður ársins 2002. Það er alltaf ánægjulegt þegar menn finna sína hillu í lífinu, Ólafi líður greinilega vel með þá ákvörðun sína að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn, enda er hann í algjörum sérflokki. Í gærkvöldi skilgreindi hann væntanlegt framboð sitt sem framboð manngildis, réttlætis og sanngirni og um leið skipaði hann sjálfan sig fulltrúa aldraðra og öryrkja í næstu kosningum.

Vafalítið mun framboð Ólafs njóta nokkurs fylgis, enda hefur honum vandræðalítið tekist að vinna sér sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í nokkuð harðri prófkjörsbaráttu undanfarin ár. Í þeirri prófkjörsbaráttu hefur hann talað á svipuðum nótum og hann gerir nú, lagt áherslu á sérstöðu sína sem „öðruvísi“ sjálfstæðismanns. Ólafur hefur einkum sótt fylgi sitt til eldri sjálfstæðismanna og því er það engin tilviljun að hann gerist nú sjálfskipaður fulltrúi aldraðra fyrir næstu kosningar.

Þó verður að hafa hugfast að þeir úr hópi kjósenda Sjálfstæðisflokksins sem fylla elstu aldurshópanna hafa flestir kosið flokkinn um áratugaskeið og kannski ekki borðleggjandi að þeir elti Ólaf F. úr flokknum. Alberti heitnum Guðmundssyni tókst þetta á sínum tíma, en ekki Sverri Hermannssyni, og spurning hvort Ólafur hafi álíka stöðu og þessir tveir heiðursmenn. Raunar er málflutningur Ólafs nú mjög keimlíkur þeim sem Frjálslyndiflokkurinn iðkar. Ólafur lét þess líka getið í Kastljósi í gær að Frjálslyndir fengju hugsanlega að fljóta með framboði sínu.

Ef við gefum okkur að fylgi R- og D-lista verði með svipuðum hætti og skoðanakannanir hafa sýnt, þ.e. listarnir njóti stuðnings u.þ.b. helmings kjósenda hvor, þá hefur þriðja framboðið nokkra möguleika á því að komast í oddastöðu. Fyrirfram mætti gefa sér að framboð Ólafs F. og félaga myndi einkum verða Sjálfstæðisflokknum til tjóns, en það þarf ekki endilega að vera. Miklu erfiðara væri fyrir sjálfstæðismenn að glíma við sérframboð hægra megin við sig, en nokkuð lítt dulið félagshyggjuframboð Ólafs F. Magnússonar. Þeir kjósendur sem eru óánægðir með störf R-listans, en geta ekki undir nokkrum kringumstæðum hugsað sér að kjósa íhaldið, munu öðlast nýjan félagshyggjuvalkost í framboði Ólafs F. Magnússonar.

Þá er einnig athyglisvert að velta því fyrir sér hvaða áhrif þessi nýjustu tíðindi munu hafa á samningaviðræður Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks og Vinstrigrænna. Er hið mikla stjórnmálaafl VG reiðubúið að binda trúss sitt við Ingibjörgu Sólrúnu og Alfreð Þorsteinsson og eiga á hættu að missa aldraða og öryrkja yfir til Ólafs F. Magnússonar? Ætla Vinstrigrænir að taka áhættuna á því að annað félagshyggjuframboð komist í oddastöðu í borginni og hafi þar með meiri áhrif en þeirra stóri flokkur? Það hlýtur að vera nokkuð áleitin spurning fyrir stærsta félagshyggjuflokk landsins.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.