Kvenleg fegurð

Bókin “Kvenleg fegurð” frá árinu 1956 ritstýrð af frú Ástu Johnsen, fegrunarsérfræðing, er áhugaverð lesning. Hún gæti komið að góðum notum í allri þeirri jólaös sem framundan er – og þó ekki.

Bókin “Kvenleg fegurð” frá árinu 1956 ritstýrð af frú Ástu Johnsen, fegrunarsérfræðing, er áhugaverð lesning. Hún gæti komið að góðum notum í allri þeirri jólaös sem framundan er – og þó ekki.

Bókin fjallar ítarlega um það hvernig konan skal viðhalda og bæta fegurðina. Dæmi er tekin um ýmsar aðferðir til dæmis morgunleikfimi nakin við opinn glugga, smurningu eggjahvítugrímu á andlitið og hvíld í dimmu herbergi með kamillutebakstur á augunum. Ef frekari aðhlynningar er þörf er ráðlagt að hræra nokkra gerkekki í súra mjólk uns úr er orðið deig og rjóðra því svo á sig. Einnig er fjallað um olnbogahirðingu sem vill víst gleymast en olnbogana þarf að hvíla reglulega í volgri olíu ef vel skal vera.

Sem betur fer hefur nú fátt staðist tímans tönn af þeim atriðum sem nefnd eru í bókinni, það sem mesta undrun vekur þó er í kaflanum “Aðeins fyrir konur” er skýrt sett fram hvernig konan skuli haga sér gagnvart karlmanni: “Enda þótt konan njóti jafnréttis í æ vaxandi mæli á vorum dögum, er maðurinn samt, vegna eðlis síns – og okkar einnig – sá, er segir fyrir verkum, hefur frumkvæðið undir öllum kringumstæðum, og bezt er að gera enga breytingu að því leyti.” Ekki er látið þar við sitja heldur skilgreinir bókin þá tvo vígstaði sem konunni er ætlað að sinna og berjast á: “Í afstöðu sinni til karlmannsins verður konan sýknt og heilagt að gæta þess að vera hin undirgefna vera. Það skiptir í raun ekki máli, hvort þér eruð það í raun eða ekki. Jafnvel hin hyggna kona þorir ekki að sýna yfirburði sína nema á tvennum vígstöðvum – fegurðarinnar og matargerðarinnar.”

Hvort sem það eru snyrtiaðferðirnar eða hegðun konunnar þá hafa viðmið okkar og aðferðir sem betur fer breyst. Þær stúlkur sem voru ungar á þessum árum og lásu handbækur sem þessar hafa vafalaust orðið fyrir einhverjum áhrifum og haga lífi sínu til samræmis. Okkur finnst í dag leiðbeiningar eins og þessar einkennilegar og jafnvel fáranlegar því þessi viðhorf eru svo fjarri fólki í dag -minnsta kosti ungu fólki sem hefur ekki alist upp neitt í þessari líkingu.

Latest posts by Berglind Hallgrímsdóttir (see all)