11/12

Sönn vinátta er eitt það dýrmætasta sem nokkur maður getur eignast í lífinu. Vináttan er höfundi einkar hugleikin í dag.

Það er afar rík tilhneiging í mannskepnunni að tengjast öðru fólki sterkum böndum, í góðu jafnt sem illu. Enda þekkjast hugtökin vinátta, ást og hatur út um allan heim, burt séð frá kynþætti, kynferði, uppeldi og efnahag.

Vinátta er að vísu jafn fjölbreytileg og mennirnir eru margir. Hún getur verið eigingjörn, fórnfús og allt þar á milli. Við sjáum dæmi um þroskaða og djúpa vináttu milli hjóna og eins sjáum við fjörlega vináttu fjögurra ára barna í leikskóla – vináttu sem byggist fyrst og fremst á þörf fyrir félagsskap.

Stundum kynnist maður eða heyrir um einstaklinga sem eru óvenju fórnfúsir, óeigingjarnir og umburðarlyndir gagnvart vinum sínum eða maka. Slíkir einstaklingar eru fágætir en hafa oft mikil áhrif á og auðga líf þeirra sem eru aðnjótandi slíkrar vináttu. Þetta er yfirleitt venjulegt fólk sem lítið fer fyrir en sagan segir af nokkrum sem eru góð dæmi um slíka mannkosti.

Hillary Clinton er dæmi um slíkan einstakling enda líklegt að hornsteinn sambands hennar og Bill Clinton sé fremur vinátta en ást, a.m.k. er fátt sem bendir til annars en að það hafi verið platónísk ást síðustu ár. Hún umbar alla hans galla, breyskleika og dynti frá upphafi.

Það er hægt að fullyrða að pólitískur ferill Bill Clinton hefði ekki orðið hinn sami ef Hillary hefði ekki notið við. Hún var hans helsti ráðgjafi og er sagt að hann hafi borið næstum allt undir hana áður en það var framkvæmt. Hún átti stóran þátt í öllum sigrum hans og lagði sitt af mörkum í öllum trúnaðarstörfum sem hann var kosinn til að gegna.

Manni virðist því miður sem slík óeigingirni, umburðarlyndi og fórnfýsi verði sífellt fágætari. Birtingarmyndir þessara mannkosta þurfa ekki að vera í harðri pólitík, í kringum valdamesta embætti heims eins og í tilfelli Hillary heldur finnast þær á öllum sviðum mannlífs, oftast í eðlilegu vina og/eða ástarsambandi á milli venjulegs fólks.

Það dapurlega er að burðarásar eins og Hillary fá allt of sjaldan viðurkenningu á mannkostum sínum. Þeir hverfa oft bak við einstaklingana sem eru aðnjótandi mannkosta þeirra og eru jafnvel átaldir fyrir óeigingirni sína. Þetta er verulega ósanngjarnt í þeim tilfellum þar sem viðkomandi einstaklingar bera af vinum sínum eða mökum á mörgum sviðum.

Hillary fékk ánægjulega viðurkenningu á mannkostum sínum þegar hún var kosin á þing fyrir New York þann 7. nóvember 2000. Kosning hennar markaði upphaf sjálfstæðs ferlis hennar í pólitík eftir að hafa staðið í skugga eiginmanns síns í mörg ár. Margt bendir til þess að ferill hennar í pólitík verði jafn bjartur og farsæll og ferill eiginmanns hennar. Að minnsta kosti má ætla að ferill hennar verði flekklausari.

Umræddir eiginleikar eru fágætir í samfélagi þar sem einstaklingarnir virðast verða sífellt sjálfhverfari. Vonandi berum við gæfu til að veita þessum fáu dýrmætu einstaklingum sem hafa þessa kosti til að bera, sambærilega viðurkenningu og Hillary fékk á mannkostum sínum.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.