Tvískipt jólahátíð

Í gær voru kveikt ljósin á jólatrénu á Austurvelli og jólaundirbúningurinn er smám saman að komast á lokastig hjá flestum. Jólasveinar og poppjólalög – jólaljós og jólaglögg – hressa upp á skammdegið. Það er þó vonandi að sem flestir láti sér þetta þó ekki nægja heldur leyfi einnig kyrrlátum hátíðleika jólahátíðarinnar að eiga sinn sess.

Það hefur viljað bregða við að menn sjái sig knúna til að finna agnúa á því þegar verslanir byrja að setja upp jólaskreytingar og spila jólalög löngu fyrir aðventuna. Sumum finnst þetta vera ótæpileg óþolinmæði og jafnvel vanvirðing við helgi jólanna. Í nýlegum pistli á vefritinu Tíkinni fjallar Elva Dögg Melsteð um það hvernig henni hafi smám saman snúist hugur í afstöðu sinni til hins langa jólaundirbúnings sem nú virðist hafa fest sig í sessi. Elva Dögg segir að í stað þess að fjargviðrast yfir snemmkomnum jólaskreytingum og jólalagaspilun ættum við að njóta þess langa jólaundirbúnings sem skapast hefur hefð fyrir.

Það er hægt að taka algjörlega undir þessa skoðun Elvu Daggar. Okkur hér á norðurhjara veraldar ætti að þykja fátt kærkomnara en að hafa gilda afsökun fyrir því að auka ljósmagnið yfir dimmustu vetrarmánuðina – að njóta örlítið meiri birtu í skammdeginu. Eins er ákaflega gott fyrir okkur að heyra létt og skemmtileg jólalög í útvarpinu og í verslunum. Það kemur okkur í betra skap. Þetta góða skap var allsráðandi í miðbæ Reykjavíkur í gær þegar ljósin voru kveikt á jólatrénu við Austurvöll.

Þar var hátíðleg dagskrá og almenn jólagleði og tilhlökkun í loftinu. Tónlistaratriðin vöktu greinilega lukku en ræðuhöldin virtust ekki vera í sama uppáhaldi. Þegar forseti bæjarstjórnar Oslóar byrjaði að tala fóru margir að hlæja – fannst þetta svona frekar kómískt – og þegar borgarstjórinn tók til máls voru flestir hættir að hlusta – og dálítill órói kominn á mannskapinn. Allir róuðust svo aftur þegar næsta tónlistaratriði hófst – skvaldrið þagnaði og gestir veittu dagskránni athygli á ný.

Skemmtiatriðin voru semsé að virka ágætlega en ræðurnar um gildi jólanna var greinlega ekki að hitta í mark. Jólastemmningin er svo sterk – og jólastuðið svo mikið – að enginn vill að síbyljan stoppi. Enginn vill detta úr stuði.

Þótt jólin séu skemmtileg og við ættum sannarlega að leyfa okkur að vera í góðu skapi á aðventunni þá er mikilvægt í allri jólagleðinni að við gleymum ekki hátíðleik jólanna – gleymum ekki hverju við erum í raun að minnast á jólahátíðinni. Hinn mikli boðskapur jólanna er ekki bara boðskapur um gleði og ljós heldur er hann fyrst og fremst boðskapur um frið og von. Sá boðskapur á svo sannarlega erindi við heimsbyggðina um þessar mundir.

Það er mikilvægt að við minnum okkur sjálf – og hvert annað – á að þótt kóka kóla jólasveinninn, jólaglöggið og jólasveinajólalög séu skemmtilegur þáttur í undirbúningi jólanna þá liggur meira að baki. Gleðin er ekki innihaldslaus og hátíðin ekki merkingarlaus.

Í grein Elvu Daggar á Tíkinni segist hún ekki kunna við það að heyra jólasálma eins og “Heims um ból” og “Helga nótt” í hljóðkerfum verslanamiðstöðva löngu fyrir aðventuna þótt almennt hafi hún tekið hinar nýju jólahefðir í sátt. Þetta get ég tekið heilshugar undir.

Við ættum að kappkosta að njóta jólaundirbúningsins sem lengst, leyfa jólasveinum og poppjólalögum, að létta okkur lundina en hafa jólahátíðina sjálfa kyrrláta og hátíðlega, gefa þá jólasveininum frí og huga að boðskap jólanna. Og jafnvel þótt trúarlegt gildi hátíðarinnar sé mikið þá er kristin trú ekki skilyrði fyrir því að menn geti deilt þeim draumum, vonum og hugsjónum sem jólahátíðin stendur fyrir.

Þannig verður í þessu tilviki bæði sleppt og haldið – ef menn svo kjósa. Jólastuðið þarf ekki að draga úr hátíðleikanum – og hátíðleikinn þarf ekki að skemma jólastuðið.

Gleðilegan jólaundirbúning.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.