Ríkið auglýsir

Pistlahöfundur rak upp stór augu við lestur Fréttablaðsins um helgina, en þar blasti við hálfsíðuauglýsing frá ÁTVR, sem nú rekur þorra síns markaðsstarfs undir vörumerkinu „Vínbúð“. Þetta er nýmæli af hálfu ríkiseinkasölunnar og vekur upp fjölmargar spurningar.

Hálfsíðuauglýsing ÁTVR í Fréttablaðinu síðasta laugardag vakti upp blendnar tilfinningar hjá pistlahöfundi, sem ætlaði varla að trúa sínum eigin augum. Tilgangur auglýsingarinnar var að kynna nýja þjónustu fyrirtækisins, en til jóla mun ÁTVR bjóða upp á ráðgjöf vínþjóna (áfengissölumanna) í verslunum fyrirtækisins.

Það sem fyrst kemur upp í hugann er að auglýsingin er klárt brot á áfengislögum nr. 75/1998, sem vísað er í af heimasíðu fyrirtækisins, en þar kemur fram að:

„Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu.“

Pistlahöfundur grætur þó ekki sérstaklega það brot að öðru leyti en því að lögbrot eru alltaf leiðindamál, og lög sem enginn telur sig þurfa að fara eftir, ekki einu sinni ríkið og fyrirtæki þess, eru einkar sorgleg. ÁTVR er ekki fyrsta fyrirtækið til að brjóta þessi lög, heldur fylgir einungis þeirri þróun sem einkafyrirtæki hafa komið af stað. Þessi stefnubreyting ÁTVR hlýtur þó að vera ákveðin staðfesting á því að róttækar breytingar á fyrirkomulagi áfengissölu á Íslandi eru óhjákvæmilegar.

Að því leyti eru þetta gleðilegar fréttir, því þær gefa vísbendingar um það að rekstraraðilar áfengissmásölunnar telji sig sjá fyrir endann á einokuninni. Það væri þá ástæðan fyrir því að á undanförnum árum hefur mikil áhersla verið á markaðsmál fyrirtækisins, að búa til verðmætt vörumerki sem hægt væri að selja á sem hæstu verði, og skila ríkissjóði sem mestum tekjum í sölu fyrirtækisins. Þetta útskýrir þá einnig hvers vegna hinu gamalreynda vörumerki „ÁTVR“ hefur verið skipt út fyrir nýja vörumerkið „Vínbúð“. Eðli málsins samkvæmt er erfitt að selja vörumerkið ÁTVR til einkaaðila, en Vínbúð getur hver sem er rekið.

Þessum breytingum fylgir þó óvissa um rekstrarform ÁTVR sem nauðsynlegt er að draga úr, og mikilvægt er að tryggja að þróunin stöðvist ekki í millibilsástandi, þar sem ÁTVR stundar smásölu á áfengi í skjóli ríkisins í samkeppni við einkaaðila. Það er því æskilegt að valdhafar gefi sem fyrst út skýra stefnumörkun um málið.

Nauðsynlegt er að stefna að afnámi laganna um einkasölu ÁTVR og tilkynna samhliða á hvaða hátt ríkið hyggst vinna að einkavæðingu fyrirtækisins, svo einkaaðilar á þessum markaði geti fótað sig í því umróti sem fylgir slíkri breytingu. Slík breyting myndi bæta vínmenningu Íslendinga, líkt og aðrar tilslakanir í áfengis- og skemmtanalöggjöfinni hafa gert, þrátt fyrir mótmæli ýmissa forræðishyggjumanna rétt á meðan á þeim hefur staðið.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)