Ruglið með Rimaskóla

Í nóvember síðastliðnum var Rimaskóli í Grafarvogi vígður formlega en hafist var handa við byggingu skólans í upphafi 10. áratugs síðustu aldar.

Í nóvember síðastliðnum var Rimaskóli í Grafarvogi vígður formlega en hafist var handa við byggingu skólans í upphafi 10. áratugs síðustu aldar. Skólinn er fullgerður 7.500 fermetrar, rúmar um 800 nemendur og er þar með einn stærsti og fjölmennasti grunnskóli Reykjavíkur. Það er vissulega fagnaðarefni þegar hús eru reist í því skyni að uppfræða æsku landsins, en kostnaðurinn við byggingu Rimaskóla er allrar athygli verður: 1.350 milljónir króna.

Það er undarlega árátta hérlendis að ekki má reisa byggingu án þess að efnt sé til samkeppni um hönnun hennar. Stundum á slíkt við og fyrir kemur að þessi aðferð heppnast ágætlega. En sorglegu dæmin eru miklu fleiri og er Rimaskóli eitt þeirra. Ekki stendur til að gera lítið úr arkitektúr þeirra Egils Guðmundssonar og Þórarins Þórarinssonar, en spurningin er kannski sú hvort skólahúsnæði þurfi að vera listaverk.

Arkitektar eru auðvitað listamenn og sem slíkir fylgja þeir gjarnan ákveðnum hugarstefnum eða fara jafnvel eigin leiðir í frumlegri nýsköpun. Þetta er allt saman gott og blessað en sá galli er þó á gjöf Njarðar, að slík listsköpun reynist oft mjög dýr í framkvæmd. Óreglulegir útveggir og því um líkt eykur mjög á byggingarkostnað, án þess að auka notagildi hússins að neinu marki. Bygging menntastofnana ætti í einu og öllu að taka mið af þörfum menntunar í stað þess að þjóna sem minnisvarðar um listsköpun þessa arkitekts eða hins.

Í Grafarvogi eru fleiri skólar en Rimaskóli og má í því sambandi nefna Foldaskóla. Sá skóli er litlu minni en kostnaður við byggingu hans var meira en helmingi lægri. Foldaskóli er ekkert listaverk en kunnugir segja húsnæðið henta mjög vel til kennslu og menntunar. Ef t.am. hefði verið ákveðið að reisa Rimaskóla úr einingum, mætti ímynda sér að kostnaður við bygginguna hefði orðið allt að einum milljarði lægri, eittþúsund milljónum. Fyrir þá fjármuni hefði verið hægt að skjóta öllum grunnskólum Reykjavíkur langt inn í upplýsingaöldina með kaupum á tölvum og þess háttar tækjabúnaði. En nei. Málið virðist vera að hafa húsin flott, innihaldið mætir síðan afgangi.

En skólabyggingar eru ekki einu fórnarlömb sjálfsfróunar arkitekta. Annað dæmi er viðbyggingin við Leifsstöð sem ráðist var í vegna þátttöku Íslendinga í Schengen-samstarfinu. Á þeirri byggingu er útveggur sem er hallar frá og er hallinn á veggnum tvenns konar, þ.e. hann breytist þegar ofar dregur. Þetta er eflaust mjög sniðugt og lítur vel út, en bara þessi sniðuga hugmynd hefur eflaust bætt tugum eða jafnvel hundruðum milljóna við byggingarkostnaðinn. Í þennan vegg þurfti sérstaklega styrkt steypujárn og steypuefni með sérstaka eiginleika. Engu var bætt við notagildi eða aðra skynsamlega eiginleika byggingarinnar með þessum vegg. Að auki má deila um hversu mikill fríðleiki er af þessu.

En átakanlegasta dæmið um hugmyndir arkitekta sem reynst hafa dýru verði keyptar er eflaust uppbygging hins svokallaða „Þúsaldarhverfis“ í Grafarholti. Þar er allt hverfið skipulagt og hannað fyrirfram, þ.e. hvert einasta hús. Ef maður kaupir sér lóð í Hverfinu fylgja með teikningar af hús sem þar SKAL rísa. Ef menn lenda á einhverri annarri lóð, fylgja með teikningar af allt annars konar húsi sem þar SKAL rísa. Afleiðingarnar eru öllum kunnar, fólk sem er að byggja hefur væntanlega sínar hugmyndir um útlit hússins og það hefur engan áhuga á þeim skipulagsfasisma sem þarna er hafður í frammi.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.