Mannréttindi í Guantanamo

Í gær var nákvæmlega eitt ár liðið frá því að George W. Bush sór embættiseið sem 43. forseti Bandaríkjanna.

Í gær var nákvæmlega eitt ár liðið frá því að George W. Bush sór embættiseið sem 43. forseti Bandaríkjanna. Lítið fór fyrir hátíðarhöldum af því tilefni, þótt vart verði um það deilt að Bush hefur blásið á allar hrakspár og staðið sig með nokkrum sóma. En í gær voru einnig birtar myndir af liðsmönnum al-Qaida og talibönum sem Bandaríkjamenn halda föngnum í Guantanamo-herstöðinni á suðausturhluta Kúbu. Alls er um að ræða 144 einstaklinga sem teknir hafa verið höndum í Afganistano og víðar undanfarnar vikur. Eins og myndirnar bera með sér, þá er ekki beinlínis verið að dekra við „gestina“ og aðbúnaður þeirra, þar sem þeira dúsa í búrum sínum, minnir á eitthvað allt annað en aðferðir siðaðs réttarríkis.

Ekki verður um það deilt að í huga flestra Bandaríkjamanna eru þessir aðilar ekkert annað en ótýndir bandingjar og því sé ekki ástæða til að sýna þeim einhverja sérstaka kurteisi. Það er nú engu að síður svo, að Bandaríkjamenn viðurkenna Genfarsáttmálann frá 1949 en í 5. grein hans er kveðið á um mannúðlega meðferð stríðsfanga. Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, lét svo ummælt í gær, að meðferð fanganna væri „að mestu“ með þeim hætti að hún samræmdist „eins og hægt væri að ætlast til“ Genfarsáttmálanum. Reyndar þá virtist Rumsfeld ekki taka umræðu um aðbúnað fanganna mjög alvarlega og hann bætti við að fangarnir væru í raun „ólöglegir stríðsmenn“ en ekki stríðsfangar í skilningi Genfarsáttmálans og nytu því ekki verndar hans.

Þessi afstaða Bandaríkjamanna er varasöm og í raun fremur kjánaleg. Þeir hafa sjálfir þjóða mest lagt áherslu á ákvæði Genfarsáttmálans og stuðst við hann í óhefðbundnum stríðum, eins og t.d. á Balkansskaga. Með því að virða ákvæði sáttmálans nú af slíkri léttúð eru þeir gefa óvinum sínum færi á hinu sama. Með öðrum orðum þá eru Bandaríkjamenn með framferði sínu að gengisfella réttindi stríðsfanga almennt, þar sem talin réttindi sinna eigin hermanna og hermanna bandamanna sinna sem kynnu að falla í óvinahendur í náinni framtíð. Í breskum fjölmiðlum er því einmitt haldið fram að framferði Bandaríkjamanna í Guantanamo gæti komið niður á breskum hermönnum og við það verði ekki unað.

Því má vissulega halda fram með fullum rökum, að í baráttunni við hryðjuverkamenn sem svífast einskis, þá dugi engin vettlingatök. Þá er einnig ljóst að liðsmenn Al-Qaida sem nú dúsa í búrum í Guantanamo eiga ekki samúð margra. Þeir hljóta þó að teljast til manna, að minnsta kosti samkvæmt hefðbundnum skilgreiningum, og því eiga þeir óskoraðan rétt til mannhelgi. En þótt ekki dugi nein vettlingatök, þá má baráttan gegn hryðjuverkum ekki valda meira tjóni á vestrænu samfélagi en sjálf barátta hryðjuverkamannanna. Við eigum að gera strangar kröfur um að virða reglur réttarríkisins, ekki endilega af virðingu við fangana, heldur af virðingu við okkur sjálf og okkar gildi.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.