Látum þau þjást

,,Hvernig getur þjóð sem framdi slík ódæði verið reiðubúin til að taka þátt í vestrænni samvinnu. Það voru ekki þau sem þjáðust heldur við.” Þessi orð lét Stjepan Mesic, forseti Króatíu, falla á fundi í Prag í síðustu viku í tilefni af leiðtogafundi NATO. Þar var hann að sjálfsögðu að vísa til serbnesku þjóðarinnar og stríðsglæpa sem framdir voru í Bosníu og Kosovo.

Á leiðtogafundi NATO 21. og 22. þessa mánaðar náðist söguleg sátt um varnarsamstarf Evrópu. Ekki einungis var 7 austurevrópskum þjóðum boðin innganga heldur hefur sambandið við Rússa aldrei verið betra. Þrátt fyrir að mikilla efasemda gæti um stækkun NATO í Rússlandi þá hafa stjórnvöld blessunarlega tekið þá afstöðu að vinna með bandalaginu að öryggis- og varnarmálum. Vonandi hefur hlekkjum Kalda stríðsins endanlega verið varpað af Evrópu.

Robertson lávarður sagði á fundinum að ekki mætti líta á þetta sem síðustu stækkun NATO. Samkomulag væri um að hver þjóð sem uppfylgdi ákveðin skilyrði gæti sótt um inngöngu og ljóst er að fjölmargar þjóðir hyggjast gera það á næstu árum. Edvard Shevardnadze sagði að innganga væri á stefnuskrá georgíska stjórnvalda en landið einfaldlega ekki tilbúið til þess. Efnahagurinn væri of veikur og enn væru landamæradeilur í landinu, til dæmis við Rússa. Fyrrum ríki Júgóslavíu hafa einnig lýst því yfir að þau vilji gerast aðilar að NATO á næstu árum. Í tilefni af því héldu Alfred Moisu forseti Albaníu, Boris Trajkovski forseti Makedóníu og Stjepan Mesic forseti Króatíu fund í Radio Free Europe.

Þessi fundur var minnisstæður fyrir margra hluta sakir. Forsetarnir þrír töluðu opinskátt um fortíð og framtíð þjóðanna og mögulegt samstarf þeirra á milli. Þeir sögðu meðal annars að ríkin þrjú stefndu að því að fella niður tolla þannig að til yrði fríverslunarsvæði. Auk þess ætti að ríkja ferðafrelsi milli landanna ásamt því að lýðræðisleg réttindi fólks og virðing fyrir mannréttindum yrðu tryggð. Vonir standa til þess að innan tveggja ára verði ríkin reiðubúin til að ganga í Evrópusambandið og NATO. En það voru í raun og veru hvorki fyrrgreindar yfirlýsingar né sameiginlegur fundur þessara ríkja sem vöktu athygli fólks heldur fjarvera fulltrúa fjórða ríkisins á svæðinu, nefnilega Júgóslavíu.

Það kom mjög skýrt fram í máli forsetanna þriggja að Júgóslavía, og þá aðallega Serbía, væri ekki hluti af framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Stríðssárin eru engan vegin gróin eins og kom hvað skýrast fram í málflutningi forseta Króatíu. Hann var spurður hvort hann teldi þjóðir svæðisins tilbúnar til þess að ganga í NATO og hvort einhver þjóðanna væri áberandi styttra á veg komin en hinar. Svar forsetans verður lengi í minnum haft, enda kom blint hatur á nágrönnum hans skýrt fram. Í stuttu máli hélt hann því fram að allar hörmungar svæðisins mætti rekja til Slobodans Milosevic og Serba og að allir aðrir hefðu verið fórnarlömb óvæginnar þjóðerniskenndar.

Nú verður því ekki haldið fram að Milosevic sé eitthvað annað en ófreskja sem eigi heima undir lás og slá. Hvað þá að Bosníustríðið og Kosovodeilan eigi ekki uppruna sinn að rekja til útþenslustefnu hans. En að rifja upp stríðsglæpi einnar þjóðar sem dæmi um hversu skammt á veg lýðræðis hún er komin, án þess að viðurkenna sams konar glæpi eigin þjóðar er í hæsta máta óeðlilegt. Mesic vildi ekki kannast við það að Króatar, múslimar eða Albanir hefðu gert nokkuð rangt heldur eingöngu Serbar. Þess vegna ætti að útiloka Júgóslavíu en bjóða hin ríkin velkomin í hóp vestrænna ríkja. Þótt forsetar Makedóníu og Albaníu hafi ekki tekið jafnsterkt til orða mátti skilja þá sem svo að þeir væru í grundavallaratriðum sammála þessu.

Það er furðulegt hversu seint fólk ætlar að læra af sögunni. Eftir fyrri heimsstyrjöldina var Þjóðverjum kennt um allt sem gerðist og þeim gert að borga stríðsskaðann. Við þekkjum öll framhaldið eftir að heil kynslóð var neydd til að lifa í kúgun og smán. Enginn þarf að efast um það að sama vandamál kemur upp í Serbíu fái forseti Króatíu einhverju ráðið. Þótt enn séu blikur á lofti verðum við að líta svo á að stríðið sé búið. Hversu erfitt sem það kann að reynast verðum við að horfa fram á veginn.

Það er langt þangað til að íbúar Balkanskagans geta lifað í sátt og samlyndi, enda saga svæðisins uppfull af átökum og deilum. Það er því undir okkur komið að virðing fyrir lýðræði, mannréttindum og samvinnu þjóða fái að blómstra hjá ógæfusömu fólki þessara landa. Telji Króatar, Makadónar og Albanir að útskúfun Serba sé leiðin til þess er greinilegt að þessar þjóðir eiga enn lengra í land en við þorðum að vona.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)