Ambúlantrannsóknir, Skógarhlíðin og fleira

Nánast undantekningalaust á haustþingi er lagt fram frumvarp til fjáraukalaga til að mæta ófyrirséðum eða vanáætluðum kostnaði ríkisins á yfirstandandi fjárlagaári. En hvað er það sem Alþingi er að senda skattborgurum landsins bakreikninga fyrir? Ýmislegt vakti í það minnsta forvitni greinarhöfundar við lestur þingskjals nr. 449 um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2002.

Nánast undantekningalaust á haustþingi er lagt fram frumvarp til fjáraukalaga til að mæta ófyrirséðum eða vanáætluðum kostnaði ríkisins á yfirstandandi fjárlagaári. Að þessu sinni hljóðar bakreikningur skattborgara upp á tæplega 3,3 milljarða króna og ekki kemur sérstaklega á óvart, miðað við umræðuna í fjölmiðlum undanfarið, að heilbrigðisráðuneytinu er eyrnamerktur langstærsti hluti þessa fjár eða um 1,9 milljarðar króna. En hvað er það sem Alþingi er að senda skattborgurum landsins bakreikninga fyrir? Ýmislegt vakti í það minnsta forvitni greinarhöfundar við lestur þingskjals nr. 449 um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2002. Það er ekki ætlun greinarhöfundar að meta réttmæti tiltekinna atriða í fjáraukalögunum, frekar að upplýsa um ýmis atriði sem ólíklegt má telja að minnst verði á annars staðar.

Fastir liðir eins og venjulega í fjáraukalögum eru vegna vanáætlana við framkvæmdir á vegum hins opinbera og má í því sambandi nefna 33 milljóna króna bakreikning vegna framkvæmda við nýjan þjónustuskála Alþingis og tengingu hans við Alþingishúsið.

Hverju landsbarni er síðan gert að greiða tæplega 10 kr., eða alls um 2,6 milljónir króna, vegna endurgreiðslna á fargjöldum Flugleiða til Falun Gong meðlima sem var vísað frá landinu síðastliðið sumar. Til samanburðar má geta þess að fyrir þessar 10 kr. væri hægt að fá einn hálsbrjóstsykur eða svo úti í næsta söluturni. Greinarhöfundur kaupir sér tvímælalaust einum hálsbrjóstsykri minna næst þegar hann fær hálsbólgu með þá vitneskju í huga að sá brjóstsykur, sem hann fórnar á altari skattstjóra, kom í veg fyrir að óeirðarseggir hvaðan æva úr heiminum hefðu getað safnast saman á Austurvelli og hugleitt í sameiningu.

Það þurfti að endurskipuleggja í starfsmannamálum á Bessastöðum á árinu – C-gíró til allra landsmanna upp á 5,2 milljónir fyrir það. Fáviska greinarhöfundar er hér með afhjúpuð en ekki vissi hann til þess að á Bessastöðum starfaði nokkur maður.

Beingreiðslur til mjólkurbænda hækka um tæplega 64 milljónir króna m.a. vegna ákvörðunar verðlagsnefndar landbúnaðarvara um 3,69% hækkun á verði til framleiðenda frá og með 1. nóvember 2002. Mikið er það nú gott að verð á mjólk sé ekki ákvarðað á frjálsum markaði heldur af nefnd á vegum ríkisins. Þetta gerir það m.a. kleift að rukka landsmenn eftir á fyrir mjólk sem þeir hafa þegar keypt!

Skógarhlíðin í Reykjavík hlýtur að vera illaðgengileg í víðasta skilningi þess orðs, eða það má að minnsta kosti lesa út úr frumvarpinu. Gert er ráð fyrir kostnaði upp á 108 milljónir kr. vegna flutnings Almannavarna, fjarskiptamiðstöðvar lögreglunnar, Neyðarlínunnar og Útlendingastofnunar (sem gerir hvað?) upp í Skógarhlíð. Ef við miðum við að árslaun flutningamanna séu 3 milljónir að þá mættu 36 menn vera í heilt ár að flytja þessar stofnanir milli staða. Þess ber þó að geta að inni í þessum 108 milljónum er kostnaður vegna tækjakaupa sem er ekki skilgreindur sérstaklega.

Stærsti hluti fjáraukalaganna að þessu sinni er vegna uppsafnaðs rekstrartaps ýmissa ríkisstofnana, aðallega á vegum heilbrigðisráðuneytisins, og vegur þar tap Landspítalans þyngst eða sem nemur um einum milljarði króna. Auk þess má geta að heilbrigðisráðherra biður um 60 milljónir króna til viðbótar til sérfræðilækna vegna ambúlantrannsókna. Sérfræðilæknar hafa einmitt unnið sér inn traust almennings og Tryggingastofnunar á undanförnum vikum og því gott að sjá þá fá smá auka túskilding fyrir jólin. Ef maður nú bara vissi hvað ambúlant væri!

Þrátt fyrir að hér að ofan væri minnst á fáein þeirra 47 atriða sem tiltekin eru í fjáraukalögum ársins 2002 má telja víst að landsmenn séu ekki sáttir við slíka bakreikninga sem fjáraukalögin vissulega eru. Allt of stór hluti fjáraukalaganna er vegna uppsafnaðs rekstrartaps ríkisstofnana og er það ólíðandi að menn geti firrt sig ábyrgð á rekstrinum vitandi það að allir bakreikningar verði hvort eð er greiddir. Slík vinnubrögð ganga augljóslega ekki upp á frjálsum markaði og það ættu þau heldur ekki að gera á vegum hins opinbera.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)