Réttlæti fyrir börn

Glæpir gegn börnum vekja ávallt óhug á meðal fólks og er því sorglegt hveru oft okkur berast fréttir af þeim. Andstyggilegast er að heyra af kynferðisglæpum gagnvart börnum, en undrun þykir sæta sú léttvæga refsing sem brotamenn hljóta.

Kynferðisofbeldi gagnvart barni er viðurstyggilegur glæpur og ekki er nokkur leið að skilja sjúkt hugarfar þess aðila sem fremur slík ódæði. Gerendur í þessum málum eru mjög sjaldan dæmdir ósakhæfir og eru því taldir bera fulla ábyrgð á gjörðum sínum. Furðulega vægir dómar vekja því bæði undrun og reiði út í samfélaginu.

Í síðustu viku var maður dæmdur til að sitja inni í 3 mánuuði fyrir kynferðisbrot gagnvart þremur ungum telpum. Einnig var hann dæmdur í 15 mánaðar skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu miskabóta til stúlknanna á bilinu 200 til 700 þúsund krónur. Maðurinn var dæmdur fyrir ítrekuð brot gagnvart hálfsystur sinni sem hófust þegar hún var 10 ára gömul. Einnig var hann dæmdur fyrir að hafa brotið oft gegn fimm ára og átta ára gömlum stúlkum.

Maðurinn þótti hafa rofið trúnað við stúlkurnar ítrekað á svívirðilegan hátt og brotið með háttsemi sinni gegn friðhelgi fjölskyldu og heimilis þegar stúlkurnar voru barnungar. Brotin voru framin á heimili stúlknanna, þar sem ákærði var heimilisvinur og naut óskoraðs trúnaðartrausts foreldra þeirra, annars vegar í skjóli sifjatengsla og hins vegar í skjóli annarra vensla.

Ekki er ólíklegt að maður sem dæmdur væri fyrir hvítflibbaglæp og þyrfti að sitja inni í þrjá mánuði fyrir vikið, hefði prettað eða svikið út það miklar fjárhæðir að sektargreiðslur hans yrðu mjög háar. Þessar sektir myndu að öllum líkindum verða hærri en sem nemur þeim miskabótum sem kynferðisbrotamaðurinn þarf að greiða fórnarlömbum sínum. Ekki nóg með það heldur myndu sumir fjölmiðlar eflaust birta nafn og mynd af hvítflibbabófanum og tryggja þannig miklu þyngri refsingu hvítflibbans.

Það er ljóst að í kynferðisbrotum sem snúa að börnum er dómaframkvæmt ekki í neinu samræmi við það sem almenningsálitið krefst. Margir benda hins vegar á það að ekki megi taka of mikið tillit til almenningsálits hverju sinni, þar sem það kann að sveiflast og riðla þannig eðlilegu dómasamræmi. En sennilega ríkir ekki í neinum öðrum brotaflokki jafnmikil samstaða almennings um refsingu, eins og í þeim sem lýtur að kynferðisbrotum gagnvart börnum. Það er ólíklegt að miklar breytingar verði á vilja fólksins í þeim flokki.

En þó fólk sé ósátt við dómaframkvæmdina sjálfa, þá þarf einnig að skoða hvaða skilaboð löggjafinn sendir dómstólunum. Hámarks refsing fyrir nauðgun er 16 ár og gefur það til kynna að löggjafinn telji nauðgun vera mjög alvarlegan glæp, og því eru flestir sammála. Hámarks refsing fyrir áralanga kynferðismisnotkun á barni er hins vegar ekki nema 12 ár. Ef um ættingja er að ræða þá telst, samkvæmt lögum, misnotkun á barni ekki jafn alvarleg. Hámarksrefsing fyrir ættingja í slíku tilfelli er aðeins 10 ára fangelsisvist. Margir hefðu eflaust talið þessu öfugt farið.

Hverskonar skilaboð eru verið að senda þarna út í þjóðfélagið og til dómsstólanna? Samkvæmt þessum lögum er nefnilega gerður greinarmunur á nauðgun og sifjaspelli, sem er þá ekki álitin jafn alvarlegur glæpur.

Það er því réttlát krafa okkar að vilja búa í þjóðfélagi sem er sanngjarnt og þar sem við og börnin okkar geta verið örugg, bæði heima hjá okkur og annarsstaðar, gagnvart ofbeldismönnum. Það er vonandi að gerð verði bragarbót á þessum málum á næsta þingi.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.