Frjáls fótbolti

Íslenskar bullur geta tekið gleði „Sýna“ á ný, eftir að hafa verið blindaðir af forræðishyggju, því HM2002 verður sjónvarpað beint.

Loksins er kominn botn í stóra HM-málið. Allir leikirnir verða sýndir í beinni útsendingu á Sýn eða Stöð 2. Þetta eru miklar gleðifréttir fyrir áhugamenn um knattspyrnu sem voru margir hverjir farnir að örvænta. En jafnvel enn betri fréttir fyrir hina sem ekki hafa minnsta áhuga á íþróttinni.

Hingað til hefur keppnin verið sýnd í sjónvarpi allra landsmanna í opinni dagskrá. Þannig hafa allir viðurkenndir viðtækjaeigendur haft tækifæri á að fylgjast með keppninni. Kannanir hafa sýnt að um helmingur landsmanna fylgist með HM í knattspyrnu. Þannig er þessi stórviðburður eitt alvinsælasta sjónvarpsefni sem völ er á. Það að sjónvarpið hafi ekki séð sér fært að sýna þessa keppni á meðan það framleiðir dýra þætti með takmarkað áhorf sýnir að það lætur ekki stjórnast af vilja þjóðarinnar, heldur blindri forræðishyggju.

Það er þó í raun gleðiefni að Ríkissjónvarpið sýni ekki leiki keppninnar. Sérstaklega fyrir þá sem þola ekki að fréttum sé hnikað til vegna íþróttaútsendinga og vilja að Mósaík sé á réttum tíma. Þótt það sé í raun ekki stórt vandamál í þetta skiptið þar sem leikirnir fara fram á morgnana að íslenskum tíma. Þetta fólk á ekki að þurfa að greiða fyrir að ég geti séð Owen, Zidane og Verón leika listir sínar á vellinum. Því það hefði þurft þess, annað hvort í formi afnotagjalda eða skatta.

Besta hugsanlega lausnin varð því ofaná. Þeir sem vilja horfa á leiki keppninnar verða að greiða sérstaklega fyrir það með áskrift að Stöð 2 og Sýn. Væntanlega hækkar áskriftargjaldið nokkuð í júnímánuði, en við áhugamenn um knattspyrnu og frjáls viðskipti munum ekki láta það á okkur fá. Auk þess munum við taka bensín hjá Olís á Hyundai bifreiðina okkar, fá KPMG til að gera skattskýrsluna okkar og greiða fyrir allt saman með Eurocard kreditkortinu.

Svona ganga viðskipti nefnilega fyrir sig. Fólk greiðir fyrir vöruna sem í þessu tilfelli er útsending frá knattspyrnuleik. Það vill líka svo til að styrktaraðilarnir fjórir sem ég nefndi hér að ofan sjá sér hag í því að þeirra nafn sé tengt við útsendingarnar, auk þess munu fleiri fyrirtæki nota tækifærið og auglýsa sínar vörur á milli leikja. Þessi fyrirtæki greiða Norðurljósum peninga sem þau fá svo til baka þegar við neytendur verslum við þau. Allt gerist þetta með frjálsum viðskiptum og enginn er neyddur til að taka þátt í þeim.

Þetta er því mun betri og heilbrigðara en ef Ríkissjónvarpið hefði ákveðið að sýna frá keppninni. Þá hefði þurft að hækka ánauðarafnotagjaldið til allra eða taka kostnaðinn inn í gegnum skattkerfið. Eins og menntamálaráðherra sagði í viðtalið við Morgunblaðið þá er þetta viðskiptalegt úrlausnarefni. Fólk á sjálft að ráða hvort það greiðir fyrir að það eða aðrir horfi á knattspyrnu í sjónvarpinu. Vonum að þetta sé stórt skref í áttina frá skattlagningu á alla fyrir áhugamál sumra.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)