Hagvöxtur í Bandaríkjunum

Hagvöxtur í Bandaríkjunum á fjórða ársfjórðungi síðasta árs var mun meiri en flestir áttu von á. Enginn ætti þó að láta glepjast af þessum tölum. Þær skýrast að nánast öllu leyti af gríðlegum kipp í bílaframleiðslu. Aðrir þættir í þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna eru enn í mikilli lægð.

Flestir sem fylgjast gannt með þróun efnahagsmála ráku væntanlega upp stór augu í síðustu viku þegar tölur um hagvöxt í Bandaríkjunum á fjórða ársfjórðungi síðasta árs voru birtar. Flestir sérfræðingar höfðu spáð því að hagvöxtur yrði neikvæður um ríflega 1% á ársgrundvelli. Sú skoðun var útbreidd að yfirstandandi kreppa í Bandaríkjunum hafi náð hámarki á þessu tímabili enda hafði atvinnuleysi aukist verulega og störfum fækkað að sama skapi.

Raunin varð hins vegar sú að hagvöxtur mældist jákvæður um 0.2%. Hvernig gat það staðist? Það fyrsta sem kom upp í huga minn var að nú hafi bandaríska hagkerfið enn einu sinni komið á óvart með ótrúlegum styrk sínum eins og það hefur gert trekk í trekk á síðustu árum. Samt fannst mér með ólíkindum að hagkerfið gæti staðið af sér hryðjuverk haustsins og áhrifin af lækkun eignaverðs á síðustu tveimur árum án þess að dragast saman svo neinu nemur.

Þess vegna fletti ég upp á þessum nýju tölum á heimasíðu Bureau of Economic Analysis. Þar kom ýmislegt athyglisvert í ljós. Þessi ótrúlega góða tala skýrist að nánast öllu leyti af einum lið í þjóðhagsreikningunum: neyslu á varanlegum neysluvörum. Slík neysla jókst um 38.4% á ársgrundvelli!!! Þetta skýrist að því er ég best fæ séð af aukinni sölu á bílum í Bandaríkjunum í október og nóvember. Á þessum tíma brugðust stóru bílafyrirtækin í Bandaríkjunum við ládeiðu í kjölfar hryðjuverkanna með því að bjóða viðskiptavinum sínum upp á einstaklega góð kjör (0% vexti af afborgunum) sem leiddi til þess að kaup á bílum tók verulegan kipp.

Ef litið er á aðra undirþætti þjóðarframleiðslu er allt annað uppi á teningnum. Þannig dróst fjárfesting saman um ein 23.7% á ársgrundvelli, sem er einhver mesti samdráttur í mörg ár. Útflutningur dróst saman um 12.4% á ársgrundvelli og önnur neysla en neysla á varanlegum neysluvörum jókst mjög hægt. Allt bendir þetta til þess að bandaríska hagkerfið hafi verið djúpt í viðjum kreppunnar á síðasta ársfjórðungi. Hin mikla sala á bílum er í sjálfu sér jákvæð en líklega er hagvöxturinn sem hún skapar einfaldlega tekin að láni frá hagvexti næsta árs.

Í ljósi þessa verður að segjast að skýrslan sem í fyrstu leit ótrúlega vel út beri þegar betur er að gáð vott um gríðarlegan veikleika bandaríska hagkerfisins um þessar mundir og bendi til þess að hagvöxtur á næsta ári verði afskaplega lítill.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.