Villandi málflutningur Stöðvar 2 um skattamál

Einungis fimm ríki innan OECD bera minni skatta en Íslendingar. Ríkisstjórnin hefur ítrekað lækkað skattprósentur á undanförnum árum. Þrátt fyrir þetta heldur Stöð 2 því fram að skattar hafi hækkað. Það er merkileg niðurstaða!

Á síðustu vikum hefur Stöð 2 farið mikinn í málflutningi um skattamál á Íslandi. Kristján Már Unnarsson hefur farið þar fremstur í flokki og flutt hverja fréttina af annarri sem virðist sýna að skattheimta á Íslandi hafi verið að aukast og sé jafnvel með því hæsta sem gerist í heiminum.

Þær tölur sem settar hafa verið fram í málflutningi Stöðvar 2 eru mjög villandi og gefa hvergi nærri rétta mynd af raunverulegri stöðu skattamála á Íslandi. Annað hvort er vanþekking fréttamannsins á grundvallarreglum stærðfræðinngar sláandi – eða að hann reynir vijlandi að villa um fyrir áhorfendum. Staðreyndin er sú að skattar á einstaklinga og fyrirtæki hafa farið lækkandi hér á landi að undanförnum árum þótt skatttekjur ríkissjóðs hafi aukist vegna stóraukinna umsvifa í íslensku efnahagslífi.

Í tölum frá OECD kemur fram að skatttekjur opinberra aðila á Íslandi námu árið 2001 34,8% af vergri landsframleiðslu en einungis fimm ríki innan OECD hafa lægra hlutfall – Bandaríkin, Japan, Ástralía, Sviss og Írland.

Núverandi ríkisstjórn hefur aldrei farið í grafgötur með þá stefnu sína að vilja lækka skatta og það hefur hún gert mjög myndarlega en í senn á ábyrgan hátt. Reynt hefur verið að láta skattkerfið þjóna sem sveiflujafnandi þáttur í hagkerfinu og þannig stuðlað að þeim stöðugleika sem hér hefur ríkt á undanförnum árum.

Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingar, er mikið pólitíkst kameljón. Nú stendur hún í hörðum prófkjörsslag og hefur ákveðið að gera skattalækkanir að sínu helsta baráttumáli. Hún er auðvitað ákaflega trúverðug í því hlutverki enda alþekkt sem málsvari skattgreiðenda í hinum ýmsu málum – og seinþreytt til hugmynda um aukin ríkisútgjöld. Eða þannig.

Það sem fer einna helst í taugarnar á Jóhönnu virðist vera sú staðreynd að margir þeir hópar í samfélaginu sem á aðstoð þurfa að halda séu nú farnir að greiða einhverja skatta af tekjum sínum. Þetta þykir Jóhönnu ótækt – og eins virðist henni hrýsa hugur við þeirri þróun að hærra hlutfall landsmanna greiði skatta nú en áður.

Sú þróun að hærra hlutfall landsmanna greiði skatta er þó síður en svo til marks um að eitthvað sé að í þjóðfélaginu. Þvert á móti er það mikið hraustleikamerki. Samfélagsaðstoð við þá sem minna mega sín hlýtur að einhverju leyti að miða að því að hjálpa viðkomandi einstaklingum að gerast fullgildir þátttakendur í samfélaginu – og hluti af því er auðvitað að greiða skatta.

Trúðverðugleiki Jóhönnu Sigurðardóttur er enginn þegar hún lætur sem hún sé málsvari skattalækkunar – og trúverðugleiki Kristjáns Más Unnarssonar þegar meðferð tölfræðigagna er annars vegar – er jafnvel enn minni. Staðreyndin er sú að ríkisstjórninni hefur tekist að lækka skatta, viðhalda samfélagsþjónustunni og tryggja stöðugan vöxt íslensks efnahagslífs – til þess að koma höggi á ríkisstjórnina þurfa þau Jóhanna og Kristján að líta skipulega framhjá raunverulegri stöðu mála – og það er það sem þau gera.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)