Undarleg röksemdafærsla

Í heilsíðuviðtali í Stúdentablaðinu ræða forystumenn Röskvu um nýja stöðu sína sem minnihluti í Stúdentaráði og bjóða lesendum upp á mjög furðulega réttlætingu á slælegri rekstrarstöðu ráðsins á meðan Röskva var við stjórnartaumana.

Í nýútkomnu Stúdentablaði er að finna viðtal við þau Ingva Snæ Einarsson, formann Röskvu, og Kolbrúnu Benediktsdóttur, oddvita félagsins í Stúdentaráði. Í viðtalinu er víða komið niður og m.a. rætt um þá slæmu fjárhagsstöðu sem Stúdentaráð var skilið eftir í að afloknu langri setur Röskvu í meirihluta.

Það er greinilegt á viðtalinu að Röskva, sem fór með meirihluta í SHÍ í rúman áratug áður en Vaka náði að sigra mjög naumlega í kosningum í febrúar sl., á nokkuð erfitt með að átta sig á nýju hlutverki sínu í minnihluta og greinilegt er að þrátt fyrir mikla viðleitni nýs meirihluta Vöku til þess að snúa frá skotgrafahernaðinum sem tíðkaðist í meirihlutatíð Röskvu þá eiga fulltrúar Röskvu erfitt með að aðlaga sig breyttum hugsunarhætti. Formaður Röskvu virðist t.d. halda að ósigur Röskvu hafi komið til vegna værukærðar stuðningsmanna félagsins í Háskólanum og gerir þar með lítið úr þeirri þungu bylgju sem skilaði Vöku sigri eftir mikla uppbyggingu á síðustu árum. Hann virðist að auki gleyma því að Röskva hefur aðeins tvisvar sinnum fengið fleiri atkvæði en í fyrra, árin 1992 og 1995.

Mesta athygli í vitðalinu við þau Kolbrúnu og Ingva hlýtur þó að vekja hin furðulega röksemdarfærsla sem þau hafa í frammi vegna fjárhagsstöðu Stúdentaráðs. Kolbrún heldur því fram að formaður Stúdentaráðs fari með fleipur þegar hann bendir á miklar skuldir sem skildar voru eftir í ráðinu sl. vor þegar Röskvumeirihlutinn lét af stjórnartaumum en viðurkennir þó að Stúdentaráð hafi verið rekið með um 1.600.000 króna tapi vegna halla á rekstri Stúdentablaðsins. Hún beitir þeirri furðulegu lógík að skuldir Stúdentablaðsins hafi ekkert með Stúdentaráð að gera. Orðrétt segir Kolbrún:

Í fyrsta lagi sagði hann að það hafi verið halli á rekstri ráðsins [Stúdentaráðs]. Það er ekki rétt, halli var á rekstri Stúdentablaðsins og þann halla má rekja til ástands á auglýsingamarkaði sem var mjög erfitt en ráðið sjálft var rekið í kringum núllið.

Þessi útúrsnúningur er ákaflega léleg vörn og getur vart lýst öðru en töluverðri vanþekkingu á rekstri Stúdentaráðs, en rekstur blaðsins fellur beint undir ráðið og er því hluti af rekstri ráðsins. Afbökun Kolbrúnar er svipuð og ef forstjóri bílaumboðs segði að það hafi ekki verið tap á bílasölunni sem slíkri heldur aðeins á bílasöluþættinum, rekstur skrifstofu fyrirtækisins hafi verið á núllinu.

Staðreyndin er sú að rekstur ráðsins hefur alls ekki verið sem skyldi á undanförnum árum og hefur Stúdentablaðið verið fjárhagslegur baggi á ráðinu. Meirihluti Vöku ákvað hins vegar að tækla málið á bæði frumlegan og djarfan hátt með því að ákveða að gefa blaðið út í tífalt stærra upplagi en nokkru sinni áður og dreifa því með Morgunblaðinu í tæplega 60 þúsund eintökum auk mikillar dreifingar á háskólasvæðinu. Þessi ákvörðun er e.t.v. eitt besta dæmið um þá hugarfarsbreytingu sem átt hefur sér stað í Stúdentaráði með því að Vaka komst í meirihluta.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.