Gæti ég fengið hjartalaga agúrku?

Framfarir í erfðatækni hafa valdið mikilli byltingu í matvælaframleiðslu í heiminum. Í Bandaríkjunum er mjög notast við slíkar aðferðir til þess að auka framleiðsluhraða og bæta gæði afurðanna og í Evrópu nota bændur erfðabreytt ensím í ostframleiðslu og víngerð. Þrátt fyrir að tæknin sé notuð í Evrópu er Evrópubúum mörgum mjög í nöp við erfðabreytt matvæli.

Deilur um hvort leyfa beri sölu á erfðabreyttum matvælum í Evrópu voru til umfjöllunar í The Washington Post í gær. Þar var greint frá því að þótt Evrópuráðið hafi ákveðið að hverfa frá fyrri afstöðu sinni, þ.e. að vera mjög mótfallið innflutningi á erfðabreyttum matvælum, þá sé ólíklegt að bandarískir framleiðendur fái tækifæri til þess að koma vörum sínum á markaði í Evrópu í nánustu framtíð. Nokkur af helstu landbúnaðarframleiðsluríkjum Evrópu, t.d. Frakkland og Ítalía, munu standa mjög einarðlega gegn öllum hugmyndum um að opna evrópska markaðinn fyrir samkeppni frá bandarískum framleiðendum sem notast við erfðavísindi til þess að bæta framleiðsluna sína.

Að vissu leyti er hræðsla við erfðabreytt matvæli skiljanleg – og margir sjá e.t.v. fyrir sér þríhöfða beljur eða 200 kg. hænsn – eða neongræna tómata og talandi spergilkál – og hafa lítinn áhuga á að leggja sér slíkt til munns.

Tilraunir til þess að bæta framleiðslugetu í landbúnaði eru ekki gerðar til þess að afbaka náttúruna eða eitra fyrir fólki. Þvert á móti eru tilraunir til þess að auka framleiðni í landbúnaði gerðar til þess að koma betur til móts við neytendur hvað varðar gæði matvöru og verðlag.

Á það hefur verið bent að mistök hafa átt sér stað við framleiðslu á erfðabreyttum matvælum og slíkt notað sem röksemd fyrir banni við slíkum tilraunum. En örfá óhöpp við matvælaframleiðslu eru ekki röksemd fyrir því að það beri að leggja hana af. Mikilvægt er að miklar gæðakröfur séu gerðar til hvers konar matvælaframleiðslu hvort sem notast er við erfðatækni við framleiðsluna eða ekki.

Engar vísbendignar hafa fundist um að þær erfðabreytingar sem notaðar hafa verið í Bandaríkjunum séu neytendum skaðlegar. Umhverfisverndarsamtök og mörg af stærstu ríkjum Evrópu virðast hins vegar ekki tilbúin til þess að opna augun fyrir þeim möguleika að opna markaðinn fyrir slíkum vörum. Meðal alvarlegustu afleiðinga þessa hefur verið sú að sárafátæk ríki í Afríku hafa ekki þorað að þiggja matargjafir frá Bandaríkjunum af ótta við að sæta í kjölfarið refsiaðgerðum af hendi ESB.

Kjarni deilunnar um erfðabreytt matvæli er annars eðlis en fyrst virðst. Málið, sem fyrst virðist snúast um hagsmuni neytenda – snýst í raun, eins og gjarnan kemur í ljós, um hagsmuni framleiðenda – í þessu tilviki evrópskra bænda. Þeir vilja koma í veg fyrir að þurfa að keppa á frjálsum markaði við vörur t.d. frá Bandaríkjunum og þar sem Alheimsviðskiptastofnunin (WTO) nær sífellt meiri árangri í að fella niður verndartolla – þá er gripið til annarra aðgerða, þ.e. tæknilegra viðskiptahindrana, sem eru ekki síður skaðlegar frjálsri samkeppni en verndartollarnir.

Frjáls viðskipti á sem flestum sviðum er lykill þess að fátækari ríki geti komið undir sig fótunum. Óvísindalegur hræðsluáróður sem miðar að því að hindra fríverslun og vernda ríkjandi ástand er einhver helsta hindrun í vegi fátækari ríkja heims á leið til betri lífskjara.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.