Unga fólkið ætlar sér stóra hluti

Ungir sjálfstæðismenn ætla sér greinilega stóra hluti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem haldið verður eftr rúman mánuð. Mikil spenna og óvissa ríkir en framboðsfrestur rennur út kl. 17 í dag.

Í dag klukkan 17 rennur út frestur til að skila inn framboðum í prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, en prófkjörið fer fram eftir rétt rúmar fjórar vikur, 22. – 23. nóvember næstkomandi.

Þegar hafa allir núvernadi þingmenn flokksins í Reykjavík gefið kost á sér. Formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, Geir Haarde, varaformaður, og Sólveig Pétursdóttir skipa þrjú af sex ráðherrasætum flokksins. Aðrir núverandi þingmenn eru Ásta Möller, Björn Bjarnason, Guðmundur Hallvarðsson, Katrín Fjeldsted, Lára Margrét Ragnarsdóttir og Pétur Blöndal.

Auk þeirra hafa á síðustu vikum og dögum gefið kost á sér þau Birgir Ármansson, 34 ára lögfræðingur og aðstoðarframkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands, Ingvi Hrafn Óskarsson, 28 ára lögfræðingur og aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, Sigurður Kári Kristjánsson, 29 ára lögfræðingur og héraðsdómslögmaður, og Stefanía Óskarsdóttir, 40 ára stjórnmálafræðingur og lektor við Háskóla Íslands.

Þeir Ingvi Hrafn og Sigurður Kári eru nánir samstarfsmenn úr ungliðapólitíkinni og því vakti verulega athygli að þeir skildu báðir bjóða sig fram, fyrst Ingvi Hrafn í fyrradag og síðan Sigurður Kári í gær. Nokkuð er umliðið síðan Stefanía Óskarsdóttir lýsti yfir framboð sínu og Birgir Ármannsson reið á vaðið fyrstur ungliðanna með yfirlýsingu um síðustu helgi.

Talsverð spenna ríkir um hvað muni gerast í framboðsmálunum nú á síðasta degi framboðsfrestsins. Deiglan hefur ábyggilegar heimildir fyrir því að a.m.k. fjórir einstaklingar séu mjög alvarlega að velta fyrir sér að skila inn framboði í dag.

Fyrstan ber að nefna Guðlaug Þór Þórðarson, borgarfulltrúa, sem náði mjög góðum árangri í prófkjöri fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1998. Guðlaugur er sagður hafa sterka stöðu í mörgum hverfafélögum og eru margir viðmælendur Deiglunnar á því að honum gæti vegnað vel. Talsverðar líkur eru taldar á því að Guðlaugur taki slaginn.

Guðlaugur er starfandi borgarfulltrúi og því gæti farið svo að að tveir af sex borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, eða þriðjungur, sæti einnig á þingi, en Björn Bjarnason, borgarfulltrúi hefur lýst því yfir að hann sækist eftir sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir næstu alþingiskosningar.

Þá hefur nafn eins fyrriverandi borgarfulltrúa ítrekað verið nefnt til sögunnar í aðdraganda prófkjörsins. Margir bíða spenntir eftir því hvað Júlíus Vífill Ingvarsson gerir en hann þótti líklegur til að sækjast eftir forystuhlutverki í borginni fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Heimildir Deiglunnar herma að Júlíus sé að hugsa sig um, en minni líkur en meiri eru taldar á því að hann láti slag standa.

Þá hefur Deiglan heimildir fyrir því að ungar konur ætli að láta töluvert til sín taka. Guðrún Inga Ingólfsdóttir, 30 ára hagfræðingur og einn af aðstandendum Tíkarinnar (www.tikin.is), mun samkvæmt áreiðanlegum heimildum Deiglunnar að öllum líkindum skila inn framboði seinnipartinn í dag. Guðrún Inga, sem er starfsmaður Kaupþings, á sæti í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna.

Önnur ung kona, Soffía Kristín Þórðardóttir, er einnig sögð mjög líkleg til að gefa kost á sér í prófkjörinu. Soffía er sú eina af nýju frambjóðendunum sem átti sæti á framboðslista Sjálfstæðiflokksins fyrir síðustu alþingiskosningar, en hún hefur síðustu mánuði starfað hjá tölvufyrirtæki í Lundúnum. Soffía, sem er 27 ára og yngst þeirra sem nefndir hafa verið til sögunnar, er fyrrverandi varaformaður Heimdallar og formaður Vöku 2000-2001, auk þess sem hún hefur setið í stjórn SUS og gegnt nefndarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík.

Það vekur athygli að af þeim sautján einstaklingum, sem eru hér eru nefndir til sögunnar í tengslum við prófkjörið, myndu sex þeirra flokkast til ungliðahreyfingar flokksins, þótt tveir séu vissulega á mörkunum.

Ljóst er að ekki er pláss fyrir alla frambjóðendurna í öruggum sætum. Gera má ráð fyrir því að 6-7 þingmenn séu nokkuð öruggir með sín sæti er ljóst að 3-4 þingsæti verða í boði. Það sem draga kann úr möguleikum ungliðanna, og þá einkum ungu mannanna, er hversu einsleitur hópur þeir virðast vera. Þrír af fjórum eru lögfræðingar á svipuðu rekí og tveir þar að auki nánir samstarfsmenn til margra ára. Meiri óvissa ríkir um framboð kvennanna, þær gætu átt ágæta möguleika, þótt ólíklegt sé að þeir fljúgi báðar inn.

Sagt verður frá þróun mála í framboðsmálum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eftir því sem fregnir berast.