Lýðræðið fótum troðið

Robert Mugabe er einn ógeðfelldasti harðstjóri samtímans.

Nú er ljóst að Robert Mugabe er sigurvegari kosninganna í Zimbabwe en töluvert hefur verið fjallað um þær í fjölmiðlum síðustu daga. Þrátt fyrir að erlendir eftirlitsmenn hafi gert fjölmargar athugasemdir við framkvæmd kosninganna og Hæstiréttur landsins hafi ákveðið að fjölga kjördögum til að sem flestir næðu að greiða atkvæði náði ekki nema lítill hluti kjósenda í kjörklefann. Menn Mugabes hafa á síðustu vikum og mánuðum unnið í því að hræða fylgismenn Tsvangirai, leiðtoga stærsta stjórnarandstöðuflokksins, frá því að kjósa og tryggja þannig sigur forsetans. Reyndar hafa yfirmenn hersins gefið það til kynna að þeir myndu ekki leyfa stjórnarandstöðunni að komast til valda ef úrslit kosninganna yrðu þeim í hag.

Robert Mugabe var lengi vel dáður af vesturlöndum enda var Zimbabve talið eitt best heppnaða dæmið um sjálfstætt afrískt ríki. Um 80% íbúa landsins voru læsir, til var millistétt blökkumanna, sjálfstæðir fjölmiðlar og tiltölulega fjölbreyttur efnahagur. Allt frá því að ofsókn Mugabes á hendur hvítum bændum hófst fyrir réttum tveimur árum hefur efnahagnum hrakað, dómstólar hafa misst sjálfstæði sitt og jafnvel maís, sem áður var tryggasta uppspretta fæðu í landinu er nú af skornum skammti. Talið er að hálf milljón manna búi við mikla hungursneyð í landi sem fyrir stuttum tíma gat brauðfætt flesta þegna sína.

Ef Mugabe hefði einfaldlega neitað að fara frá völdum hefðu allir vitað að þar færi dæmigerður einræðisherra, en í stað þess situr hann í skjóli lýðræðislegra kosninga þar sem svörtum var att gegn hvítum. Fylgi Mugabes er enda mest í sveitum þar sem stærstur hluti vinnuaflsins vann áður undir stjórn hvítra manna, en getur nú talið sig landeigendur eftir eignaupptöku síðustu ára. Í borgum þar sem efnahagurinn var fjölbreyttari er stuðningur við forsetann lítill sem enginn og því má allt eins búast við óeirðum á næstu vikum og mánuðum. Í The Economist var ástandinu líkt við Júgóslavíu þar sem fjöldinn reis upp gegn Milosevich. Það er þó ljóst að Mugabe hefur miklu sterkara hald á hernum og Unity Square í Harare gæti orðið hið nýja torg hins himneska friðar.

Það hefur einnig vakið furðu margra að leiðtogar annarra Afríkuríkja hafa ekki risið upp gegn þessum harðstjóra. Reyndar hafa þeir varið aðgerðir hans sem er nánast viðurkenning á því að samstaða í álfunni sé meira virði en frjálsar kosningar, sterk efnahagsleg stjórnun og regluveldi byggt á lögum. Það eru ekki góð skilaboð þegar ríki Afríku eru að reyna að sanna sig sem þátttakendur á alþjóðlegum vettvangi og sýna fram á að þau eigi skilið efnahagslega aðstoð frá vestrinu.

Þótt Winston Churchill hafi sagt að fyrir utan allt annað væri lýðræði versta stjórnarform í heimi líta vesturlandabúar svo á að það eina réttmæta form stjórnunar. Ástandið á mörgum svæðum heimsins þar sem þjóðflokkar deila og trúarbrögð eru enn uppspretta átaka hlýtur þó að vekja upp réttmætar spurningar um kosti þess að taka upp kosningar milli flokka. Zimbabwe er aðeins eitt dæmi af mörgum um ríki þriðja heimsins sem ekki er tilbúið fyrir vestrænt lýðræði. Það er þó langt frá því að vera ljóst hvaða leið er betri en sú sem fetuð er í dag.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)