Kjósum

Nú kemur hver skoðanakönnunin á fætur annarri um ESB og nú síðast í dag voru þessi kröftugu mótmæli á Austurvelli. Það hlítur að teljast nokkuð góður árangur hjá Samfylkingunni að ná þessu máli aftur á dagskrá þar sem að í kosningunum 2013 hafði enginn áhuga á að ræða þetta eina stefnumál Samfylkingarinnar.

Nú kemur hver skoðanakönnunin á fætur annarri um ESB og nú síðast í dag voru þessi kröftugu mótmæli á Austurvelli. Það hlítur að teljast nokkuð góður árangur hjá Samfylkingunni að ná þessu máli aftur á dagskrá þar sem að í kosningunum 2013 hafði enginn áhuga á að ræða þetta eina stefnumál Samfylkingarinnar.

En hvers vegna er ESB komið aftur á dagskrá, er það Samfylkingunni að þakka eða stjórnarflokkunum? Ég held að þeir síðarnefndu hafi gert þetta að hitamáli á ný alveg hjálparlaust með klaufaskap og einstrengingshætti.

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins og reyndar einhverjir Sjálfstæðismenn líka halda því nú fram að flokkurinn hafi svikið orð sín, sem er rangt, en það er auðvelt að skilja hvers vegna þau eru rangtúlkuð því að í stefnu utanríkismálanefndar sem samþykkt var á Landsfundi 2013 er talað um kosningu í tengslum við ESB. Stefna flokksins varðandi Evrópusambandið er hins vegar mjög afdráttalaus og atriðið er snýr að kosningunni er það líka eins og sjá má hér:

„Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið. Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Þegar þetta var samþykkt varð allt vitlaust af því Sjálfstæðisflokkurinn tók hörðustu afstöðuna gegn ESB af öllum flokkum, meira segja harðari afstöðu en VG sem er nú yfirleitt erfitt að toppa. Stuðningsmenn ESB í Sjálfstæðisflokknum voru skiljanlega afar ósáttir enda ekki um neina málamiðlun að ræða, sem voru að mínu mati mistök. Ég stýrði utanríkismálanefnd sem fjallaði um málið og þar voru gerðar heiðarlegar tilraunir til málamiðlana sem voru allar felldar og það held ég að sé að koma í bakið á okkur núna en þetta var niðurstaðan sem farið var með í kosningar.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokkins er að fylgja eftir ályktun Landsfundar sem er eðlilegt að hann geri og mætti reyndar gera oftar en ekki bara stundum þegar það hentar. Mörg mál hafa verið í áratugi í stefnu flokksins en það er ekki á hverjum degi sem menn draga upp ályktanir flokksins máli sínu til rökstuðnings. Núverandi ályktun Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálum útilokar hins vegar ekki að kosið verði samhliða sveitastjórnarkosningum um framhald viðræðna við ESB sem væri eðlilegast miðað við ályktunina og kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins.

Mín skoðun er reyndar sú að það sé óþarfa milliskref.

Ég vil að íslenskir kjósendur fái tækifæri til að kjósa um ESB. Ekki hvort það eigi að halda áfram viðræðum heldur kjósa um hvort þeir vilji ganga í ESB þegar samningur er í höfn.

Ég treysti núverandi stjórnvöldum fyllilega til að ljúka þessu verki. Ég trúi því að okkar fulltrúar muni ávallt hafa hagsmuni Íslands að leiðarljósi þrátt fyrir að þeir séu ekki ESB sinnar frekar en ég.

Ég held að kjósendur séu búnir að fá nóg af pólitík sem gengur út á að sjónarhorn valdhafa kollvarpast þegar þeir skipta úr minnihluta í meirihluta og öfugt.
Það er til dæmis hjákátlegt að hlusta á þingmenn Samfylkingarinnar tala um stjórnarflokkana sem hryggleysingja og lindýr af því að þeir vilja ekki setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Af hverju setti Samfylkingin ekki málið í atkvæðagreiðslu áður en hún réðst í aðildarumsókn. Það hefði verið lýðræðislegt! Ef þetta er raunin þá er ekki mikið eftir af hryggdýrum á Alþingi, ætli það skilji ekki bara Píratana eftir.

Viðbrögðin við þingsályktunartillögunni um að slíta beri ESB viðræðunum snúast ekki bara um það mál heldur einnig um aðferðafræðina sem stjórnmálamenn nota til að villa mönnum sýn og ata hvern annan aur. Sama platan virðist vera farin af stað í Alþingishúsinu nema að nú hafa menn skipt um hlutverk. Það nennir enginn að hlusta á þetta hvorki ESB sinnar né ESB andstæðingar.

Aðild Íslands að Evrópusambandinu er mál sem þarf að leyfa þjóðinni að skera úr um. Stjórnmálamenn þurfa ekki að óttast niðurstöðu slíkrar kosningar.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.