Réttlát málsmeðferð orðin tóm?

Hinn 12. desember sl. gekk dómur í svokölluðu Al-Thani máli þar sem fjórir fyrrverandi stjórnendur Kaupþings hlutu þunga dóma fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik. Þegar hófust deilur um hvort sakfellingin væri réttmæt að lögum en öskrandi riddarar lyklaborðsins í athugasemdakerfunum voru á einu máli um að refsingin væri hvergi nánda nægileg. En kannski fór alvarlegasti annmarki dómsins hljótt í fyrstu.

Hinn 12. desember sl. gekk dómur í svokölluðu Al-Thani máli þar sem fjórir fyrrverandi stjórnendur Kaupþings hlutu þunga dóma fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik. Þegar hófust deilur um hvort sakfellingin væri réttmæt að lögum en öskrandi riddarar lyklaborðsins í athugasemdakerfunum voru á einu máli um að refsingin væri hvergi nánda nægileg. En kannski fór alvarlegasti annmarki dómsins hljótt í fyrstu.

Í forsendum héraðsdóms kemur fram að við aðalmeðferð málsins hafi komið fram að fjögur vitni hefðu átt fund með verjendum ákærðu, Hreiðars Más og Ólafs, fyrir aðalmeðferð málsins og þau kynnt sér gögn málsins á skrifstofu verjendanna. Vísar dómurinn til 122. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, þar sem segir að dómari kynni ekki fyrir vitni skýrslur þess hjá lögreglu eða önnur sýnileg sönnunargögn fyrr en dómara þykir þess þörf til skýringar eða leiðréttingar skýrslu þess. Síðan segir í dóminum:

„Með því að ræða við vitnin fyrir aðalmeðferð máls og sýna þeim sýnileg sönnunargögn var farið á svig við greind lagafyrirmæli, auk þess sem sú háttsemi var til þess fallin að rýra trúverðugleika vitnanna, sbr. 7. tl. 122. gr. laga nr. 88/2008. Er þetta aðfinnsluvert.“

Ekki verður hjá því komist að draga þá ályktun að dómurinn sé með þessu að segja að framburður þessara vitna hafi í raun ekki haft vægi við mat á sekt eða sýknu hinna ákærðu. Það fær stoð í því að ekki er í raun tekin afstaða í forsendum til þess sem fram kom í skýrslum þessara vitna fyrir dómi; framburður þeirra er einfaldlega virtur að vettugi. Sú háttsemi, að verjendur hafi rætt við vitnin, var til þess fallin að rýra trúverðugleika þeirra, eins og segir i dóminum.

Af þessu verður ekki annað ráðið en að verjendum sé óheimilt að ræða við vitni fyrir aðalmeðferð máls. Það er ekki bara nýmæli heldur líka grundvallarbreyting á málsmeðferð í sakamálum.

Jafnræði aðila er algjört meginatriði þegar kemur að réttlátri málsmeðferð fyrir dómi. Ef verjendum sakaðs manns er óheimilt að ræða við vitni áður en að aðalmeðferð kemur þá hefur ákæruvaldið algjört forræði á málsmeðferðinni og í raun því hvernig málið kemur fyrir dóminn. Sé verjanda óheimilt að ræða við vitni fyrirfram er engin leið fyrir að hann að taka til varna, auk þess sem slíkt mun hafa í för með sér næsta óyfirstíganlegar hindranir í meðferð mála.

Tökum dæmi: Líkamsárás á sér stað á skemmtistað. Í kjölfarið er maður ákærður. Verjandi má ekki ræða við vitni fyrirfram og verður því að vinna með framburð þeirra vitna sem lögreglan hefur tekið skýrslu af. Í slíkum tilvikum væri verjandanum nauðugur sá kostur að kalla öll hugsanleg vitni til skýrslutöku fyrir dómi, mögulega alla sem kynnu að hafa eitthvað fram að færa um málsatvikin. Það yrði svo að koma í ljós fyrir dómi hvort viðkomandi hefði i raun orðið vitni að einhverju í málinu.

En þótt praktískar hliðar á málsmeðferð fyrir dómi skipti vissulega miklu máli þá er aðalatriðið hér að með þessari nýju regla héraðsdóms hafa orðið algjör vatnaskil hvað jafnræði aðila varðar í sakamálum. Ákæruvaldið hefur nú yfirburðastöðu og í því vakna alvarlegar spurningar um hvort þetta uppfylli skilyrði um réttláta málsmeðferð fyrir dómi.

Það kemur ekki á óvart að Lögmannafélag Íslands láti málið til sín taka. Raunar eru ályktanir frá stjórn félagsins sjaldgæfar og undantekningarlaust eru þær settar fram að gefnu tilefni. Í ályktun sem Lögmannafélagið sendi frá sér nú fyrir helgi segir meðal annars:

„[N]iðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur kemur stjórn Lögmannafélags Íslands verulega á óvart og telur stjórn félagsins hæpið að túlkun dómara á tilvísuðu lagaákvæði standist. Sam­skipti verjenda við vitni eru mikilvægur þáttur við undirbúning málsvarnar og ósjaldan eina leið verjenda til að fá upplýsingar um atvik máls. Af fyrri réttarframkvæmd má ráða að ákæruvaldið hefur rætt við vitni og kynnt þeim sönnunargögn áður en skýrslugjöf fer fram fyrir dómi undir aðalmeðferð máls. Sé verjendum sakborninga meinað um þennan rétt er stór­lega vegið að grundvallarreglunni um réttláta málsmeðferð fyrir dómi og jafnræði málsaðila.“

Taka ber undir þessar áhyggjur stjórnar Lögmannafélagsins. Sú staða sem upp er komin er auðvitað fráleit – og til þess fallin að rýra trúverðugleika réttarkerfisins og þar með réttarríkisins, eins og komist er að orði í ályktuninni.

Á þetta hlýtur að reyna við áfrýjun málsins fyrir Hæstarétti. Því verður ekki trúað að Hæstiréttur muni festa þessi túlkun héraðsdóms í sessi, enda er þá jafnræði aðila fyrir bý í íslenskri sakamálameðferð og þar með er réttlát málsmeðferð lítið annað en orðin tóm.

Telji Hæstiréttur þessa túlkun ranga á hann í raun ekki annan kost en vísa máli heim í hérað á nýjan leik til efnismeðferðar. Hann getur ekki lagt mat á eða endurskoðað sönnunarmat héraðsdómara en hann getur lagt fyrir dóminn að taka málið aftur til meðferðar og líta þá til framburðar þeirra vitna sem héraðsdómur hafði áður virt að vettugi. Ekki er sjálfgefið að það leiði til annarrar niðurstöðu en þeirrar sem varð, en í öllu falli þá væri þessari fráleitu túlkun héraðsdóms á ákvæðum sakamálalaga hent út í hafsauga, þar sem hún á heima.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.