Völvuspá 2014

Samkvæmt gamalli áramótahefð tóku erindrekar Flugufótarins hús á hinni landsfrægu og óskeikulu völvu, Völu Kazcynski, til þess að fá innsýn inn í árið 2014.

Við bíðum fyrir utan snoturt raðhús í nýju hverfum Kópavogs um miðjan desember. Í garðinum stendur veðrað trampólín, þakið snjó. Það er dökkleitur Range Rover í innkeyrslunni. Skærgrænn liturinn minnir eigandann á endurkomu í janúar.

Við kynnum okkur í gegnum dyrasímann.

“Já, komið inn, komið inn!” segir hlýleg kvenmannsrödd.

Á móti okkur tekur brosandi rauðhærð kona á miðjum aldri og leiði okkur inn í stofuna. Útsvarið í sjónvarpinu.

“Og hver heldurðu að vinni?” spyrjum við í göntunartón.

“Akranes!” svarar völvan full sjálfsöryggis. “En þetta er reyndar á plúsnum,” bætir hún við.

“Fyrirgefið allt draslið” segir hún og ýtir búnka af óopnuðum gluggapósti, gömlum Fréttablöðum og Birtu bæklingum af svörtum leðursófa svo við getum sest í hann.

Nú nær sér í kaffibolla, fær sér vænan sopa, skolar hálsin, setur fingurna á eyrnarsneplana og horfir í þriðja augað. Síðan byrjar hún:

“Árið 2014 verður í styttri kantinum, eða 365 dagar.”

Við horfum hvort á annað og spyrjum: “En er það ekki frekar augljóst?”

“Jú, þetta er ekki hlaupár. Þannig að þetta er augljóst. Eina leiðin til að árið yrði eitthvað annað er ef tímatalinu yrði breytt. Ég tel það mjög ólíklegt. Nánast útilokað.

Reyndar gæti árið orðið styttra ef það kemur heimsendir. En það er mjög erfitt að spá rétt fyrir um heimsendi. Ég veit ekki um neinn sem hefur getað það enn þá.”

“Hvað fleira?” spyrjum við.

“Kynntar verða nánari utfærslur á aðgerðum til bjargar skuldugum heimilum,” segir völvan.

“Verða menn á eitt sáttir um ágæti þeirra aðgerða?” spyrjum við.

Völvan grípur um höfuð sér, setur andlitið í milli hnjána. Hún og gefur frá sér undarleg hljóð, svona dempað dýraöskur. Loks þegir hún í dágóða stund í þessari undarlegu stellingu og reisir sig svo snögglega við. Augu hennar eru sveimandi. Þetta virðist hafa tekið á.

“Nei,” segir hún.

“En eitthvað fleira? Eitthvað í útlöndum?” spyrjum við.

“Ja, framan af árinu verður haldið íþróttamót í Rússlandi þar sem fólk mun keppa í íþróttum tendgdum snjó.”

“Vetrarólympíuleikarnir?”

“Já, mér sýnist það. Ísland mun senda keppendur.”

“Munu þeir vinna til verðlauna?”

“Það mun þykja stórfrétt ef það gerist.”

“En gerist það?”

“Það yrði stórfrétt.”

Við sjáum að völvan er ekki á heimavelli í erlendu fréttunum og spyrjum hana um eitthvað úr innanlandspólitíkinni. Það birtir yfir henni.

“Já, ég sé fyrir mér að hart verði tekist á í sveitarfélögum ársins með vorinu. Það verða kosningar til sveitarstjórnar víðast hvar á landinu. Þó ekki alls staðar. Sums staðar verður sjálfkjörið. En það verður aðallega á minni stöðum. Í mjög fámennum sveitarfélögum.”

Hún hallar sér síðan fram og segir, með röddu sem einkennist af fullkomnu sjálfsöryggi en um leið dulúð:

“Ég tel nánast útilokað að sjálfkjörið í Reykjavíð. Ég raunar fullyrði að svo verður ekki.”

“Og um hvað munu kosningarnar í Reykjavík snúast?”

“Um margt. Hugsanlega um flugvöllinn. Ef þær snúast um flugvöllinn þá munu víglínurnar verða þær að hópur manna mun vilja að hann verði áfram í Vatnsmýri, meðan aðrir munu verða á öðru máli. Erfiðlega mun ganga að sætta þessi sjónarmið.”

“Og hvernig munu kosningarnar fara?”

“Þær verða spennandi, en niðurstöðurnar verða þó í einhverjum samræmi við niðurstöður skoðanakannana seinustu viku fyrir kosningar. Ég þori þó að fullyrða að nýr borgarstjóri mun taka við að þeim loknum.”

“Sérðu eitthvað fleira?”

“Já, það verður fótboltamót í sumar. Mörgum mun finnast vera of mikið um fótbolta í sjónvarpinu.

Svo verður umræða um fjárlög ráðandi í lok ársins. Mörgum mun finnast sem ekki nógu miklu fé sé varið til heilbrigðiskerfisins. Ég sé orðin “sem minnst mega sín” notuð í þingræðu. Ég get þó ekki veitt frekar upplýsingar. Það eru tólf mánuðir þangað til. Þetta er í dálítillri móðu.”

“Mun ríkisstjórnin sitja út árið?”

“Kannski.”

“Geturðu verið nákvæmari?”

“Nei, en Ólafur Ragnar verður hugsanleg hvattur til að neita skrifa undir lög. Ef nógu margir munu hvetja hann til þess mun hann halda blaðamannafund og greina frá ákvörðun sinni.”

“Og hver verður sú ákvörðun?”

“Það veit ég ekki” segir völvan, orðin dálítið pirruð á öllum þessum spurningum. “Þetta eru engin geimvísindi. Off the record krakkar: Ég bara bý þetta til á staðnum, skiljið mig. Ég kalla ykkur samt góð að reyna að koma og tala við einhvern sem þykist vera alvöru völva. Á flestum fjölmiðlum er nú bara einhver blaðamaður sem skáldar þessar áramótaspár upp rétt fyrir áramót. Situr svona einn úti horni með kaffibolla og flissar við lyklaborðið yfir hvað hann sé sjálfur sniðugur.

Svo er alltaf eitthvað fólk sem trúir þessu. Þetta er auðvitað “allt til gamans gert” en ég veit samt ekki með þetta. Mér finnst þetta satt að segja á gráu svæði. Siðlaust eiginlega.“

„En þú gerir þetta samt?“

„Æi, annars myndi bara einhver annar gera þetta. Það er alltaf markaður fyrir kjaftæði.

thorlindur@deiglan.com'
Latest posts by Flugufóturinn (see all)