Ertu kálfur?

Mjólk er ef til vill ekki jafn holl og okkur er talin trú um í auglýsingaherferðum mjólkuriðnaðarins. Margar rannsóknir benda til þess að mjólk sé ekki töfralausn á beinþynningu eins og gjarnan er haldið fram í endalausum auglýsingaherferðum mjólkuriðnaðarins.

Mjólk er ef til vill ekki jafn holl og okkur er talin trú um í auglýsingaherferðum mjólkuriðnaðarins. Margar rannsóknir benda til þess að mjólk sé ekki töfralausn á beinþynningu. Þær rannsóknir sem hafa valdið mjólkuriðnaðinum hvað mestum vandræðum eru nokkrar ítarlegar langtímarannsóknir sem gerðar hafa verið við Harvard. Í einni þeirra kom fram að neysla á mjólkurvörum dró ekki úr tíðni beinbrota eins og haldið var. Það kom mjög á óvart. Fyrirbyggjandi áhrif neyslu á mjólkurvörum og sér í lagi mjólkurneyslu hefur verið hornsteinninn í auglýsingaherferðum mjólkuriðnaðarins.

Þegar minnst er á kalk býst ég að við að flestir hugsi um mjólk og mjólkurvörur. En mjólkurvörur eru bara einn af mörgum kalkríkum næringargjöfum. Aðrir góðir kalkgjafar eru dökkgrænt grænmeti eins og grænkál, brokkolí og baunir. Það er óumdeilt að kalk er mikilvægt til þess að koma í veg fyrir beinþynningu. Hins vegar er öllu umdeildara hvort mjólk sé heppilegasti kalkgjafinn. Sumar rannsókir hafa sýnt að heildarupptaka á kalki úr mjólkurvörum sé verri en úr sumu grænmeti og gæti það skýrst af meiri losun á kalki samfara losun niðurbrotsefna prótína með þvagi. Margir fleiri þættir hafa áhrif á kalkbúskap líkamans.

Það er einkenni spendýra að afkvæmi þeirra drekka mjólk frá móðurinni fyrst eftir fæðingu en leita svo annarra leiða til að mæta næringarþörf sinni. Mjólk inniheldur ýmis efni sem eru mikilvæg fyrir ung afkvæmi. Þegar þau eldast tapa þau oft hæfileikanum að brjóta niður mjólkursykur og geta þá ekki lengur notað hana sem orkugjafa. Svona myndast mjólkuróþol líka hjá mönnum, mismunandi eftir stofnum þó. Um það bil 90% af fólki af asískum uppruna missa þennan hæfileika en um 10% hvítra manna. Það eitt að sumir fullorðnir hafi ekki mjólkuróþol þarf þó ekki að benda til þess að neysla á mjólk sé æskileg fyrir þá.

Hlutfall mettaðra fitusýra er hátt í mörgum mjólkurvörum en mettaðar fitusýrur eru einn af áhættuþáttum kransæðasjúkdóma. Þó að margar mjólkurvörur bjóðist nú fituskertar þá er fjarlægðu fitunni yfirleitt neytt samt sem áður oft eftir að búið er að dulbúa hana sem ís eða kökur.

Mjólkurneysla kann að hafa í för með sér aukna áhættu á krabbameini í eggjastokkum og blöðruhálskirtli. Í rannsókn sem gerð var við Harvard á mönnum sem störfuðu innan heilbrigðiskerfisins kom í ljós að kalkrík fæða var einn af áhættuþáttum krabbameins í blöðuhálskirtli. Þeir sem drukku tvö eða fleiri glös á dag voru tvöfalt líklegri að fá krabbamein í blöðruhálskitli en þeir sem ekki drukku mjólk.

Aðferðir mjólkuriðnaðarins til að auglýsa afurðir sínar eru mjög vafasamar sérstaklega í ljósi þess að þær eru niðurgreiddar með fé skattgreiðenda. Það er sú leið sem ríkið fer til að hafa áhrif á neyslu okkar. Auðvitað er skiljanlegt að menn reyni að selja sína framleiðslu og auglýsi frekar kosti varanna frekar en galla en skipun á borð við tvö glös á dag alla ævi er hins vegar mjög óeðlileg, sérstaklega þegar litið er til þess hversu vafasöm neysla á mjólk virðist vera. Auðvitað ætti okkur að vera treystandi til að taka sjálf ákvörðun um hvort við viljum neyta mjólkurvara. Það ætti ekki að þurfa markvissan heilaþvott um að „mjólk sé góð“ til þess.

Latest posts by Eðvarð Jón Bjarnason (see all)