Nýju fötin Seðlabankans

Seðlabankinn er smám saman að festa þjóðina í illvígum vítahring. Stjórnmálamenn þurfa að grípa í taumana, taka völdin í gjaldeyrismálunum og lágmarka þann vanda sem við er að glíma. Annars liggur leiðin bara í eina átt – og ekki mjög góða.

Seðlabankinn er valdamesta stofnun landsins í dag. Þetta sannaðist á mánudaginn þegar bankinn fyrirskipaði Alþingi að setja í skyndingu lög til þess að herða á hinum tímabundnu gjaldeyrishöftum sem forsvarsmönnum bankans segjast svo uppteknir við að reyna að losa. Þingmenn voru boðaðir í skyndi til þess að fjalla um tillögur bankans og alls kyns hörmungum var spáð ef þingmennirnir framkvæmdu ekki vilja bankans. Engu skipti í hraðsuðulegri umfjöllun þingsins allir álitsgjafar sem kallaðir voru til mæltu gegn lagabreytingunni. Fulltrúi Seðlabankans yfirgnæfði raddir þeirra allra.

Það er óþarfi að efast um vilja Seðlabankamanna til þess að losa þjóðina undan gjaldeyrishöftum. Þótt allar aðgerðir bankans virðist benda í þveröfuga átt er alls ekki hægt að fullyrða að þeir séu að tala gegn betri vitund þegar þeir halda því fram að herðing á höftunum stuðli í raun að því að hægt sé að losa fyrr um þau. En þó er ekki hægt að útiloka það heldur. Staðreyndin er því miður sú að eftir því sem svona ástand varir lengur, þeim mun fleira fólk, fyrirtæki og embættismenn aðlagast kerfinu. Þegar fólk fer að hafa hagsmuni af því að viðhalda óeðlilegu kerfi mun það smám saman hafa áhrif á dómgreind þess. Ekki þarf að leita víða í sögunni eða samtímanum til að sjá hversu harkalega valdastéttir verjast gegn fullkomlega eðlilegum kröfum um endurbætur. Ástæðan er ekki endilega sú að þetta fólk sé illmenni. Andstæðingar mótmælenda í Sýrlandi hafa til dæmis ekki allir hjartalag Skeletors heldur trúa flestir því líklega af fullri einlægni að umbreytingaröflin séu stórhættuleg. Hagsmunir þeirra hafa leitt til þess að það dregur kolrangar ályktanir um hvað sé rétt og réttlátt. Við erum kannski ekki kominn á þann stað ennþá varðandi krónuna og gjaldeyrishöftin – en við erum á leiðinni þangað. Afleiðingarnar eru vitaskuld ekki þær sömu – en þær eru alvarlegar samt.

Sjálfsréttlætingarkór ríkisins hefur stillt saman raddirnar í kjölfar gagnrýni á lagabreytinguna. Því er haldið fram sem rökum að einhverjir „aðilar“ – jafnvel „erlendir aðilar“ – hafi einfaldlega getað framleitt peninga með því að nýta sér þann mun sem er á gervigengi krónunnar í Seðlabankanum og því gengi sem frjálsari markaður setur á hana. Það er látið eins og þetta sé sérstakt hneyksli. En í raun eru þessar svokölluðu hjáleiðir framhjá gjaldeyrishöftunum fullkomlega eðlilegar.

Seðlabankinn býðst til þess að kaupa evrur af venjulegum Íslendingum á rúmlega 160 krónur. Það er blekkingargengið. Svo leyfir Seðlabankinn stöku sinnum evrueigendum að kaupa krónur í sérstökum útboðum þannig að 200 krónur fást fyrir hverja evru. Flestir eru nógu greindir til að gera sér grein fyrir því að 200 er umtalsvert hærri tala en 160. Það er furðulegt að sjá ofsjónum yfir því að einhverjir sjái gott tækifæri í þessu misvægi sem Seðlabankinn skapar.

Nú er búið að stoppa eina leið fyrir viðskiptamenn til þess að komast inn í þessa „peningavél“ sem ríkið vill hafa einokun á. Þetta hafðist með því að setja þessi lög á mánudaginn.

Nú horfir málið þannig við að þeir sem eiga svokallaðar aflandskrónur (sem ekki er hægt að nota að neinu ráði neins staðar í heiminum) hljóta að vera tilbúnir til þess að losa sig við þær á ennþá verri kjörum. Og viti menn. Munurinn á geðþóttaverði Seðlabankans og gengisskráningu á mörkuðum erlendis eykst. Með öðrum orðum – það verður miklu meiri gróði í því en áður að finna leiðir til að koma sem mestum verðmætum út fyrir verndargirðingar íslenska hagkerfisins.

Seðlabankinn er kominn í vítahring. Það verður sífellt heimskulegra fyrir fyrirtæki að flytja til Íslands erlendar tekjur. Skynsamt fólk, sem ber ábyrgð á rekstri fyrirtækja, starfsmönnum sínum og peningum fjárfesta, hlýtur að leita allra leiða til að komast hjá því að flytja útflutningstekjur aftur til Íslands. Fyrir vikið bregðast allar spár Seðlabankans um uppbyggingu gjaldeyrisforðans og leita þarf nýrra leiða til að herða höftin. Þessi leið liggur bara í eina átt. Á endanum mun þurfa að gera öll milliríkjaviðskipti leyfisskyld.

Það styttist í að við getum hætt að glotta yfir frásögnum eldri kynslóða um bænaferðir fyrirtækjaeigenda í ráðuneyti til þess að sannfæra ráðamenn um að leyfa þeim að kaupa (fyrir sína eigin peninga) vörur til endursölu eða tækjakost til framleiðslu.

Það er ekki óhugsandi að innan skamms muni embættismenn í Seðlabankanum sjá um að það í ennþá ríkari mæli að mjatla út gjaldeyri til fólks og fyrirtækja. Fyrirtæki gætu þurft að sæta því að fá ekki að flytja inn dýr tæki, eða greiða peninga til erlendra þjónustufyrirtækja ef útgjöldin eru ekki talin samræmast einhvers konar atvinnustefnu stjórnvalda eða geðþótta embættismanna. Þetta verður svipuð stemmning og fólk hefur grátbrosað yfir að sé til staðar í tollinum þar sem embættismenn ákveða hvort iPod sé upptökutæki eða afspilunartæki og mismunandi reglur gilda um hvort brauð sé ristað lóðrétt eða lágrétt. Íslendingar munu festast inni í efnahagslegu fangelsi og aðeins þeir sem njóta sérstaks velvilja stjórnvalda munu hafa tækifæri til þess að stunda alþjóðlega starfsemi. Nýsköpun og lítil fyrirtæki verða fyrstu fórnarlömbin.

Það eru til lausnir sem eru miklu líklegri til þess að lágmarka skaðann af þeirri stöðu sem Íslendingar eru í. Flest, ef ekki öll, vandmálin má rekja til þess að íslenska krónan er of smá til þess að hægt sé að nota í alþjóðlegum viðskiptum og hefur þar að auki verið misnotuð af stjórnmálamönnum í næstum heila öld. Með því að skipta út krónunni væri hægt að koma í veg fyrir langstærstan hluta af snjóhengjuvandamálinu svokallaða. Erlendir kröfuhafar ríkisins og þrotabúanna yrðu líklega tilbúnir til þess að sætta sig við mjög verulega niðurfærslu krafna sinna gegn því að fá þær greiddar út í alþjóðlega nothæfum gjaldmiðli – og íslenskir sparifjáreigendur myndu heldur ekki bíða í startholunum til þess að koma peningum sínum úr landi við fyrsta tækifæri. Hvort krónunni er skipt út fyrir evru, Kanadadollar eða japanskt jen skiptir engu máli. Með upptöku annars gjaldmiðils væri í reynd komið á fullkomnu gjaldmiðlafrelsi á Íslandi.

Stjórnmálamenn verða að grípa í taumana og hætta að láta Seðlabankann hræða úr sér líftóruna áður en embættismenn bankans fara að ánetjast því valdi að geta látið Alþingi og ríkisstjórn sitja og standa eins og þeim sýnist. Stjórnmálamennirnir þurfa sjálfir að öðlast nægilega góðan skilning á stöðunni til þess að móta stefnu sem lágmarkar vandann. Ef ekki þá er alveg eins gott að afhenda sérfræðingum Seðlabankans alla stjórn landsmálanna.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.