Listin að slaka á

Þegar ég flutti til Ekvador átti ég í mestu vandræðum með að venjast því sem ég kallaði „letingja-kúltúr“. Síðar komst ég að því að „letingja-kúltúrinn“ er ekkert annað en listin að kunna að slaka á. Eitthvað sem ég tel að Íslendingar þyrftu að læra betur. Við förum jú öll í sumarfrí út á land eða til útlanda, í helgarferðir í bústað eða til framandi borga en erum við í alvörunni að slaka á í þessum fríum? Búum við okkur ekki oftast til þétta dagskrá eða leyfum við okkur að gera ekki neitt? Af hverju leyfum við okkur ekki líka að gera ekki neitt í hinu daglega lífi, að minnsta kosti svona af og til?

Íslendingar kunna ekki að slaka á. Hér á landi er það dyggð að hafa mikið að gera, alla daga vikunnar, alla daga ársins. Á virkum dögum er unninn 8 tíma vinnudagur, síðan er farið í ræktina, svo heim að elda, síðan kannski á fund, kaffihús, í bíó eða í bjór. Ef maður á börn er dagurinn auðvitað mun hektískari: það þarf að sækja á leikskólann og á frístundaheimilið, skutla í tómstundir, baða börnin og láta þau læra heima. Þessi upptalning er, vel að merkja, ekki tæmandi – hvorki fyrir þann sem hefur tíma til að detta í bjór í miðri viku eða barnafólkið.

Um helgar á maður svo að vera í fríi en þá er oftast langbest að hafa líka alltof mikið að gera. Það þarf að versla, þrífa íbúðina og fara í Sorpu. Svo er farið í leikhús, í göngutúr og haldið matarboð. Já, það þarf líka að þvo þvott og strauja. Skipta á rúmunum og baka köku. Manni má alls ekki falla verk úr hendi.

Þegar ég flutti til Ekvador átti ég í mestu vandræðum með að venjast því sem ég kallaði „letingja-kúltúr“. Síðar komst ég að því að „letingja-kúltúrinn“ er ekkert annað en listin að kunna að slaka á. Eitthvað sem ég tel að Íslendingar þyrftu að læra betur. Við förum jú öll í sumarfrí út á land eða til útlanda, í helgarferðir í bústað eða til framandi borga en erum við í alvörunni að slaka á í þessum fríum? Búum við okkur ekki oftast til þétta dagskrá eða leyfum við okkur að gera ekki neitt? Af hverju leyfum við okkur ekki líka að gera ekki neitt í hinu daglega lífi, að minnsta kosti svona af og til?

Um jólin leyfði ég mér að gera ekki neitt. Á Þorláksmessukvöld horfði ég á yfirfulla körfu af óhreinum þvotti og hugsaði með mér: „Já, ég þarf að muna að setja í nokkrar vélar í fyrramálið.“ Svo hugsaði ég aðeins betur með mér: „Bíddu, í hvaða fötum er maður á jólunum? Sparifötunum og náttfötunum og þau eru öll glansandi hrein!“ Ég leyfði mér því að þvo engan þvott fyrr en þann 27. desember. Í kjölfarið ákvað ég að ég skyldi reyna að eiga einn „gera-ekki-neitt -dag“ í viku á nýja árinu, að ekvadorískum sið.

Það hefur heppnast ágætlega og ég mæli með því. Íslendingar þurfa að venja sig á þá hugsun að stundum er allt í lagi að hafa ekki mikið að gera. Það má alveg slaka á, líka í daglega lífinu og ekki bara í hinum sjálfskipuðu afslöppunarfríum. Það ætti í raun að vera hengirúm inni á hverju íslensku heimili – það er hvergi betra að slaka á en einmitt í einu slíku, enda græt ég það enn að hafa gleymt hengirúminu mínu í Ekvador.

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.