Markmið sérstaks saksóknara

Það eru margir sem bíða óþreyjufullir eftir að rannsóknum á bankahruninu ljúki og ýmsir hafa orðið til að gagnrýna ákæruvaldið fyrir seinagang. Fréttir Stöðvar tvö um helgina vörpuðu hins vegar skýru ljósi á það hversu vandasamt verkefni sérstaks saksóknara er, en umfjöllun fréttastofunnar gekk út á það að embættið hefði ekki náð markmiðum sínum þar sem gefnar hefðu verið út færri ákærur en áætlað hafði verið.

Það eru margir sem bíða óþreyjufullir eftir að rannsóknum á bankahruninu ljúki og ýmsir hafa orðið til að gagnrýna ákæruvaldið fyrir seinagang. Fréttir Stöðvar tvö um helgina vörpuðu hins vegar skýru ljósi á það hversu vandasamt verkefni sérstaks saksóknara er, en umfjöllun fréttastofunnar gekk út á það að embættið hefði ekki náð markmiðum sínum þar sem gefnar hefðu verið út færri ákærur en áætlað hafði verið.

Framsetning fréttastofunnar var að vissu leyti skiljanleg í ljósi þess að um var að ræða áætlanir um meðferð mála og málshraða sem gerðar voru af embættinu sjálfu. Það er hins vegar afar vafasamt og beinlínis hættulegt að nota þessar sömu áætlanir sem mælikvarða á árangur.

Embætti sérstaks saksóknara var stofnað vegna þess að það var nauðsynlegt að rannsaka hvort og með hvaða hætti lög voru brotin í aðdraganda bankahrunsins. Í því samhengi á hins vegar ekki að skipta máli hver endanlegur fjöldi ákæra verður, heldur að ákært verði í þeim málum þar sem talið er að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað og líkur á sakfellingu eru metnar meiri en líkur á sýknu.

Í stjórnarskrá landsins og flestum mannréttindasáttmálum er sett fram sú grundvallarregla að maður sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi teljist saklaus uns sekt hans hefur verið sönnuð. Það er til marks um það andrúmsloft sem ríkt hefur eftir bankahrunið að litla athygli vakti þegar þessi stjórnarskrárbundnu mannréttindi voru opinberlega kölluð “vinsæl klisja”. Það urðu líka fáir til andmæla þegar ákvæðinu var snúið upp í fullkomna andhverfu sína og farið var fram á að einstaklingur með réttarstöðu grunaðs manns, sem ekki hafði verið ákærður, sannaði sakleysi sitt áður en hann var ráðinn í tiltekið starf.

Við þessar aðstæður í samfélaginu er sérstaklega mikilvægt að ákæruvaldið láti ekki undan þrýstingi í þá átt að uppgjör við bankahrunið snúist um það hversu margar ákærur verða gefnar út. Þegar upp verður staðið mun nefnilega mestu máli skipta fyrir réttarríkið að þau mál þar sem sannanlega refsiverð háttsemi átti sér stað verði leidd til lykta fyrir dómi og að mannréttindi þeirra sem sökum eru bornir verði virt í hvívetna.

Latest posts by Drífa Kristín Sigurðardóttir (see all)