Heiman laumast hrum með slæmu skrumi

„Collateral Damage” er ekki bara miðlungsmynd frá árinu 2002 með hetjunni Arnold Schwarzenegger í aðalhlutverki. Það er líka hugtak, sem útleggst á íslensku sem „fylgiskaði” – orð sem heyrist reyndar fremur sjaldan í daglegu tali. Hugtakið vísar til þess þegar eitthvað annað, eða einhver annar, en ætlað skotmark verður fyrir skaða. Það er eitthvað sem kemur eflaust mörgum til hugar þegar talað er um að ákæran á hendur Geir Haarde sé „uppgjör við hrunið” eða „uppgjör við frjálshyggjuna.” Með því er nefnilega gefið til kynna að réttarhöldin yfir honum snúist raunverulega um að fá það staðfest, svart á hvítu, að ákveðin hugmyndafræði sé ekki bara óæskileg heldur beinlínis ólögmæt. Skaðinn sem Geir verður fyrir vegna réttarhaldanna, og íslenskt samfélag yfirleitt (með því að festa það í sessi að stjórnmálamenn geti notað dómstóla til að refsa pólitískum mótherjum sínum í popúlískum tilgangi) er bara fylgiskaði; eitthvað sem er kannski leitt, en nauðsynlegt til að koma í gegn þessum mikilvægu skilaboðum – að frjálshyggja sé í raun og veru glæpsamleg.

„Collateral Damage” er ekki bara miðlungsmynd frá árinu 2002 með hetjunni Arnold Schwarzenegger í aðalhlutverki. Það er líka hugtak, sem útleggst á íslensku sem „fylgiskaði” – orð sem heyrist reyndar fremur sjaldan í daglegu tali. Hugtakið vísar til þess þegar eitthvað annað, eða einhver annar, en ætlað skotmark verður fyrir skaða. Það er eitthvað sem kemur eflaust mörgum til hugar þegar talað er um að ákæran á hendur Geir Haarde sé „uppgjör við hrunið” eða „uppgjör við frjálshyggjuna.” Með því er nefnilega gefið til kynna að réttarhöldin yfir honum snúist raunverulega um að fá það staðfest, svart á hvítu, að ákveðin hugmyndafræði sé ekki bara óæskileg heldur beinlínis ólögmæt. Skaðinn sem Geir verður fyrir vegna réttarhaldanna, og íslenskt samfélag yfirleitt (með því að festa það í sessi að stjórnmálamenn geti notað dómstóla til að refsa pólitískum mótherjum sínum í popúlískum tilgangi) er bara fylgiskaði; eitthvað sem er kannski leitt, en nauðsynlegt til að koma í gegn þessum mikilvægu skilaboðum – að frjálshyggja sé í raun og veru glæpsamleg.

Það eru nokkrir gallar við þennan hugsunarhátt. Fyrir utan hið augljósa, að ekki sé með nokkru móti unnt að persónugera hrunið í einni manneskju, þá er aldrei réttlætanlegt að leyfa slíkum fylgiskaða að eiga sér stað. Tilgangurinn mun aldrei helga meðalið, vegna þess að réttarríkið á ætíð að sitja skör ofar en pólitískir hagsmunir.

Skilaboð til pólitískra andstæðinga
Pólitískar ofsóknir eru ekki nýjar af nálinni, en það sem vekur furðu er að íslenskir fylgismenn þeirra skuli ekki sjá hættuna sem stafar af þeim. Júlía Tímósjenkó, sem dreif áfram Appelsínugulu byltinguna í Úkraínu árið 2004, hlaut 7 ára fangelsisdóm frá fyrrum pólitískum andstæðingi sínum og núverandi forseta þjóðarinnar, Viktor Janúkóvitsj, í pólitískum hráskinnaleik sem mjög augljóslega var ætlaður til að hræða burt mögulega mótherja. Hún var dæmd fyrir að hafa farið út fyrir valdsvið sitt þegar hún seldi gas til Rússlands, eftir að hafa áður setið í fangelsi vegna meintra skjalafalsana og skattalagabrota, en ekki tókst ekki að sanna sekt hennar þar. Ákvæðið sem þeir náðu að dæma hana fyrir, vegna sölu gassins, var hins vegar nógu óljóst til að réttlæta refsidóm. Alþjóðasamfélagið hefur reyndar harðlega fordæmt dóminn, bæði vegna þess að refsingin er svo hörð og vegna þess að er augljóst að fyrrum pólitískir andstæðingar Júlíu voru að verki. Í öllu falli tókst Janúkóvitsj ætlunarverk sitt – hann þaggaði niður í henni og stuðningsmönnum hennar, og sendi út skilaboð til allra mögulegra pólitískra mótherja. „Ekki fara gegn okkur, annars fáum við dómstóla með okkur í lið og hendum ykkur í fangelsi.”

Skilaboð til samfélagsins
Það er ódýrt að reyna að slá pólitískum andstæðingum sínum við með atbeina dómstóla. Slíkar ákærur eru til þess gerðar að veikja stoðir viðkomandi manneskju og flokksins á bak við hana, og varpa á hana skugga brotamanns. Í lýðræðissamfélagi eru stjórnmálamenn gerðir ábyrgir gjörða sinna með kosningum; þannig ákveður hver og ein kosningabær manneskja í samfélaginu hvort að viðkomandi sé verðugur eða ekki, út frá öllu því sem þeir hafa tekið sér fyrir hendur. Það eru mörg dæmi þess að kjósendur hafi þannig vitað af einhverju misjöfnu í fortíð stjórnmálamanna og –flokka, en engu að síður veitt þeim brautargengi. Jacques Chirac og Bill Clinton eru til að mynda dæmi um menn sem varla teljast til siðapostula, en nutu þó vinsælda eftir að siðferðisbrestir þeirra komu í ljós. Að sama skapi hlaut Sjálfstæðisflokkurinn góða kosningu eftir „litlu bankakrísuna“ árið 2006. Kjósendur lýstu yfir trausti á efnahagsstefnu flokksins og á leiðtogum hans. Hvort slíkt traust hafi verið réttmætt eða ekki getur hver og einn dæmt um út frá eigin pólitískri sannfæringu – það breytir því hins vegar ekki að Geir Haarde og Sjálfstæðisflokkurinn naut mikils stuðnings meðal þjóðarinnar. Kannski að það sé raunverulega það sem fari í taugarnar á þeim sem hafa hvað hæst um meint afglöp Geirs og Sjálfstæðisflokksins, að á bak við hann hafi verið lýðræðislegur meirihluti fólksins í landinu, og að honum sé ekki unnt að stýra eða fordæma?

Þá skaða pólitískar ákærur virðingu og sóma embættanna sem um ræðir. Það er mikilvægt að stjórnmálamenn séu óhræddir við að tjá sig, að koma fram og að hvetja til lýðræðislegra umræðna, m.a. í því skyni að tryggja vandaðri lagasetningu. Þegar stjórnmálamenn eru formlega spyrðir saman við glæpamenn skapast augljós tenging milli stjórnmála almennt og glæpsamlegrar hegðunar, sem dregur verulega úr virðingu almennings fyrir embættununum. Að sjálfsögðu eiga stjórnmálamenn að vera sóttir til saka fyrir raunveruleg afbrot, brot gegn hegningarlögum, en óljósar hugmyndir um að hugmyndafræði sé óæskileg er ekki undir neinum kringumstæðum réttlæting fyrir refsikenndum viðurlögum. Í þessu felst að sama skapi gengisfelling dómstóla á Íslandi, vegna þess að Landsdómur er sérdómstóll, skipaður m.a. fimm Hæstaréttardómurum. Hvað gerist ef Landsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að Geir hafi sér ekkert til sakar unnið? Munu talsmenn þess að hann taki á sig sökina fyrir hrunið eða hið meinta skipbrot frjálshyggjunnar yppta öxlum og segja „Jæja þá, þetta var þá ekki honum að kenna. Og frjálshyggjan er kannski bara ekkert alslæm.” Aldeilis ekki, þeir munu tala um að dómstólar hafi brugðist, að þeim sé ekki treystandi, og að Ísland sé bananalýðveldi. Það er bara ein æskileg niðurstaða í augum þessa fólks og hún hefur ekkert að gera með réttlæti eða sanngirni.

Það eru til betri leiðir til að gera upp efnahagshrunið 2008 og að koma í veg fyrir annað hrun, heldur en að láta Geir Haarde og íslenskt samfélag verða fyrir þeim ógeðfellda fylgiskaða sem stendur fyrir dyrum. Það er ekki réttlætanlegt að fara þessa leið til að renna stoðum undir pólitískar skoðanir sínar. Við getum boðið upp á betra uppgjör en þetta.