Heimssafn í Reykjavík

Hve margir ætli þurfi að deyja áður en Íslendingar ákveða loksins að byggja sér safn sem tileinkað er menningu og vísindum annarra þjóða?

Hve margir ætli þurfi að deyja áður en Íslendingar ákveða loksins að byggja sér safn sem tileinkað er menningu og vísindum annarra þjóða?

Nei, allt í lagi, kannski fullsterkt til orða tekið. Byrjum aðeins rólegar.

Fæðingarorlofið er tími sem við elítistarnir nýtum vel í að ýta barnavögnum okkar um bæinn og ónáða vinnandi fólk í matarhléum. Þetta er líka tími til að þaulkynnast hvers kyns stórum og opnum rýmum innanhús í miðbænum. Það er reyndar ekki mjög mikið um verslunarmiðstöðvar í 101, en söfn bæjarins meira en bæta fyrir það.

Borgarbókasafnið er snilld. Sjávarminjasafnið og Þjóðminjasafnið standa fyrir sínu. Listasafn ASÍ er ágætt. Hafnarhúsið fínt líka, þótt þeim sé raunar eitthvað illa við barnakerrur.

Kannski er það meginlandsuppruninn en ég hugsaði stundum, að það væri ekki leiðinlegt að sjá eina og eina Monet mynd innan um alla Kjarvalana. Eða alla vega nokkur erlend málverk. Svona til að við gerðum okkur betur grein fyrir að okkar list var auðvitað ekki sköpuð í einhverri einangrun. Eyþjóðum hættir reyndar til að draga slík hugræn landamæri við mörk landhelginnar. Við Íslendingar erum engin undantekning.

Í menntaskóla las ég heila bók um bókmenntastefnur á Íslandi. Íslenskan módernisma og íslenska nýrómantík. Ég spurði íslenskukennarann hvers vegna ekki væru lesnar neinar erlendar bækur. “Í íslensku?” spurði hann undrandi á móti.

Mig dreymir stundum um stað í Reykjavík þar sem ég get ekki bara upplifað mig sem hluti af merkri þjóð sem vill kynna menningu sína fyrir erlendum gestum, heldur einnig sem hluta af mannkyninu. Ég vil sjá líkan af byggðum frummannsins í Afríku og sal um landbúnaðarbyltinguna. Ég vil sjá plasteftirlíkingar af hellumálverkum, rómverska peninga og falsaðar grískar styttur. Ég vil sjá sýningu um vísindin, um Tycho Brache, Kóperníkus og Newton. Sal um hörmungar 20. aldarinnar. IMAX bíó með myndum um Sólkerfið. Ég held að svona safn væri af hinu góða.

Er ég að krefjast þess að skattborgarar landsins leggist á eitt og byggi fyrir mig eitt stykki heimssafn? Nei, því fer fjarri. Ég skal borga það sjálfur. Ég reyndar ekki fyrir því akkúrat núna, en ef breytist það einhvern tímann, þá skal ég gera það. Og þá skal enginn segja að ég hafi klikkast í ellinni. Þessi skrif eru þá allavega vitnisburður um að geðveikin hafi átt sér lengri aðdraganda.

[Myndir sem notast var við:]
http://pabamapa.com/wp-content/uploads/2012/01/heimssafn.gif
http://www.flickr.com/photos/sveinnbirkir/4152288985/
http://www.flickr.com/photos/yewenyi/338777952/

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.