Vanhugsuð friðun

Nú í byrjun árs skilaði starfshópur sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra skipaði um verndun og endurreisn svartfuglastofna niðurstöðum sínum. Meirihluti starfshópsins leggur til að fimm tegundir sjófugla af svartfuglaætt verði friðaðar fyrir öllum veiðum og nýtingu næstu fimm árin.

Nú í byrjun árs skilaði starfshópur sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra skipaði um verndun og endurreisn svartfuglastofna niðurstöðum sínum. Meirihluti starfshópsins leggur til að fimm tegundir sjófugla af svartfuglaætt verði friðaðar fyrir öllum veiðum og nýtingu næstu fimm árin.

Um er að ræða álku, langvíu, stuttnefju teistu og lunda. Rök starfshópsins fyrir friðuninni eru að mælingar sýni verulega fækkun á stofni svartfugla á síðustu árum. Ástæður þess eru aðallega fæðuskortur hér við land en starfshópurinn telur mikilvægt að að tímabundið bann verði sett á veiðar og nýtingu á svartfugli, þar sem það muni flýta fyrir endurreisn fuglanna.

Niðurstöður starfshópsins eru hlægilegar. Fyrir liggja afar takmarkaðar rannsóknir á ástæðum þess að svartfuglastofninn fer minnkandi. Helstu rannsóknir sem til staðar eru snúast að lundastofninum í Vestmannaeyjum, en þar hefur verið gripið til aðgerða hjá sveitarfélagi og veiðimönnum. Því er það furðulegt af starfshópnum að nota þær rannsóknir og heimfæra yfir á hinar fjórar tegundir svartfugla.

Þegar litið er til hinna tegundanna, langvíu, álku, stuttnefju og teistu þá telur samanlagður stofn við Ísland vel á þriðju milljón fugla. Samkvæmt veiðiskýrslu 2009 þá voru veiddar 45 þúsund fuglar af þessum tegundum. Það er því fráleitt að telja að skotveiðar hafi einhver áhrif á fækkunar á svartfugli við strendur Íslands eða hafi einhver lykiláhrif á að stofninn nái fyrri stærðum.

Markmið friðunar á svartfuglunum eru líka mjög óskýr. Ekkert kemur fram í tillögum starfshópsins um hvaða árangri þurfi að ná til að veiðar verði heimilaðar á ný. Hver er framtíðarsýnin? Þarf stofninn að ná fyrri stærðum? Á að hægja á fækkuninni eða á að reyna að halda stofninum í stað?

Væri ekki ráð að starfshópurinn mundi frekar setja af stað rannsókn á ástæðum þess að svartfuglastofnar á Íslandi fara hnignandi áður en gripið er til þeirra ráða að banna alfarið veiðar og nýtingu á svartfugli í fimm ár. Þegar búið væri að varpa ljósi á hverjar séu orsakir fækkunarinnar og skilgreina hver markmiðin séu, þá væri hægt að grípa til aðgerða í samráði við hagsmunahópa, eins og Umhverfisstofnun, landeigendur og skotveiðimenn.

Algjör friðun á veiðum og nýtingu á svartfuglum hér við land á næstu fimm árum er vanhugsuð. Umhverfisráðherra ætti því að hunsa niðurstöður starfshópsins og setja á fót nýjan starfshóp sem hefur dug og þor að reyna að komast að ástæðum fækkunarinnar og raunhæfum aðgerðum til að sporna við þróuninni.

Latest posts by Jan Hermann Erlingsson (see all)