Kaupum flugeldana af björgunarsveitunum

Sjálfboðaliðarnir í björgunarsveitunum sinna sannarlega lífsnauðsynlegu hlutverki á Íslandi. Þetta áhugamál er bæði hættulegt og dýrt. Auk allrar þjálfunar og verkefnanna sjálfra þarf björgunarsveitarfólk að leggja á sig mikla vinnu við að safna fjármunum. Þeir sem ætla að eyða peningum í flugelda og vilja styrkja gott málefni ættu að beina viðskiptum sínum til björgunarsveitanna frekar en annarra góðra mála.

Það er skemmtilegt og merkilegt að á Íslandi skuli allur almenningur taka þátt í því að setja á fót stórkostlega flugeldasýningu um hver áramót. Hagfræðin kennir nefnilega að þetta sé hið klassíska fríþegavandmál. Sá sem ekki tekur þátt í að kaupa flugelda nýtur sýningarinnar algjörlega til jafns við þann sem eyðir tugum þúsunda til þess að leggja sitt af mörkum. En á Íslandi eru ýmsar ástæður fyrir því að þessi hefð hefur haldist. Mörgum mjög gaman að sprengja flugelda um áramótin og fá miklu meiri ánægju út úr því að sprengja sjálfir en að horfa bara á það sem aðrir sprengja. Hins vegar er það sú hefð að flugeldakaupin styrki góðan málstað.

Ekki er ýkja langt síðan að flugeldasýningar samanstóðu mestmegnis af öryggisblysum úr skipum. Til að gæta öryggis þarf reglulega að endurnýja þess háttar öryggisbúnað í bátum og notuðu sjómenn tækifærið um áramót til þess að skjóta því upp sem hvort sem er þurfti að eyða. Nú er hins vegar öldin allt önnur. Þótt rauðu sólirnar úr skipunum séu tignarlegastar allra flugelda þá blandast þær nú í sjónarspil óteljandi litbrigða og forma sem lýsa upp himininn á gamlársdag.

En tengingin við öryggismál sjómanna, og annarra landsmanna, er ennþá til staðar. Björgunarsveitir landsins nota sölu á flugeldum til þess að fjármagna starfsemi sína að miklu leyti. Í kringum áramót standa björgunarsveitarmenn og skátar vaktina og gefa frítíma sinn og vinnu til þess að geta staðið straum af ennþá meiri og hættulegri sjálfboðavinnu.

Starfsemi björgunarsveitanna á Íslandi er skínandi dæmi um samstöðu í samfélaginu. Menn leggja á sig vinnu og fórnir til þess að vera tilbúnir til þess að bjarga meðborgurum sínum þegar lífið liggur við. Og á harðbýlu landi eins og Íslandi koma oft upp aðstæður þar sem kaldur raunveruleikinn ógnar sannarlega lífi manna og þeir geta ekki treyst á neitt annað en þjálfun, fórnfýsi og hugrekki annarra til þess að halda lífi. Björgunarsveitarfólkið okkar leggur allar aðrar skuldbindingar þegar kallið kemur – hvort sem bjarga þarf fífldjörfu flóni á fjalli, berjast við óveður eða vera til staðar ef alvarleg slys eða náttúruhamfarir verða. Í þessu felast stórkostleg verðmæti fyrir okkur öll, hvort sem við þurfum einhvern tímann á aðstoðinni að halda eða ekki.

Þeir sem ætla að eyða peningum í flugelda um áramótin ættu að hafa þetta í huga þegar ákveðið er hvar þeir eru keyptir. Margvísleg önnur félagasamtök hafa tekið upp á því að selja flugelda til tekjuöflunar. Mörg þau málefni eru góð og gild og þess virði að styðja. En þegar kemur að flugeldasölu um áramótin finnst mér að þeir, sem líta á kaupin sem styrk til góðs málefnis, ættu að beina viðskiptum sínum til þeirra manna og kvenna sem hafa það áhugamál að fórna frítíma sínum við að leggja sig sjálf í hættu til að bjarga mannslífum. Verslum við björgunarsveitirnar og gerum þeim þannig starf sitt auðveldara.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.