Nei sjónvarpið sagði mér að gera þetta

Listin er sögð eiga að vera spegill sálarinnar, sýna okkur inn í þjóðfélagið okkar og gagnrýna það um leið. Í grein sem birtist á CNN í nóvembermánuði er talað um hvert sé ábyrgðarhlutverk sjónvarpsþáttanna, eru þeir að ýta undir hluti með því að sýna viss atriði eða eru þeir að endurspegla hvað gengur og gerist í samfélagi mannanna?

Listin er sögð eiga að vera spegill sálarinnar, sýna okkur inn í þjóðfélagið okkar og gagnrýna það um leið. Í grein sem birtist á CNN í nóvembermánuði er talað um hvert sé ábyrgðarhlutverk sjónvarpsþáttanna, eru þeir að ýta undir hluti með því að sýna viss atriði eða eru þeir að endurspegla hvað gengur og gerist í samfélagi mannanna?

Greinin snýst að mestu leyti um sjónvarpsþættina Glee sem eru í sýningu á Stöð 2, þættirnir sýndu nýverið þegar tvö pör af unglingum stunduðu kynlíf í fyrsta sinn. Greinin gagnrýnir það atvik og segir að eina ástæðan sem þáttahöfundar setja þetta inn í þættina sé til þess að hækka áhorfið. Höfundar svara og segja að unglingar séu að stunda kynlíf, það er staðreyndin. Þeir séu aðeins að sýna raunveruleikann.

Hvernig væri sjónvarpsefni ef það væri ekki að endurspegla raunveruleikann? Væri allt þá bara Vísindaskáldskapur og ævintýri? Auðvitað ýkja sjónvarpsþættir ýmsa hluti, en þeir eru samt sem áður flestir að sýna vissan raunveruleika og gera söguna áhugaverða, blanda saman mörgum hliðum málsins og úr verður skemmtilegt efni til að horfa á. En er það á ábyrgð framleiðenda þátta eins og Glee hvort unglingar séu að stunda kynlíf fyrir hjónaband eins og greinin ræðir um?

Nei, það sem þættir eins og Glee gera er að opna umræðu, umræðuna um kynlíf á milli tveggja einstaklinga sem eru hugsanlega ungir. Það sem á að gerast er að foreldrar noti það tækifæri og ræða þetta við börnin sín, um varnir og hvaða afleiðingar þetta hefur í för með sér. En það sem greinarhöfundur CNN telur þá er sjónvarp svokallað „super peer“ eða ofur hópur(hópþrýstingur), sjónvarpið hefur mun meiri áhrif en krakkarnir í skólanum. Mitt svar við þessu er einfalt, sjónvarpið er ekki uppeldistæki, foreldrar eiga að ala upp börnin sín. Það gengur ekki að kenna sjónvarpinu um það ef unglingur hagar sér á ákveðin hátt, ef foreldri líkar ekki við það sjónvarpsefni sem unglingurinn horfir á þá verður það foreldri að taka ákvörðun um það hvað skuli gera, banna að horfa á tiltekinn þátt eða eiga samtal við unglinginn sinn og ræða hvað gerist í þáttunum.

Það vill oft gerast að fólk vilji fá auðveldu leiðina út og vill kenna öðrum um það sem illa fer. Sjónvarpið ræður ekki hvað gerist heima hjá fólki, það ræður ekki hvaða skilaboð eru tekin frá því sem þeir setja fram. Glee hefur hjálpað mörgum unglingum að standa upp fyrir því sem þeir eru, og verið þeim málsvörn á mörgum sviðum og eflaust sérstaklega fyrir samkynhneigða unglinga. En það er samt sem áður mikilvægt að börnin upplifi þetta heima hjá sér, og ef foreldri vill kenna börnum sínum að skírlífi sé það sem bjargi þeim frá kynsjúkdómum, óléttu og að það sé það eina rétta í heiminum þá verður það foreldri að kenna það heima hjá sér og ekki ætlast til þess að sjónvarpið sjái um það uppeldi fyrir það.

Foreldri getur ekki kennt einhverjum sjónvarpsþætti um það að unglingur þess hafi stundað kynlíf, fólk verður að líta í eigin barm.

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.