Leiguliðar í eigin fyrirtækjum

Úrræði fyrir heimilin hafa fengið mikla athygli en minna hefur verið rætt um skuldauppgjör fyrirtækja, sem er þó ekki síður mikilvægt. Þótt mörg félög hafi farið í þrot eða hætt rekstri er enn töluvert af fyrirtækjum sem berjast áfram. Þau eru upp á náð og miskunn bankanna komin og hafa oftar en ekki þurft að skrifa undir ýmis konar neyðarsamninga til að halda sér á floti.

Mikil umfjöllun hefur verið um þau úrræði sem standa til boða, eða eftir atvikum standa ekki til boða, handa heimilum landsins í kjölfar þess að lánin hækkuðu upp úr öllu valdi. Minna hefur farið fyrir því hvað stendur fyrirtækjum landsins til boða, þótt það sé ekkert síður mikilvægt enda er þokkalegt ástand fyrirtækjanna lykillinn að því að atvinna fari að aukast og lífsgæðin þar með.

Ýmislegt er ólíkt með lögaðilum og einstaklingum; fyrirtæki eru þeim kosti gædd að geta farið í þrot án þess að valda miklum sársauka eða erfiðleikum og geta ýmist dáið drottni sínum eða jafnvel vaknað aftur til lífsins skömmu síðar í mjög svipaðri mynd með „nýja og ferskari“ kennitölu. Einstaklingur fær hins vegar bara eina kennitölu allt sitt líf, sama hversu vel undanþágubeiðni til Þjóðskrár er rökstudd. Hann býr því við það ójafnræði, miðað við fyrirtæki, að vera eltur með sínar skuldir þangað til að kröfuhafarnir geta ekki meir.

Ekki leggja þó öll fyrirtæki upp laupana þótt það gefi á bátinn. Víða í atvinnulífinu má finna dæmi um fólk sem neitar að gefast upp og hefur barist áfram í gegnum stökkbreytingu lána og samdrátt verkefna. Eða reynir það að minnsta kosti. Þetta á ekki síst við í framleiðslugreinum, t.d. fyrirtækjum þar sem fjárfest hefur verið í tækjakosti og eignum til að halda utan um starfsemina, þ.e. þegar ekki er eingöngu treyst á hugvitið.

Þeir sem hafa bitið á jaxlinn og haldið áfram hafa verið í stöðugum barningi í rúm þrjú ár. Flest fyrirtæki eru mjög háð fyrirgreiðslu og skammtímalánum hjá bönkum. Verslanir þurfa að geta tekið inn vörur þótt ekki hafi tekist að selja síðasta skammt til fulls. Í rekstri gerist það gjarnan að kröfur fást ekki greiddar strax og tímabundið getur þurft að brúa bilið með lánum eða yfirdrætti. Svo er þetta gert upp um leið og færi gefst til. Og svo mætti lengi telja. Ef lokað er fyrir þennan sveigjanleika í kerfinu myndu mörg fyrirtæki lenda í stoppi og sjálfsagt ekki mörg sem gætu rekið sig einfaldlega á eigin fé eða varasjóðum lengi.

Það sem gerðist mjög víða í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 var að þetta gangverk riðlaðist. Fyrirtæki lentu í því að þurfa að staðgreiða vörur og aðföng. Vanskil ruku upp og kröfur fengust ekki greiddar. Í bönkunum blasti við gerbreytt landslag og hugarfar, þar sem þýsk varfærni hafði leyst íslenskan eldmóð af hólmi og „Við erum að skoða ykkar mál heildstætt“ tók við af „Við hljótum nú að redda þessu með yfirdrætti“.

Stærstur hluti hinna svonefndu gengistryggðu lána sem veitt voru hér í stórum stíl árin 2005-8 fór til fyrirtækja, ýmist í formi rekstrarlána eða lána til tækjakaupa. Þegar ofan á alla aðra erfiðleika í hruninu bættist að afborganir þessara lána höfðu tvöfaldast, eða jafnvel þrefaldast, þá voru margir komnir með bakið ansi þétt upp við vegginn eftir hrunið.

Grundvallarhugmyndin með rekstrinum hafði þó í raun ekkert breyst. Þeir sem stóðu að félaginu voru enn jafnfærir á sínu sviði og áður. Og í dag hefur reksturinn batnað hjá flestum, verkefnastaðan er betri og tekjurnar aukist.

Í millitíðinni hafði hins vegar verið lokið „heildstæðri skoðun“ á málefnum fyrirtækja innan bankans. Í þeim tilfellum sem bankinn tók félagið ekki til sín, eins og hefur gerst oft og iðulega með tilheyrandi áhrifum á samkeppni í íslensku atvinnulífi, var allajafna verið að gera samkomulag um uppgjör á þeirri forsendu að gengistryggðu lánin væru lögmæt og skuldauppgjörið tók mið af því. Þetta á við um samninga og uppgjör sem voru gerð árið 2009 og framan af árinu 2010. Eignir félaga, tæki, birgðir og hvað eina annað var tekið upp í skuldir en eftir stóð stór og myndarlegur skuldahali. Það sem meira var að „lausnin“ sem varð ofan á var í sumum tilfellum að leigja fyrrum eiganda græjurnar og húsnæðið aftur. Gegn því að sleppa fólki úr ábyrgðum eða veðum á húsum sínum var svo afgangur skuldanna settur á skuldabréf sem nýi reksturinn greiðir af eða fólkið sjálft persónulega. Þetta var, þótt ótrúlegt megi virðast, skásti kosturinn í stöðunni hjá mörgum fyrirtækjum þegar verst lét og innheimtubréfin og nauðungarsölubeiðnirnar streymdu inn um lúguna dag hvern. Með þessum neyðarsamningum var þó a.m.k hægt að halda rekstrinum gangandi og losa sjálfan sig úr snörunni persónulega.

Síðan þá hefur það hins vegar gerst að gengistryggð lán hafa verið dæmd ólögmæt og uppreiknuð staða þeirra er kannski 60-70% af því sem skuldauppgjörið hvað á um. Að sama skapi hefur reksturinn tekið við sér, eignaverð er farið að hækka o.s.frv.

Ekkert liggur þó fyrir um hvernig bankarnir ætli að taka á þessum málum. Eiga uppgjör sem fóru fram á versta tíma að standa óhögguð? Fyrir héraðsdómi var nýverið slegið út af borðinu ákvæði laga sem áttu að tryggja einstaklingum og lögaðilum rétt til að fá gjaldþrot, fjárnám og aðrar slíkar aðgerðir vegna gengistryggðra lána enduruppteknar.

Í mörgum fyrirtækjum er staðan sú að forsvarsmennirnir halda aftur af sér við að vaða í lánafyrirtækin til að rugga ekki bátnum og skapa „slæmt veður“ í bankanum.

Eftir standa ýmis dæmi um fólk í rekstri sem stendur enn í baráttunni í sínu fagi, með margra ára starfsreynslu og þekkingu. Allajafna hefði slíkur rekstur getað gefið vel af sér og skapað öruggt ævikvöld. Staðreyndin er hins vegar sú að margir eru í stöðu leiguliða í sínu eigin fyrirtæki.
En menn ættu þó ekki að örvænta – þessi mál eru öll til heildstæðrar skoðunar…

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.