Handaband Blatters

Stærsta vandamálið í knattspyrnuheimi dagsins í dag er ekki af fjárhagslegum toga. Það snertir ekki dómaramútur og kemur hvergi nálægt fótboltabullum. Í dag er stærsta vandamálið fordómar og það er sorgleg staðreynd.

Stærsta vandamálið í knattspyrnuheimi dagsins í dag er ekki af fjárhagslegum toga. Það snertir ekki dómaramútur og kemur hvergi nálægt fótboltabullum. Í dag er stærsta vandamálið fordómar og það er sorgleg staðreynd.

Þessu geta flestir verið sammála og eflaust hugsa margir með sjálfum sér „Já en ég myndi aldrei haga mér þannig.“ Nú vil ég alls ekki alhæfa neitt og trúi ég því statt og stöðugt að fæstir myndu sýna af sér þá fífldirfsku sem allt of margir atvinnumenn sýna á stóra sviðinu fyrir framan milljónir manna, en þó tel ég að stór hluti vandans sé sá að vandinn er nærri okkur en margan grunar.

Já, meira að segja á okkar litla Íslandi hafa kynþáttafordómar orðið að vandamáli og hefur of oft (er einu sinni ekki of mikið?) þurft að kvarta til KSÍ. Sambandið hefur reyndar unnið fagmannlega úr slíkum kvörtunum og allir þekkja herferðina Leikur án fordóma, sem að tók á þessum málum. Fyrir mitt leyti tel ég þó að meiri áhersla ætti að vera lögð á þessi mál af hálfu KSÍ og mættu þá auglýsingaherferðir varðandi virðingu gagnvart dómurum minna mega sín, þó að það sé vissulega brýnt málefni út af fyrir sig.

Og þá kynni ég til sögunnar Sepp Blatter. Hann er 75 ára hagfræðingur frá Sviss sem gegnir embætti forseta alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA. Hann var fyrst kjörinn forseti árið 1998 og hefur verið endurkjörinn þrisvar sinnum síðan þá, síðast núna í ár. Hann ætti að vera flestum sviðum íþróttarinnar kunnugur, en hann starfaði hjá FIFA í 23 ár áður en hann var fyrst kjörinn forseti. Hann hefur komið með ýmsar góðar breytingar á valdatíð sinni. Ein þeirra er reglan um silfurmarkið, en hún segir að ef annað liðið skorar mark í framlengdum leik að þá sé áfram spilað út leiktímann sem eftir lifir, en ef framlengt er skal spilað í 2×15 mínútur. Áður gilti reglan um gullmarkið en þá lauk leiknum ef annað liðið skoraði í framlengdum leik.

Einnig setti Blatter þá reglu að nú mega fagnaðarlæti leikmanna ekki fara úr hófi, og það er dómarans að meta, en leikmenn mega heldur ekki fara úr treyjunni þegar þeir fagna, vinum mínum í FH til mikillar gremju. Og þá hef ég talið upp þau góðverk sem hann hefur gert í þágu knattspyrnunar á síðustu 13 árum.

Það virðist nefnlega því miður yfirleitt vera á hinn veginn hjá Blatter. Umtal um spillingu undir stjórn hans þagnar ekki og þá er hann gjarn að taka mjög umdeildar ákvarðanir eða taka á málum með illskiljanlegum hætti. Sem dæmi má nefna að þá hefur hann neitað því að myndbandstækni verði notuð til aðstoðar dómurum. Slík tækni hefur reynst vel t.a.m. í NBA körfuboltanum og hún hefði getað komið í veg fyrir þann skandal þegar að Frakkar slógu út Íra í forkeppni HM 2010. Frakkar komust í lokakeppnina eftir að hafa skorað ólöglegt mark en Írar sátu svekktir eftir heima. Þar ákvað hann einnig að aðhafast ekkert.
Þá lagði hann til árið 2004 að kvenspilarar ættu að spila í þrengri stuttbuxum og í stuttum pilsum. Eðlilega féll þetta ekki í kramið.

Nú, rétt fyrir helgi, tók Blatter þó sína fáránlegustu ákvörðun til þessa. Undanfarið hafa verið miklar umræður í knattspyrnuheiminum vegna tveggja fordómamála sem hafa komið upp með stuttu millibili. Í báðum tilvikum er um þekkta leikmenn að ræða og því hefur málið líklega fengið meiri umfjöllun en ella, en það á ekki að skipta máli. Í báðum tilvikum hafa leikmenn sem eru dökkir á hörund ásakað aðra ljósari um orðbragð sem fól í sér kynþáttaníð. Í báðum tilvikum hefur svo ekkert verið sannað.

Allir geta verið sammála um að á slíkum málum verður að taka hart á. Hvergi á slík hegðun að líðast og sérstaklega ekki á knattspyrnuvellinum fyrir framan marga milljón manna. Og þá kemur snillingurinn Sepp og lætur það út úr sér að það sé enginn rasismi í fótbolta. Og bætir svo að við að slík mál sé auðvelt að leysa, helst ætti að gera það með handabandi eftir leik.

Ef að þetta er sú stefna sem koma skal í baráttunni við kynþáttafordóma getum við játast sigruð í dag. Ef að eins á að vera tekið á málum þar sem að einn maður kallar annan ónöfnun vegna litarháttar hans, og þegar vinnufélagar sættast eftir of harkalegar umræður í kaffihléinu, þá munu fordómar verða ævarandi vandamál. Á meðan að menn í æðstu stöðum knattspyrnunnar setja þessi fordæmi til þess að fara eftir þá munu fordómar alltaf vera til staðar, hvort sem að það er í Englandi eða hér á Íslandi.

Fordómar eiga aldrei að vera í boði, og þó að ég vilji ekki taka á þeim með handalögmálum þá veit ég að handaband er ekki nóg.

Latest posts by Árni Grétar Finnsson (see all)

Árni Grétar Finnsson skrifar

Árni Grétar hóf að skrifa á Deigluna í apríl 2011.