Fresta framtíðinni?

Í dag voru tillögur Framtíðarnefndar Kristjáns Þórs Júlíusarsonar kynntar fyrir landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Það vakti athygli að nokkrir fundarmenn fundu tillögunum Framtíðarnefndar ýmislegt til foráttu. Lítið fór fyrir efnislegum athugasemdum en þeir kvörtuðu hins vegar hástöfum yfir umfangi skýrslunnar sem þeir töldu vera þess eðlis að rétt væri að fresta meðferð hennar um 2 ár!

Í dag voru tillögur Framtíðarnefndar Kristjáns Þórs Júlíusarsonar kynntar fyrir landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Stærsti hluti tillagnanna lúta að breytingum á skipulagsreglum flokksins en meginhluti þeirra er kominn verulega til ára sinna. Fjölmargt hefur breyst frá setningu þeirra; svo eitthvað sé nefnt þá eru flokksmenn nú 50 þúsund, miklar tækniframfarir hafa orðið og áherslur í neyslumynstri og áhugamálum fólks hafa breyst verulega. Því má fullyrða að full þörf hafi verið á endurskoðun.

Tillögurnar eru afrakstur ársvinnu Framtíðarnefndarinnar sem var opin öllu flokksfólki. Tóku rúmlega 400 manns þátt í að móta tillögurnar í gegnum netið og á fundum víðsvegar um landið. Þær voru birtar opinberlega fyrir rúmlega tveimur vikum síðan og hafa síðan verið kynntar á fundum út um allt land.

Á landsfundinum í dag vakti það athygli að nokkrir fundarmenn fundu tillögunum Framtíðarnefndar ýmislegt til foráttu. Lítið fór fyrir efnislegum athugasemdum en þeir kvörtuðu hins vegar hástöfum yfir því að of lítill tími hefði gefist til að fara yfir skýrslu Framtíðarnefndar þar sem hún væri of löng til að hægt væri að lesa hana á tveimur vikum (128 bls. í A5 broti). Af þeim sökum væri landsfundi ómögulegt að taka afstöðu til tillagnanna og rétt að fresta meðferð þeirra. Niðurstaðan var sú að leggja til að tillögunum yrði vísað til (og á milli) ýmissa stofnana innan flokksins sem myndu á endanum leggja málið fyrir næsta landsfund 2013.

Meirihluti fundarmanna var þeim ósammála og þessi tillaga var felld í dag. Blessunarlega því ef hún hefði verið samþykkt væri landsfundur að senda út þau kolröngu skilaboð að Sjálfstæðisflokkurinn væri engu betri en hin versta ríkisstofnun. Að það tæki flokkinn alla vega 3 ár að gera nauðsynlegar breytingar á skipulagi sínu. Að rétta afgreiðslan væri að taka tillögurnar frá fjölmennum landsfundi og senda þær út og suður á milli fámennra flokksstofnana. Þessi hugmynd gekk þvert á þær hugmyndir sem lagt var af stað í upphafi þ.e. að gera allt verklag flokksins skilvirkara og auka vægi almennra flokksmanna í ákvarðanatöku innan flokksins.

Sem betur fer sýndi landsfundur í dag að þetta vantraust á landsfundarfulltrúum var ástæðulaust. Fjölmennur málefnanefndarfundur fór yfir hverja einustu tillögu, hver og ein var rædd í þaula, breytingartillögur gerðar og síðan var gengið til atkvæða. Sem dæmi má nefna að tvær umdeildustu tillögur Framtíðarnefndar í 5. gr. og 9. gr. tóku verulegum breytingum í dag. Þröskuldur fyrir almenna atkvæðagreiðslu á meðal allra flokksmanna skv. 5. gr. tilagnanna var hækkaður verulega og tekið var fyrir að slíkar atkvæðagreiðslur yrðu bindandi. Á sama hátt var tillagan um opin landsfund skv. 9. gr. felld og tekin ákvörðun um að halda áfram með núgildandi reglur varðandi val fulltrúa á landsfund. Eflaust eru ekki allir sáttir við þessa niðurstöðu en svona virkar lýðræðið í sinni hreinustu mynd.

Eftir þessa vönduðu meðferð standa tillögur Framtíðarnefndar eftir; mikilvægar breytingar sem eru bráðnauðsynlegar fyrir Sjálfstæðisflokkinn á komandi árum og verða þær teknar til lokaafgreiðslu á morgun. Ef til vill munu efasemdarmennirnir kjósa að líta fram hjá hinni góðu meðferð sem tillögurnar fengu í dag, halda áfram að boða vantraust á landsfundarfulltrúa og reyna að stöðva meðferð þeirra. Vonandi ber fundurinn gæfu til að hafna slíku vantrausti, taka tillögurnar til efnislegra meðferðar og skila nýjum endurskoðuðum skipulagsreglum.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.