Hláturinn þagnar

Að krefjast framlaga úr sameiginlegum sjóðum er þjóðaríþrótt á Íslandi. Hvar í flokki sem menn standa, í hvaða félagasamtökum sem þeir starfa, hvar á landinu sem þeir eru; framámenn eru hvarvetna metnir að verðleikum eftir því hversu vel þeim tekst til að fá þessi eða hin útgjöldin samþykkt, að ná þessu í gegn, að koma þessu til leiðar; nær undantekningarlaust með opinberu fé.

Að krefjast framlaga úr sameiginlegum sjóðum er þjóðaríþrótt á Íslandi. Hvar í flokki sem menn standa, í hvaða félagasamtökum sem þeir starfa, hvar á landinu sem þeir eru; framámenn eru hvarvetna metnir að verðleikum eftir því hversu vel þeim tekst til að fá þessi eða hin útgjöldin samþykkt, að ná þessu í gegn, að koma þessu til leiðar; nær undantekningarlaust með opinberu fé.

Fyrir það fyrsta þá er sú staðreynd að fé skuli á annað borð vera til skiptanna þannig að gera megi kröfu um það óræk sönnun þess að ríkisvaldið tekur of mikið til sín. Fólkið á sjálft að ráðstafa fé sínu þegar búið er að skila því inn sem nauðsynlegt er svo ríkið geti sinnt frumskyldu sinni. En látum það liggja milli hluta hér.

Því hefur á undanförnum misserum verið haldið fram í sífelld ríkari mæli að útgjöld hins opinbera á góðæristímanum uppúr aldamótum hafi verið of mikil. Þeir sem halda þessu fram eru gjarnan þeir sem sömu og duglegastir hafa verið við að vara við hruninu eftirá. Þetta eru einnig þeir sömu og sögðu skattalækkanir þess tíma í raun hafa verið skattahækkanir en segja nú að skattalækkanirnar hafi stuðlað að þenslu.

Eftir stendur þó að það er rétt að eyðsla hins opinbera á þessum tíma var miklu meiri en hún átti að vera. Helsta ástæða þess er væntanlega sú að ríkissjóður stóð alltof vel, það var alltof mikið til skiptanna. Tekjur ríkisins af atvinnustarfsemi, umsvifum og verðmætasköpun fólksins í landinu á þessum árum voru svo miklar, að þrátt fyrir Íslandsmet í skattalækkunum var mikið af því sem kalla mætti „umframfé“ sem hægt var að gera kröfu um. Þetta gerðist þrátt fyrir að háum fjárhæðum hefði verið varið til að greiða nær allar erlendar skuldir ríkissjóðs og mæta lífeyrisskuldbindingum hins opinbera í áður óþekktum mæli.

Þeir sem á þessum árum sannarlega töluðu um niðurskurð ríkisútgjalda, fækkun opinberra starfsmanna og róttæka uppstokkun á útgjaldahlið fjárlaganna voru undantekningarlítið hlegnir af sviðinu, settir út í horn og sagt að setja sig í samband við raunveruleikann áður en þeir létu heyra frá sér aftur.

Þannig snérist kosningabaráttan árið 2007 að mestu um að verulega þyrfti að auka útgjöld til heilbrigðismála, ástandið í þeim málaflokki jaðraði við heimsósóma. Tannhirða barna (lesist: ríkisábyrgð á fyrirhyggjuleysi foreldra) var eitt stærsta kosningamálið. Enginn skortur var á nýjum hugmyndum um ríkisútgjöld á þeim tíma. Enginn talaði um að það þyrfti að minnka bankakerfið, enginn talaði um að skera þyrfti niður ríkisútgjöld. Ekki fyrr en eftir á. Þá tala þeir mest um það sem mestar áhyggjur höfðu af tannheilsu barnanna fyrir hrun.

Eftir rétta viku verður landsfundur Sjálfstæðisflokksins settur. Sá sem þetta skrifar hefur setið flesta landsfundi flokksins síðan árið 1991 og þá jafnan verið i hópi þeirra sem sagðir eru í engum tengslum við veruleikann vegna hugmynda og tillagna um niðurskurð á rekstri hins opinbera. Ef einhvers staðar er von til þess að gagnsókn skynseminnar gegn sívaxandi hlutverki hins opinbera hefjist þá hlýtur það að vera á landsfundi eina stjórnmálaaflsins sem kennir sig við frelsi einstaklingsins. Það væri líka í takt við tíðarandann í flokknum þar sem sjálfstæði og fullveldi er í forgrunni. Þjóð með gjaldþrota ríkissjóð er hvorki sjálfstæð né fullvalda í neinum skilningi.

Bitur reynsla segir manni þó að meiri líkur séu til þess að fundurinn verði enn einu sinni að landsmóti í þjóðaríþróttinni.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.