Heldur þann versta en þann næstbesta

Hörðustu ESB sinnar hafa grafið undan þeim hugsjónum sem liggja til grundvallar Evrópusamvinnunni með því að neita að taka til skoðunar aðra valkosti í gjaldeyrismálum heldur en krónuna eða ESB aðild. Sú kredda gæti reynst Íslandi dýrkeypt.

Umræðan um kosti þess að Ísland gangi í Evrópusambandið á síðustu árum kann að vera farin að hafa þveröfug áhrif. Þetta er meðal annars afleiðing af einstrengingslegu viðhorfi helstu talsmanna þess að Ísland gangi í ESB, einkum er varðar gjaldmiðilinn. Markmiðið um að ganga í ESB virðist vera orðið mikilvægara heldur en öll þau gildi sem liggja ættu til grundvallar þeirri ákvörðun.

Samvinna Evrópuríkja á síðustu áratugum er að langmestu leyti ákaflega jákvæð. Evrópusamvinnan hefur grundvallast á því að auðvelda fólki að eiga viðskipti og önnur samskipti sín á milli án þess að láta landamæri eða þjóðerni trufla um of. Þetta er hið eðilega ástand hlutanna. Ef einn vill kaupa löglega vöru eða þjónustu af öðrum, þá er eitthvað bogið við að utanaðkomandi yfirvald komi í veg fyrir það. Það er nú samt sem áður mikið meginstef mannkynssögunnar að stjórnmálamenn og valdafíklar hafa kúgað þjóðir sínar frá því að eiga eðlileg viðskipti sín á milli. Þess háttar tilburðir hafa svo auðveldað fordómafullum stríðsæsingamönnum leikinn. Evrópusamvinnunni er ætlað að koma í veg fyrir þetta, að minnsta kosti innan Evrópu.

Flest frjálslynt fólk er ánægt með þennan þátt Evrópusamstarfsins, en margir hafa efasemdir um að þessu þurfi að fylgja sá mikli pólitíski samruni sem í auknum mæli er þrýst upp á aðildarþjóðirnar. Þessar efasemdir eiga sérlega vel við um þessar mundir þegar mikil breyting virðist vera að eiga sér stað í Evrópusambandinu, þar sem tveir af þjóðarleiðtogunum, hafa tekið sér vald til þess að tala í nafni sambandsins alls – dag eftir dag – án þess að séð verði að mikið samráð sé haft við aðrar aðildarþjóðir.

Hér á Íslandi hefur líklega aldrei verið raunverulegur vilji til þess að ganga í Evrópusambandið. Skoðanakannanir hafa stundum sýnt meirihluta fyrir viðræðum en líklega hefðu kosningar um aðild aldrei endað öðruvísi en með því að samningur yrði kolfelldur. Síðustu misseri hafa ekki aukið sigurlíkur aðildarsinna.

Hins vegar hafa skoðanakannanir einnig sýnt verulegan stuðning við að taka upp annan gjaldmiðil en íslensku krónuna. Þetta vita aðildarsinnar og hafa því lagt sig í framkróka við að láta spurninguna um ESB snúast um „krónuna eða evru“. Einhvers konar hápunkti náði þessi málflutningur þegar 32 sjálfstætt þenkjandi hagfræðingar rituðu saman grein í Morgunblaðið í upphafi árs 2009. Sú grein bara yfirskriftina: „Einhliða upptaka evru er engin töfralausn.“ Greininni var ætlað að drepa umræðu um fullkomlega raunhæfan kost í gjaldeyrismálum, af því að hörðustu aðildarsinnarnir gátu ekki hugsað sér að láta hann þvælast fyrir ESB-áróðrinum. Þessi grein var líklega skrifuð á grundvelli þess pólitíska misskilnings að Sjálfstæðisflokkurinn væri líklegur til þess að styðja aðildarumsókn og reyndist vera mikið slysaskot.

Greinin sjálf var hæpin. Annars vegar virtist hún byggja á þeirri forsendu að allar hugmyndir, sem ekki byggðust á núverandi kerfi eða ESB aðild, þyrftu að uppfylla þá kröfu að vera „töfralausn“ til að hægt væri að ræða um þær. Það er fáránlegur mælikvarði. Engum dettur í hug að til séu slíkar „töfrlausnir.“ Stjórnmál snúast um valkosti, sem hafa kosti og ókosti. Sá sem leggur til breytingar þarf vitaskuld að reyna að sannfæra aðra um að breytingin sé mjög líklega til batnaðar, en með kröfu um „töfralausn“ er auðvitað skotið loku fyrir hvers konar breytingar. Á hinn bóginn var greinin hún tilraun til að slá út valkost, sem hagfræðingarnir sjálfur treystu sér ekki til þess að afskrifa, því í greininni komust þeir ekki hjá því að viðurkenna að einhliða upptaka væri sannarlega möguleg.

Þessi grein og áframhaldandi meinlokumálflutningur hörðustu ESB sinna gegn því að skipan gjaldeyrismála sé breytt einhliða hefur sundrað þeim pólitíska meirihluta sem er almennt sammála um að frjáls viðskipti séu góð og að Íslendingar eigi að hafa kost á að upplifa frjálsa samkeppni á sem stærstum markaði. Í stað þess að viðurkenna að gjaldmiðlavandamálið sé hægt að leysa óháð afstöðunni til Evrópusambandsins hafa þeir gert fræg orð Snæfríðar Íslandssólar að vígorði sínu. Og viðspyrnan frá hörðustu ESB andstæðingum hefur vitaskuld verið sú að í stað þess að viðurkenna orðinn hlut varðandi krónuna hafa þeir hallað sér ennþá meira í áttina að henni, og vilja nú sumir snúa baráttunni gegn EES samningnum.

Fólk sem stendur utan stjórnmálanna lætur þó ekki að sér hæða með þessum hætti. Í könnun sem Capacent vann í sumar kom fram að tæpur helmingur (48%) þeirra sem svöruðu sögðust tilbúnir til þess að taka upp kanadíska dollarann. Í aldurshópunum 25 – 54 ára var drjúgur meirihluti fyrir þessari hugmynd (56%). Stuðningurinn við að taka upp mynt, sem fáir Íslendingar þekkja af eigin raun, sýnir að spurningin gæti allteins hafa snúist um „eitthvað annað“ – eða „einhverjar alþjóðlega gjaldgenga mynt.“ Hún sýnir að minnsta kosti að stór hluti þjóðarinnar er á allt annarri línu en stjórnmálamennirnir.

Er ekki orðið tímabært að stuðningsmenn frjálsra viðskipta og heilbrigðara umhverfis fyrir íslenskar fjölskyldur og athafnalíf brjóti odd af oflæti sínu og viðurkenni alla möguleikana í stöðunni, í stað þess að halda fast við sinn keip.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.